23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

185. mál, landshöfn í Rifi

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Sk. sagði, að enginn hefði flutt framsögu fyrir þessu máli er það kom til 1. umr. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Ég var að vísu fjarstaddur, er umræðan fór fram, en form. sjútvn., hv. þm. Borgf., talaði fyrir málinu. Það er heldur ekki rétt hjá hv. þm., að þetta mál sé ókunnugt deildinni. Frv. um landshöfn í Rifi hefur áður verið flutt á Alþingi, auk þess sem Alþingi hefur sýnt þessu máli mikinn velvilja með því að veita á fjárl. 1950 100 þús. kr. til hafnar í Rifi og nú á fjárl. þessa árs 1/2 millj. kr., sem mun vera hæsta framlag til hafnar hér á landi. Vegna þessa var ákveðið að hefjast handa um framkvæmdir nú í vor á Rifi. Var hv. þm. Hafnf. fenginn til að gera kostnaðaráætlun, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að þessar 600 þús. mundu ekki nægja til hafnarframkvæmdanna, og urðum við sammála um að flytja frv. um framkvæmdir í Rifi. Frv. þessu var vísað til hv. sjútvn., sem ræddi málið á tveim fundum sínum. Þegar málið var þetta langt komið, barst sjútvn. beiðni frá ríkisstj. um að flytja frv. um landshöfn í Rifi. Ég veit, að hv. þm. er hlynntur þessu máli, og þar sem hann er einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., tel ég víst, að honum sé fullkunnugt um þann hátt, sem hafður er á, að í stað þess að hv. þm. Hafnf. og ég fórum fram á að stjórninni væri heimiluð lántaka að upphæð 3 millj. kr., kæmi ákvæði um landshöfn í Rifi. Í sambandi við landið, sem þessi höfn byggist á, þá var hæstv. ríkisstj. heimilað á fjárl. 1950 að kaupa jörðina Rif, sem framkvæmt hefur verið. Kostnaður hefur verið áætlaður og hæstv. ríkisstj. kynnt sér þá áætlun. Hv. þm. Hafnf., sem óhætt er að fullyrða að bezt er kunnugur þessu máli af öllum þm., hefur kynnt sér allar aðstæður, og hann telur þarna skilyrði fyrir eina af glæsilegustu höfnum hér við ströndina. Ég þarf ekki að lýsa þeirri þörf, sem er fyrir þessar framkvæmdir, né þeirri stóru von, sem íbúar Snæfellsness gera sér um þessar framkvæmdir. Þær hafa verið á döfinni í mörg ár, og þess vegna hefur ekkert verið gert undanfarin ár í hafnarmálum Hellissands. Þótt búið hafi verið að koma upp nokkrum hafnarbótum í svonefndri Krossavík, þá hefur ekkert verið gert til þess að ljúka þeim s.l. 7 ár, bæði fyrir erfiðar aðstæður, en þó einkum vegna þess, að íbúar Hellissands og raunar Ólafsvíkur líka hafa byggt á því, að hafizt yrði handa um hafnargerð í Rifi. Það má geta þess, að þegar höfn hefur verið gerð þarna, þá kemur það ekki einungis Hellissandi og Ólafsvík til góða, heldur mundi það einnig létta á höfnunum við Faxaflóa, því að skip, sem annars mundu leggja þar upp, mundu nú leita til Rifs. Eins og kunnugt er, eru góð mið við Snæfellsnes, bæði að sunnan og norðan, og gera menn sér miklar vonir um hagnýtingu þessara miða, þegar góð höfn er komin í Rifi. Það er ánægjulegt til þess að vita, hve hæstv. ríkisstj. er samhent um að koma upp þessari höfn. og ég veit, eftir því sem ég hef heyrt hjá hv. þm., að þeir munu vera sammála um að koma þarna upp landshöfn. Mér heyrðist einnig á hv. þm. A-Sk., enda þótt hann teldi litla rækt lagða við hafnarmál hér í hv. d., að hann mundi vera þessu máli meðmæltur, og er ég þakklátur fyrir það. Ég vona, að hæstv. forseti sjái sér fært að láta afgreiða málið hér úr deildinni á þessum fundi, þar sem líða mun nú að þinglokum og æskilegt væri, að frv. yrði lögfest á þessu þingi.