02.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af heilbr.- og félmn. Nd. að beiðni félmrn. og var á þskj. 602 útbýtt 1. febr. — Þetta frv. var, eins og það lá fyrir, að mestu leyti í sama formi og gömlu l., en aðalbreyt. frá núgildandi l. er sú, að í þessu nýja frv. er greint á milli þrenns konar leyfa, þ.e.a.s. leyfa, sem veitt eru innlendum atvinnurekendum til að hafa erlenda menn í þjónustu sinni, leyfa, sem veitt eru erlendum mönnum til að ráða sig í vinnu hjá innlendum atvinnurekendum í ákveðnum starfsgreinum, og leyfa, sem veitt eru erlendum mönnum til að stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Það þykir hafa komið í ljós á undanförnum árum í sambandi við veitingar atvinnuleyfa, að heppilegra sé að greina á milli þessara þriggja tegunda af atvinnuleyfum útlendinga. — Önnur breyt. er sú, að samkv. þessu frv. verða atvinnurekendur að fá leyfi félmrh. til að ráða til sín erlenda sérfræðinga og aðra kunnáttumenn, sem ekki er hægt að fá innanlands, og sama gildir um vinnuhjú bænda, en samkv. þeim l., er nú gilda, hefur verið heimilt að ráða slíkt fólk án sérstaks leyfis. Sendi félmrn. Búnaðarfélagi Íslands þetta atriði til umsagnar, og í svarbréfi frá Búnaðarfélaginu til rn. er tekið fram, að Búnaðarfélagið óski ekki eftir, að réttur bænda sé annar í þessu efni en annarra landsmanna.

Frv. þetta var borið fram í þeirri mynd, sem gengið hafði verið frá því af félmrn., og fór það í gegnum hv. Nd. svo til óbreytt. Eina breyt. er í 1. mgr. 3. gr., þar sem nú er komið inn í frv., að atvinnuleyfi skuli veitt að fengnum tillögum verkalýðsfélags á staðnum. Aðrar breyt. hafa ekki verið gerðar í Nd.Allshn. þessarar d. hefur nokkuð athugað þetta frv. og málið í heild. Átti n. allmiklar samræður um það við útlendingaeftirlitið í Rvík, sem ber nú hitann og þungann af framkvæmd þessara mála. Eftir það ræddi n. einnig við félmrn., og að því búnu var rætt við mann frá útlendingaeftirlitinu og fulltrúa frá félmrn. í sameiningu, og upp úr þeim samræðum hafa orðið til þær brtt., sem n. leggur hér fram. Það skal tekið fram, að einn nm., hv. þm. Seyðf., var veikur, einn nm. skrifaði undir með fyrirvara og enn aðrir nm. munu telja, að frv. þetta hefði átt að vera í allt öðru formi og undirbúið á annan hátt en hér er gert ráð fyrir. En félmrh. leggur mjög mikla áherzlu á að fá frv. gegnum þingið á þeim stutta tíma, sem eftir er, og vildi n. ekki með nokkru móti hindra, að svo gæti orðið, en taldi þó óhjákvæmilegt að leggja til, að gerðar yrðu á frv. einhverjar breyt. Hefði frv. orðið að fara aftur til Nd. hvort sem var, þar sem tekið er fram á tveimur stöðum í frv. eins og það kom frá Nd., að lög þessi skuli þegar öðlast gildi. Töldum við þá rétt að gera fleiri breyt. við frv., úr því að laga þurfti þennan „lapsus“ hvort sem var, þannig að þessar brtt. okkar geta engan veginn talizt tilræði við frv. Ég legg sem sé áherzlu á það, að við hefðum talið æskilegt, að undirbúningi þessa máls hefði verið hagað með öðrum hætti, betur vandað til hans og meira samband haft við þá menn, sem starfa að þessum málum daglega og vita gleggst, hvar skórinn kreppir. — Þessar brtt. eru allar gerðar í samráði við félmrn., það lagði n. áherzlu á, til þess að ekki yrði þess vegna nein töf á málinu.

1. brtt. er við 2. mgr. 1. gr., þar sem er skilgreining á því, hvenær þessi og þessi maður teljist stunda atvinnu hér á landi. Þessi skilgreining verður eiginlega að teljast alveg röng, og er hér lagt til, að þessi málsl. falli niður, þar sem telja verður nægilega þá skilgreiningu, sem er í 1. og 3. mgr. þessarar gr.

Þá er brtt. við 2. gr. Við 1. mgr. er lögð til sú breyt., að bætt sé inn í, að það sé óheimilt „að flytja til landsins og/eða taka erlenda menn í þjónustu sína“. — Þá er lagt til, að bætt verði nýrri mgr. við gr., um það, að erlendum mönnum sé óheimilt að ráða sig í vinnu eða gegna þjónustu hjá öðrum, nema atvinnuleyfi hafi verið gefið. Það kom fram, að útlendingum voru engar skyldur lagðar á herðar samkv. frv., heldur aðeins vinnuveitendum, en með því að fella inn þessa viðbót við gr. eru útlendingum lagðar skyldur á herðar í sambandi við l.

