26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla, sem hv. frsm. minni hl. n. viðhafði hér áðan, held ég, að það sé óhjákvæmilegt, að ég gefi nokkrar upplýsingar, því að þar var hallað réttu máli. Hv. frsm. minni hl. ræddi mikið um, eins og á hefur verið bent, að framlögin til Tryggingastofnunarinnar frá sveitarfélögunum væru mjög þungbær. Ég hygg, að þetta sé algert rangmæli og á misskilningi byggt. En að sjálfsögðu verð ég að játa, að þetta fer eftir því, hvern samanburð menn gera á ástandinu annars vegar áður en l. um tryggingarnar voru sett og hins vegar eftir að þau l. voru sett. — Heildarupphæðin, sem sveitarfélögin greiddu til trygginganna, voru 10,8 millj. kr. á ári undanfarin ár. 1949 voru útsvarsgreiðslur sveitarfélaganna um 75 millj. kr. á öllu landinu, og þá fóru tæplega 14% af heildarútsvarsgreiðslum þeirra til Tryggingastofnunar ríkisins. Nú árið 1951 er gert ráð fyrir, að framlag til Tryggingastofnunar ríkisins hækki um 8%. Ég hygg, að heildarútsvarsgreiðslur sveitarfélaganna hafi 1950 numið milli 90 og 100 millj. kr. á öllu landinu, þannig að þá verði upphæðin hlutfallslega lægri, sem sveitarfélögin greiða til Tryggingastofnunarinnar, miðað við heildarupphæð útsvarsgreiðslna hjá þeim það ár, heldur en 1949. — Þegar tryggingalöggjöfin var sett, var svo til ætlazt, að sá hluti kostnaðarins við hana, sem sveitarfélögunum var ætlað að bera, mundi nema einum sjöttu hluta af heildarkostnaði trygginganna.

Í þeirri skýrslu, sem Tryggingastofnunin gaf út 1949 um starf sitt fyrir fyrstu tvö árin, sýndi sig, að útgjöld sveitarfélaga til fátækraframfæris var komið niður í 7% af heildargreiðslum útsvara hjá sveitarfélögunum. En áður en alþýðutryggingalögin voru sett árið 1936, voru yfir 50% af útsvörum sveitarfélaganna, sem gengu til fátækraframfærisins eingöngu. Þessi breyt. er vitanlega ekki eingöngu tryggingunum að þakka. Þar kemur fleira til greina, breytt árferði o.s.frv. — Og svo leyfir hv. 7. landsk. sér að láta í það skína, eins og skilja má af hans nál., að lítill munur sé á fátækraframfærinu á undan og eftir að tryggingalöggjöfin var sett. (FRV: Ég hélt, að hv. 4. þm. Reykv. væri sæmilega læs, þó ég væri ekki eins viss um það með hv. þm. Barð.). Það verður ekki annað skilið af nál. en að svona líti hv. 7. landsk. þm. á þetta. Og ég verð að harma það, að slík ummæli skuli hafa komið fram frá þessum hv. þm., sem er annars skýr maður. Ég hefði ekkert orðið hissa á því, þó að slíkt stæði í blaðagrein í Þjóðviljanum. (FRV: Það stendur í nál. „létta af“, en ekki létta á. — KK: Það er annað að létta á eða létta af.) Ég skal nefna dæmi, sem sýnir það, sem hv. þm. verður að athuga, sem er það, sem nú skal greina. Framlag þess kaupstaðar, sem hefur sýnt hvað mesta tregðu um að greiða lögmæt gjöld til Tryggingastofnunarinnar, er 230 þús. kr. til þessarar stofnunar á ári. Áður en tryggingalöggjöfin gekk í gildi, voru bara ellilaun og örorkubætur, sem þessi kaupstaður greiddi, um 180 þús. kr. Og reynslan hefur sýnt, að útkoman hefur, hvað þetta snertir, orðið mjög svipuð því, sem ætlað var, þannig að allt framlag til Tryggingastofnunarinnar varð aðeins 50 þús. kr. hærra en sá kaupstaður áður greiddi eingöngu í ellilaun og örorkubætur. Og fullvíst er, að það, sem tryggingarnar hafa létt af í útgjöldum bæjarfélagsins, er meira en nemur þessum 50 þús. kr. Fátækraframfærið í þessum kaupstað skipti hundruðum þús. kr. á ári, á síðustu árunum áður en alþýðutryggingal. voru sett árið 1936, en lækkaði stórkostlega við það. Og einmitt svona er ástatt um ýmsa aðra staði á landinu.

