29.01.1951
Efri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurnum hæstv. dómsmrh. í þessum efnum, hvort ekki væri einfaldara, þar sem gengi erfiðlega með innheimtu bæjarfélaga, að ganga fram hjá bæjarfélögunum og Tryggingastofnunin innheimti sjálf iðgjöldin, vildi ég mega segja þetta: Eins og hann vakti athygli á, þá eru útsvörin lögð á eftir efnum og ástæðum, stighækkandi eftir því, sem tekjur eða eignir eru meiri, en varðandi iðgjöld til almannatrygginganna, þá eru þau ákveðin án tillits til tekna hlutaðeigenda. Ef ætti að skipa þessum málum á þann hátt, sem hæstv. ráðh. bendir á, þá væri um tvær leiðir að velja: Að hækka persónugjöldin um það, sem þyrfti til þess að ná þeirri upphæð, sem tryggingunum bæri, eða að mismuna mönnum í iðgjöldum, þannig að eftir því, sem tekjur þeirra væru hærri, þá væru iðgjöldin hærri. Ég verð að segja það strax, að ég er algerlega andvígur þessari breyt. á l. og áliti það óheillaspor, ef þessi leið væri farin. Hæstv. ráðh. veit, að þetta var mikið rætt þegar tryggingal. voru sett. Meginástæðan til þess, að ég er andvígur þessari leið, er sú, að ef farið væri að mismuna mönnum í iðgjöldum eftir tekjum, þá væri ómögulegt að standa gegn þeirri kröfu að bæta einnig hlutfallslega miðað við iðgjaldagreiðslur og greiða hærri bætur til þeirra, sem borguðu hærri iðgjöld; svo er það alls staðar, þar sem þessi regla er viðhöfð. Hjá lífeyrissjóði embættismanna og barnakennara greiða menn ákveðinn hluta af kaupi sínu og því hærri sem tekjurnar eru meiri, en eins og hæstv. ráðh. er vel kunnugt, þá eru þau ellilaun, sem þessir menn taka, miðuð við mismunandi hátt kaup; sá hefur mest eftirlaun, sem hæst kaup hefur, og ég er ekki í neinum vafa um það, að sama regla yrði barin í gegn hjá tryggingunum, ef iðgjöldin væru mishá, að bæturnar yrðu þá líka mismunandi háar. Fyrir allan almenning er þetta tvímælalaust rétta leiðin, og álít ég það spor aftur á bak, ef frá henni væri horfið. — Það kom fram í umr., að með tryggingalögunum væri lögð þungbær byrði á sveitarfélögin í heild. Það er enginn vafi á, að fyrir sveitarfélögin eru tryggingalögin verulegur léttir. Aðstoð til sveitarfélaga kemur misjafnt niður, eins og hæstv. félmrh. sagði réttilega. Þau félög, sem eru verst fjárhagslega stödd, njóta mestrar hjálpar, því að þangað rennur mest tillag. Þetta var öllum ljóst, þegar löggjöfin var sett. Verð ég að segja, að sú reynsla, sem hefur fengizt, hefur staðfest það. Ekki er það vegna framlaga, sem þau greiða, heldur þrátt fyrir það, vil ég næstum segja.

Það, sem um er að ræða, er að veita félmrh. heimild til þess að fara þá leið, sem í frv. greinir. Sú heimild er aldrei notuð, nema þegar um stórfellda vanrækslu er að ræða, og í öðru lagi með fyllstu varúð og með hliðsjón af aðstæðum. Þetta spillir ekki hag sveitarfélaganna, en ætti að hjálpa þeim til að koma undir sig fótunum. Ekki er hægt að leggja þetta vald í hendur Tryggingastofnuninni. Það, sem um er að ræða, er að koma í veg fyrir, að sveitarfélög, sem lagt hefur verið á, innheimti útsvörin og taki þetta fé og noti til annars, en greiði það ekki til Tryggingastofnunarinnar. Þetta er ástæðan til þess, að skuldum er safnað. Lögð eru útsvör á og þau innheimt, en fénu ekki skilað til viðkomandi aðila, heldur notað til annars. Þetta er ætlunin að fyrirbyggja.

