02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. ber fram á þskj. 761 nokkrar brtt. við frv. þetta. Fjórar þeirra eru einungis leiðréttingar, — að fella niður orðið „og“ í 2. og 5. gr., þar sem stendur „og 1 eða“, en láta aðeins standa „eða“. Þetta þótti réttara; enn fremur eru till. til leiðréttingar, sem stafar af því, að 5. gr. er felld niður; 3. og 4. brtt. eru svo um breytingu á röð greinanna. — 5. brtt. er um það, að 2. liður í 8. gr. falli niður. Ég hef aflað mér upplýsinga um það atriði, og það er þannig, að þessi liður felur ekki í sér þá hættu, sem hv. þm. Barð. taldi að mundi vera. Vegna laganna um náttúrurannsóknir eru gerðar sérstakar ráðstafanir fyrir þá menn, sem vilja stunda hér vísindastörf. Til þess þarf önnur og strangari leyfi en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þessi liður hefur því í þessu atriði ekkert gildi. Þess vegna leggur n. til, að þessi liður falli niður. Mér finnst einmitt, að þetta atriði, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, sýni, að þetta mál hefði þurft betri undirbúning, og það má vera, að það sé um fleira, sem n. hafi yfirsézt. En ég vona þó, að það sé ekki fleira, sem þurft hafi athugunar við. — Læt ég svo þessi orð nægja.