Ég vil segja, að ef Tryggingastofnunar ríkisins hefði ekki notið við, þá hygg ég, að ekki hefði verið nokkur leið til þess hjá bæjarfélögum þeim, sem í vanskilum eru um greiðslur til Tryggingastofnunarinnar, að halda uppi framkvæmdum á undanförnum árum, því að þau hefðu orðið að láta sína þurfalinga sitja fyrir því, fé, sem þau höfðu yfir að ráða. — Frá fyrstu þremur starfsárum Tryggingastofnunarinnar eru útistandandi nú um 800 þús. kr. af því fé, sem sveitarfélögum bar að greiða stofnuninni, sem nemur 30 til 33 millj. kr. alls, svo að þessi upphæð út af fyrir sig er ekki geigvænleg. Þegar svo þessi skuldalisti er athugaður, kemur í ljós, að hin sömu sveitarfélög, að heita má, sem ár eftir ár hafa tregðazt við að greiða sín framlög til trygginganna, hafa getað innheimt útsvör hjá sér nokkurn veginn eins eða ekki ósvipað og önnur sveitarfélög, a.m.k. fram til 1949 og 1950, en hafa bara notað féð, sem inn hefur komið, til annarra hluta, þannig að það fé, sem innheimzt hefur og átti að notast til að greiða tryggingunum, til þess að tryggja íbúa sveitarfélaganna, hefur verið notað til annars og ekki kannske ógagnlegra hluta. Þess vegna er rökrétt afleiðing af þessu sú að gera ráðstafanir til þess að tekjur, sem innheimtar eru og á lagðar til þess að mæta þessum ákveðnu útgjöldum, séu ekki notaðar til annars. Og það er það, sem nauðsynlegt er, að reynt sé að tryggja með þessu frv., sem hér liggur fyrir, eða á annan hátt. Því að það er rangt hjá hv. frsm. minni hl. n., að hér sé um refsiaðgerðir að ræða. Hins vegar komu fram til n. beinar till. um refsiaðgerðir í slíkum tilfellum sem ég hef að vikið, þannig að felldar yrðu niður bætur til manna, ef sveitarfélag stæði ekki í skilum. N. taldi, að það líktist því að hengja bakara fyrir smið að setja slík refsiákvæði í lög. Gat n. því ekki mælt með því, en telur hins vegar óhjákvæmilegt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að fé, sem á er lagt til þess að mæta þessum gjöldum til trygginganna, sé til þess varið, en ekki til annars.

Ég tek undir það, að Tryggingastofnunin ætti að hafa góða samvinnu við sveitarstjórnirnar í landinu, og hún mun gera sitt til þess, að það geti orðið. En hvernig er það hægt í því tilfelli, þegar t.d. eitt sveitarfélag, þrátt fyrir það þótt innheimzt hafi útsvör hjá því, hefur vanrækt frá því 1947 að gjalda til Tryggingastofnunarinnar lögboðin gjöld?

Í sambandi við það, að ákvæði þessa frv. muni þrengja kost sveitarfélaganna, verður ekki hjá því komizt að benda á, að inn til sveitarfélaganna renna stórar upphæðir í heild frá tryggingunum. Og ég held, að það sé nú undantekningarlaust, að til allra umdæma innan trygginganna fari meira fé frá tryggingunum heldur en þaðan er greitt beint til trygginganna samanlagt, frá sveitarfélögum og einstaklingum. Ég hygg, að sveitarfélögin fái öll meira greitt inn til sín í bótafé heldur en það, sem þau greiða til trygginganna. Nokkuð af þessu bótafé verður skattstofn fyrir viðkomandi sveitarfélög. — Þess vegna er það ákaflega mishermt og ranglátt að telja, að Tryggingastofnunin og aðgerðir hennar — eins og mér þó virtist koma fram í ræðu hv. frsm. minni hl. n. — séu þungbærar fyrir sveitarfélögin. Sannleikurinn er sá, að fyrir utan það öryggi, sem þegnunum er veitt með starfi þessarar stofnunar, þá hefur starf Tryggingastofnunarinnar bætt hag sveitarfélaganna heldur en hitt. Hitt er alveg rétt, sem hv. 7. landsk. þm. veit að nokkru, að sveitarfélögin eru ekki tryggð gegnum Tryggingastofnunina gegn atvinnuleysi né öðru slíku. Enda er ekki til þess ætlazt, eins og l. um þá stofnun eru nú.

