12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég er í sjálfu sér ánægður með framkomu þessa frv., því að það var mín reynsla, meðan ég hafði yfirstjórn félmrn., eins og komið hefur í ljós í grg. frv. og rökstutt er af hæstv. félmrh., að löggjöfin um þetta er dálítið óljós og þyrfti að betrumbæta, sérstaklega í sambandi við innflutning á fólki til landbúnaðarstarfa, þar sem félmrn. gat ekki haft afskipti af því máli, enda kom í ljós, að landinu varð stór byrði af, áður en lauk, og sennilega ekki séð fyrir endann á því enn þá. En ég vildi spyrja hæstv. fors.- og félmrh., þó að það sé raunar sjálfgefið hvort ekki gildi enn þá ákvæði, sem verið hafa, að dómsmrn. veiti leyfi til landsvistar. Það mun vera í l. um eftirlit með útlendingum, og ég sé ekkert í þessu frv., sem breyti því. Gæti ég vel hugsað mér, að félmrn. hefði með höndum að veita slík landsvistarleyfi, eftir að hafa haft um það samráð við dómsmrn., því að það er dálítið stirður gangur og örðugt í framkvæmd að þurfa að sækja um leyfi til tveggja ráðuneyta fyrir útlendinga, sem hér vilja stunda atvinnu á einhverju tímabili, til dómsmrn. um landsvistarleyfi og til félmrn. um atvinnuleyfi. — Ég hef einnig höggvið eftir því, að 3. gr. frv., sem hæstv. fors.- og félmrh. hefur nú skýrt, mundi, eftir að sú nefnd hefur verið lögð niður, sem fjallaði um þessi mál, verða framkvæmd á bann hátt í ráðuneytinu, að það leitar umsagnar hlutaðeigandi atvinnugreina eða réttara sagt félagssamtaka í hlutaðeigandi “atvinnugreinum, sem snerta þann mann, sem sækir um atvinnuleyfi hér á landi. Nú efast ég ekki um, að núverandi fors.- og félmrh. mundi fylgja þeirri reglu, sem hann hefur tekið upp, frá því er nefndin var lögð niður. En vera mætti, ef ekki er nánar bundið í l. en í frv. er gert, að félmrh., sem fjallar síðar um þessi málefni, sæi enga ástæðu til að leita ráða og upplýsinga hjá félagsskap hlutaðeigandi starfsgreina, ef ekki er bundið í löggjöf. Hefði ég þar af leiðandi talið réttara, þó að ég hafi ekki séð ástæðu til að flytja brtt. um það, að bundið hefði verið í löggjöfinni, að félmrn. ætti, áður en það ákveður um atvinnuleyfi, að leita umsagnar verkalýðssamtakanna í hlutaðeigandi starfsgrein á staðnum, þar sem veita ætti leyfið. — Ég vildi aðeins láta þessa aths. koma fram, áður en málið fer úr d., og ég hefði í rauninni kosið, að 3. gr. frv. hefði verið ákveðnari hvað þetta atriði snertir. Ég hefði vel getað hugsað mér félmrn. hafa rétt til að ákvarða bæði um landsvistarleyfi og atvinnuleyfi. Hins vegar er dómsmrn. nauðsynlegt og lögreglustjóra á hverjum stað að hafa fullkomna skrá um alla útlendinga, sem hér dvelja í landinu, til þess að geta fylgzt með þeim, og þá skrá mun félmrn. geta samið og afhent dómsmrn. og hlutaðeigandi lögreglustjóra. En yfirleitt tel ég, að þetta frv. sé til bóta frá því, sem áður var, enda hefur verið vitnað í þá sorglegu reynslu, sem varð seinast á þeim tíma, sem ég hafði yfirstjórn félmrn. Það reyndist mjög óhentugt að hafa fólk hér í stórum stíl utan við öll lög. Og þegar horfurnar eru nú verri en tíu undanfarin ár í atvinnumálum Íslendinga, er brýn þörf að viðhafa fulla gætni í þessu máli, en eins og ég sagði áðan, treysti ég núverandi fors.- og félmrh. til að framfylgja þeirri reglu, sem hann hefur upp tekið, að leita til starfsgreinanna, en hefði kosið, að þetta væri fast bundið í löggjöfinni. Má vera að það komi seinna fram á Alþingi á einn eða annan hátt.