05.02.1951
Neðri deild: 63. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 602, er flutt af heilbr.- og félmn. eftir beiðni félmrn., og áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma við málið. Í grg. frv., sem fylgir því frá ráðuneytisins hálfu, er þess getið, að útlendingar, sem dvelja hér á landi, séu um 2430 manns. Eru það menn við ýmiss konar störf, en stærstu hóparnir af erlendu fólki eru starfsmenn á Keflavíkurflugvelli og fólk það, sem fengið var til landbúnaðarstarfa frá Þýzkalandi fyrir tæpum 2 árum síðan.

Frv. þetta, ef að lögum verður, á að koma í stað laga frá 1927, sem fjalla um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi. Í þessu frv. eru lagðar til nokkrar breyt. frá því, sem nú er í gildandi lögum um þetta efni frá 1927. Helztu breyt., sem farið er fram á að gera í þessu frv., eru: Í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir, að félmrn. afgr. leyfin í flokkum, þannig að gerður sé þrenns konar greinarmunur á þeim leyfum, sem ráðuneytið veitir. — Í öðru lagi, að hér eftir samkv. þessu frv. þurfi leyfi ráðuneytisins til þess að ráða sérfræðinga og kunnáttumenn í iðju og iðnaði til landsins. En eins og l. eru nú, þá er hægt að ráða slíka menn án þess, að leyfi ráðuneytisins komi til. — Í þriðja lagi á að gera breyt. frá gildandi l. um, að leyfi félmrn. þurfi til þess að ráða fólk til landbúnaðarstarfa eða vinnuhjú til bænda. Eins og l. eru nú, þá er slíkt heimilt án sérstaks leyfis rn. Um þetta atriði hefur verið leitað umsagnar Búnaðarfélags Íslands, áður en frv. var lagt fram, og sýnir grg., hver voru svör Búnaðarfélagsins um þetta atriði. En þau eru á þá lund, að B. Í. sér ekki ástæðu til þess að halda í þau sérréttindi, sem gildandi l. veita í þessu efni. — Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að ef brotið er í bága við ákvæði l. á einn eða annan hátt, þá komi til þeirra viðurlaga, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., eins og var í hinu frv., að ráðh. sé heimilt að afturkalla leyfin, sem rn. hefur gefið, ef sýnt þykir, að þeim skilyrðum, sem sett eru í sambandi við þessi 1., er ekki fullnægt á einn eða annan hátt. En eins og l. eru nú um þetta efni, þá er gert ráð fyrir því, að ráðh. kveði upp sérstakan úrskurð, áður en til slíks kemur. — Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því, að sektir, sem dæmdar kunna að verða vegna þess, að l. er ekki fylgt, séu fimmfaldaðar frá því, sem ákveðið er í l. frá 1927. — Undantekningar frá því, að félmrn. gefi út leyfi til manna til þess að stunda atvinnu hér á landi, eru þær samkv. 5. gr. frv., að mönnum er heimilt að ráða til sín í vinnu erlenda frændur sína að feðgatali eða niðja, kjörbörn, fósturbörn og systkini án sérstaks atvinnuleyfis; sendimönnum erlendra ríkja er heimilt að hafa erlenda menn í einkaþjónustu sinni; enn fremur má ráða erlenda menn á íslenzk skip innan þeirra takmarka, sem í 1. segir. Fyrirmæli þessara 1. eiga ekki að ná til erlendra manna, sem stunda nám í skólum, sem íslenzka ríkið á eða styrkir, og ekki heldur til þeirra erlendra manna, sem dveljast hér við rannsókna- eða vísindastörf, og ekki til þeirra manna erlendra, sem hér höfðu aðsetur, er l. nr. 13 31. maí 1927 komu til framkvæmda, og hafa dvalið hér samfleytt síðan. Þetta eru þær helztu undantekningar, sem í frv. er gert ráð fyrir að verði í gildi samkv. þeim reglum, sem hér á að setja.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, þar sem þau atriði, sem nýmæli eru og ég hef drepið á, eru skýrð í grg. þeirri, sem fylgir frv. frá hálfu félmrn.