12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Einar Olgeirsson:

Ég vil aðeins þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar undirtektir viðvíkjandi þeim skýringum, sem ég var að óska eftir á þessum vissu greinum, og þær yfirlýsingar, sem hann hefur gefið um það, hvernig hann mundi — a.m.k. meðan hann ræður — beita þeim. Og raunverulega mun þetta vafalaust mega skoðast sem sú almenna stefna, sem í l. felst, hvað framkvæmdina snertir. Ég tók eftir því með ánægju, að hann sagði viðvíkjandi 7. gr., að það bæri að beita þeirri heimild afar varfærnislega, og er það mjög gott. Enn fremur vil ég taka fram viðvíkjandi atvinnuleyfanefnd, sem hann sagði að væri niður lögð, að ég tel fyrir mitt leyti fyllilega eins gott — og jafnvel betra fyrirkomulag, að ráðuneytið snúi sér til stj. verkalýðsfélaganna og iðnfélaganna í viðkomandi grein til þess að fá upplýsingar, því að í raun og veru fengjust alltaf með því enn þá öruggari upplýsingar en þó að ein allsherjarnefnd væri fyrir allt landið. Einnig þótti mér vænt um að heyra undirtektir hæstv. ráðh. undir það að setja inn í l. bindandi ákvæði um þetta, að hann er ekki á móti því, þó að hann sjálfur lýsti yfir, að hann mundi sjálfur alltaf snúa sér til verkalýðsfélaganna. Ég held þetta þyrfti ekki að tefja málið, ef till. í þá átt kæmi fram nú, svo að ekki þyrfti að þvæla málinu aftur hingað frá Ed.