Þá er næst brtt. um, að 5. gr. falli niður, en ég tek fram, að 2. mgr. er flutt yfir í 8. gr. Það er þannig gert ráð fyrir, að niður falli 1. mgr., sem er um það, að mönnum sé heimilt að ráða til sín í vinnu erlenda frændur sína, eins og þar greinir. Leit n. svo á, að eðlilegt væri, að fá þyrfti atvinnuleyfi fyrir það fólk eins og annað fólk, sem stundar hér atvinnu. — 3. mgr. er þannig í frv.: „Enn fremur má ráða erlenda menn á íslenzk skip innan þeirra takmarka, sem í lögum segir.“ Var ekki talið óeðlilegt að fella þessa mgr. niður. Hún vísar til ákvæða lagaheimildar frá 1922 um það, að allt að helmingur skipshafnar megi vera erlendir menn. — Breytist svo greinatalan samkvæmt þessu.

Inn í 8. gr. bætast svo tveir nýir málsl., hinn fyrri um, að ekki þurfi að sækja um atvinnuleyfi fyrir erlenda menn í einkaþjónustu erlendra ríkja, og hinn síðari um þá, sem hafa verið íslenzkir ríkisborgarar frá fæðingu, en hafa misst íslenzkan ríkisborgararétt.

Þá er brtt. við 9. gr., um að lækka sektarlágmarkið niður í 50 kr. Þótti n. þetta heppilegra, með tilliti til þess, þegar ætlazt er til, að þetta nái til útlendinga, sem kannske hafa lítið fé, þannig að þetta yrði þá líka til þess að gefa þessu mildari svip gagnvart öðrum þjóðum.

Loks er svo síðasta brtt., við 12. gr., um að gr. orðist eins og þar segir, og eru þar felld niður úr gr. orðin: „sem öðlast þegar gildi“, og 13. gr. stendur eins og hún er.

Ég hef þá rakið þessar brtt. nokkuð, og eru þær að mestu lagfæringar, en aðalbreyt. liggur í 2. gr. Það voru tvær brtt., sem komu til mála og voru ræddar í n. Önnur var í sambandi við það, að þegar hingað koma á sumrin heilir hópar stúdenta og óska að kynnast landinu og vera á sveitaheimilum stuttan tíma að sumrinu, þá er hvergi í þessu frv. gert ráð fyrir, hvernig eigi að snúast við slíku. Það er ekki gert ráð fyrir því, að þeir hafi tíma til þess að sækja um atvinnuleyfi, og þeir geta ekki heldur beint talizt ferðamenn. Félmrn. vildi ekki fallast á, að slíkir flokkar væru undanskildir því að sækja um atvinnuleyfi, og ber n. ekki fram neina brtt. í þá átt.

Annað þekkt fyrirbæri er það, þegar keyptar eru vélasamstæður frá útlöndum og erlendir menn eru jafnframt fengnir til þess að setja vélarnar upp og prófa þær. Þetta er innifalið í vélakaupverðinu, en það kostar oft mikla örðugleika og tímatöf að fá atvinnuleyfi fyrir þessa menn. N. vildi leggja til, að veittar væru einhverjar undanþágur fyrir slíka menn, en félmrn. vildi ekki fallast á það, og er þessi brtt. því ekki borin fram.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að minnast á eitt atriði, sem er mjög athyglisvert í sambandi við þetta mál, sem sé það, hvers konar réttargangur eigi að vera á atvinnumálum erlendra manna hér á landi. Það er nú þannig samkv. l., að þeim Íslendingum, sem hafa fengið þetta fólk inn í landið, ber skylda til að kosta það úr landi, en vafalaust er margt af þessum útlendingum fólk, sem hendist stað úr stað og hefur reynzt Íslendingum óábyggilegt. Hins eru líka dæmi um fólk, sem hefur yfirleitt komið sér vel og er búið að vera hér lengi, að ef það lendir í einhverjum árekstrum við vinnuveitanda sinn, þá getur hann krafizt þess, að það fólk sé rekið úr landi og eigi hingað aldrei afturkvæmt, og tel ég slíkt réttarfar ekki mjög heppilegt fyrir okkur, því að það mundi spilla svo áliti okkar erlendis, að mál útlendra manna, þótt umkomulausir séu, væri rekið með þessum hætti hér á landi. Væri mikil þörf á að taka þetta rækilega til athugunar. — Læt ég svo máli mínu lokið að sinni.