Ég gat ekki látið vera að upplýsa það, sem ég áðan tók fram. Ég er því alveg samþykkur — og þakka hv. þm. fyrir þau ummæli — að yfirleitt hefur innheimtan gengið vel á gjöldum til trygginganna, með þeim undantekningum, sem greint er frá á þeim lista, sem hv. þm. hafa séð. Hitt liggur líka í augum uppi, að ef þeim sveitarfélögum helzt slík vangreiðsla uppi til stofnunarinnar, þá mundu önnur sveitarfélög án efa fara þar í slóðina. Það er ekkert efamál, að ef sveitarfélög, sem staðið hafa í skilum, sjá, að öðrum sveitarfélögum er látið haldast uppi að gera sig sek um vanskil, þá er ákaflega hætt við, að þau reyni að prófa slíkt hið sama. Af því mundi að vísu leiða, eins og löggjöfin er nú, að Tryggingastofnunin gæti fengið sitt fé eftir öðrum leiðum, frá atvinnurekendum og ríkissjóði. En eins og nú háttar til, þætti mér ekkert ótrúlegt, að ef ríkisstjórnin ætti að láta greiða milljónir kr. úr ríkissjóði vegna þessara ákvæða, þá mundi hún skoða sinn hug og jafnvel breyta l. í þessu efni og skerða þann hlut, sem Tryggingastofnuninni er ætlaður eftir l.

Ég verð líka að segja það, að þrátt fyrir nál. og ræðu hv. frsm. minni hl. n., þá er ekki ákaflega mikill munur á till. ríkisstj. og till. hv. minni hl. n. í þessu efni. Munurinn er sá einn, að hv. minni hl. n. vill binda útsvarshlutann, sem haldið er eftir til greiðslna á skuldum við Tryggingastofnunina, við 25%, í stað þess, að útsvarshlutinn, sem lagt er hald á, sé ákveðinn með hliðsjón af hlutföllum milli heildarupphæðar útsvaranna og heildarupphæðar lögboðinna greiðslna sveitarfélagsins til Tryggingastofnunarinnar, og að einnig sé heimilt að leggja hald á tiltekin útsvör í sveitarfélaginu. Í langflestum tilfellum eru 25% útsvaranna ofar en þetta hlutfall segir til um. Það eru einstakir smærri sveitahreppar, sem litlu velta, sem mundu fara yfir 25% í þessu efni, en slíkt ætti sér ekki stað í kaupstöðunum. En þá væri hægt að nota líka ákvæðið um að leggja hald á hluta af útsvörunum. Ég álít, að tryggara sé fyrir ráðun. að hafa ákvæðið viðkomandi því að geta tekið hluta af útsvörum upp í vangreiddar skuldir sveitarfélaganna til Tryggingastofnunarinnar. Og ég álít ekki ástæðu til þess fyrir sveitarfélögin almennt að búast við, að tryggingarnar sköpuðu þeim vandræði, sem mundu leiða til þess, að þau mundu verða að snúa sér til ráðun. vegna þessa. Hins vegar sýnist það vera meiningarlaust að láta sveitarfélögum haldast það uppi að ráðstafa þeim tekjum til alls annars, sem þau innheimta, meðan ógreidd eða vangoldin eru gjöld til trygginganna, sem ríkissjóður ber ábyrgð á og skylt er að greiða eftir l. — En meginástæða ráðun. til þess að vilja hafa heimild til þess að leggja hald á og taka tiltekin útsvör í þessu skyni, til lúkningar þessum skuldum, er sú, að ríkisstj. óttast, að skuldajöfnun sveitarfélaga gæti í sumum tilfellum gert hundraðshlutaregluna lítils virði í þessum efnum, eins og gerð var grein fyrir við fyrri umr. málsins.

Ég endurtek það, sem ég tel meginatriði í þessu sambandi, að hér er ekki um refsiaðgerðir að ræða, heldur ráðstafanir til þess að tryggja, að það, sem á er lagt og innheimt í útsvörum og það í ákveðnu augnamiði, til þess að greiða til trygginganna, þeir peningar renni þangað, en ekki sé hægt að taka þá til annars. Ef svipuð ákvæði þessu eru ekki leidd í lög, þá sé ég ekki, að önnur leið sé fyrir hendi en sú, að svo fari áfram eins og farið hefur fram til þessa. Það hefur ekki verið farið harðar í sakir en það, að ef einhver vanskil hafa orðið í þessum efnum, þá hefur ráðun. verið tilkynnt það og óskað, að það hlutaðist til um, að úr þessu yrði bætt. Og oftast hafa einhver ráð verið fundin til þess að lúka skuldinni. Ef þessar ráðstafanir ekki duga annað árið eftir að slík skuld hefur orðið til, þá er ráðun. skrifað og óskað, að það gangi eftir, að skuldin sé greidd. Og ráðun. hefur tjáð mér, að þegar svo er ástatt, þá eigi það ekki annars úrkosta en að setja viðkomandi sveitarfélög undir eftirlit, sem ég hygg, að í flestum tilfellum sé ógeðfelldara sveitarfélögunum en þessi leið, sem hér er um að ræða í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og meiri skerðing á athafnafrelsi sveitarfélaganna en í þessum till. til breyt. á l. felast.