Ég held því fram, að til þessa séu ástæður. Það er alveg rétt, sem hv. 7. landsk. þm. sagði, að um stórfelld vanskil hefur ekki verið að ræða. Til 1949 gekk innheimtan sæmilega. Útistandandi eru um 800 þús. krónur frá 1947–49, eða 3% af álögðum framlögum. En eftir 1950 hefur gengið þunglegar að innheimta, sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum, sem vanskil voru hjá áður. Þessi góða innheimta til 1948 á rætur sínar að rekja til þess, að Tryggingastofnunin hafði safnað nokkrum sjóðum og gat létt undir með lánum. Augljóst er, að ef einstökum sveitarfélögum leyfist að lána fé frá Tryggingastofnuninni til nauðsynlegra þarfa, er hætt við, að önnur sveitarfélög fari sömu leið. Það verður að spyrna við fótum og gera ráðstafanir til þess, að það endurtaki sig ekki, að það verði halli á stofnuninni, en halli hefur verið á undanförnum árum. Hún verður að fá tekjurnar með skilum, og lánastarfsemi hennar verður að falla niður. Tel ég rétt fyrir ríkisstj. að fyrirbyggja, að innheimta útsvara sveitarfélaga sé notuð til annars. Eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. S-Þ., staðfestist ég í þeirri skoðun. Hann sagði: „Er ekki eðlilegt, að sveitarfélögin dragi að greiða til Tryggingastofnunarinnar? Þau geta ekki látið vera að greiða til sjúkrahúsa, geta ekki látið vera að greiða til skólanna,“ o.s.frv. — Á hv. þm. S-Þ. við, að þau eigi heldur að láta vera að greiða til Tryggingastofnunarinnar? Ég vildi bæta við þessa upptalningu, að þau geti ekki látið vera að greiða til Tryggingastofnunarinnar. — Ef Tryggingastofnunin væri ekki, væri fátækraframfærsla mikil. Ég veit ekki, hvernig þetta er í heimasveit hv. þm., á sumum stöðum er hún léttari, á öðrum þyngri. Barnameðlög er stærsti liðurinn. Það, sem sveitarfélögin þurfa að greiða með óskilgetnum börnum fyrir barnsfeðurna, skiptir milljónum króna. Í ýmsum tilfellum eru bætur Tryggingastofnunarinnar ekki fullnægjandi, og þarf að bæta við. Fátækraframfærslan mundi þyngjast, og í þeim sveitarfélögum, sem mest er ógoldið, mundi hún þyngjast mest.

Hv. 7. landsk. þm. vék að því nokkrum orðum í ræðu sinni, að lækkun á fátækraframfærslu 1948 væri ekki Tryggingastofnuninni að þakka. Þetta er alveg rétt. Ég skal fúslega viðurkenna, að þar eru fleiri ástæður að verki, en Tryggingastofnunin er ríkasti þátturinn. Um það, að Tryggingastofnunin hafi ekki létt af fátækraframfærslunni, er alveg rétt, en hún hefur lækkað hana stórkostlega. Öryggi sveitarfélaga er aukið frá því, sem var þegar misæri og atvinnuleysi var.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mjög, þó að ég hafi mörgum að svara, en ætla að svara hv. þm. Vestm., sem var einna þungorðastur í garð frv. Sagði hann, að hér væri skemmsta og æskilegasta leiðin, að sveitarfélögin væru sett undir beint eftirlit. Þetta held ég, að sé ofmælt og vanhugsað. Skemmsta leiðin er að fá dóm á hlut sveitarfélaganna og leggja hald á eignir, sem hægt er að fá hald á, og óska síðan að fá greiðslu úr sveitarfélögunum. Alítur hv. þv. Vestm., að hans leið væri æskilegri fyrir sveitarfélögin en þessi leið? Við vitum, að Tryggingastofnunin hefur gert samninga við þessi bæjar- og sveitarfélög um greiðslur, en án árangurs. Athugun hefur leitt í ljós, að framlagið er lítið hærra en það, sem var greitt til elli- og örorkubóta, áður en Tryggingastofnun ríkisins kom. Það er ekki um auknar álögur að ræða og ekki um, að útsvör hafi ekki verið innheimt. Það, sem gerzt hefur, er það, að útsvörin hafa verið innheimt, en notuð til annarra hluta, ég segi ekki óþarfa, en ekki greidd til Tryggingastofnunarinnar. Þetta getur ekki gengið. Bæjarfélögin fá féð lánað til framkvæmda. Það er augljóst, að ef einstök bæjar- eða sveitarfélög gera slíkt, munu önnur fara sömu leið. Má taka málið fyrir dóm eða heimta greiðslu frá ríkissjóði. Við vitum ekki, hvort þessi leið er heppileg fyrir sveitarfélögin. Ummæli hafa komið frá hæstv. ráðh. um, að brtt. hv. 7. landsk. þm. sé tekin aftur til 3. umr. og bíð ég eftir því, hvernig því reiði af.