12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn frá hv. 2. þm. Reykv. vil ég taka þetta fram:

Ég skal fyrst koma að því atriði, er snertir 3. gr. frv., sem hv. þm. minntist fyrst á. Hann virtist álíta. að með ákvæðum 3. gr. væri verið að rýmka, frá því sem verið hefði áður, möguleikana til þess að fá atvinnuleyfi. En þessu er þó ekki svo farið, því að samkv. lögum frá 1927 um þetta efni þurfti ekki neina slíka heimild frá atvmrn., sem þetta hefur þá sennilega heyrt undir, af því að félmrn. var þá ekki til, til þess að gera þetta, heldur þurfti venjuleg atvinnuleyfi og ekkert annað. En með þessu er í raun og veru verið að þrengja þetta að því leyti, að það er ætlazt til samkv. þessum ákvæðum. að þessi leyfi verði ekki veitt, nema ráðuneytið telji sérstaka þörf á. Þess vegna held ég, að ummæli og afstaða hv. 2. þm. Reykv. sé ekki á rökum reist. Ég skal taka fram almennt, að það var hugmyndin með þessu frv. yfirleitt að brengla möguleikana til þess, að erlent fólk gæfi komið hingað og setzt að með tiltölulega litlum heimildum og stundað atvinnurekstur eða einhvers konar vinnu. Vil ég meðal annars nefna þau ákvæði, er snerta fólk til landbúnaðarstarfa. Þar er tvímælalaust um mjög mikla þrengingu að ræða frá því, sem áður var. Mun verða litið á það misjafnlega af hálfu bændastéttarinnar, sem oft hefur gripið til lausafólks frá útlöndum án þess að hafa mikil form þar á. En við höfum talið rétt að láta sama gilda um það fólk eins og annað fólk.

Þá minntist hv. 2. þm. Reykv. á 7. gr. frv. og telur, eins og rétt er, að þar sé að nokkru leyti um nýmæli að ræða, þar sem heimilt sé samkv. þeirri gr. að veita erlendum mönnum atvinnurekstrarleyfi að einhverju leyti. En þetta hefur nú áreiðanlega verið gert að einhverju leyti undanfarið, án þess að nokkur veruleg heimild hafi verið til þess í l. En það virtist vera miklu heppilegra að hafa ákvæði um það, að sérstakt leyfi frá ráðuneytinn þyrfti til. Og ég vildi taka greinilega fram, að meðan ég er í ráðuneytinu, er ég ákveðinn í því að beita þessari heimild afar varfærnislega og veit, að það er ástæða til þess. Það er að vissu leyti mjög svipað um þetta ákvæði í 7. gr. og það, sem við höfum talað um áður, mjög óljós lagaákvæði, og þótti heppilegra að taka þetta þarna inn. — Hv. þm. spurði, hvort sömu ákvæði í reglugerð mundu gilda. Ef hv. þm. meinti atvinnuleyfanefndina, þá hefur hún verið afnumin. Hins vegar hefur sú aðferð verið notuð af hálfu ráðuneytisins að leita til þeirra iðngreina, sem málin heyra undir. Það er leitað til fulltrúa þeirrar iðngreinar, sem maðurinn ætlar að stunda.

Þetta var gert t.d. fyrir fáum dögum um mann, sem vildi fá leyfi til að setja hér upp að nokkru leyti sérstakan atvinnurekstur. Var beint leitað til iðnfulltrúa og þeirra, sem um það hafa að ráða. Ég vildi taka fram, að ég hef hugsað mér að framkvæma þetta á þann hátt að leita til þeirra samtaka, sem hafa með viðkomandi vinnu að gera, hvort sem það er bein iðn eða annar atvinnurekstur.

Þá vil ég að lokum taka fram, að tilgangurinn með því að breyta l. frá 1927 er fyrst og fremst sá að setja þetta í fastara form, taka fram þau atriði, sem ekki er bundið í l. áður, hvernig eigi með að fara, og að vissu leyti að þrengja á sumum sviðum, eins og gert hefur verið gagnvart landbúnaðarverkafólkinu sérstaklega.