05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég brtt. á þskj. 562, sem ég tók aftur til 3. umr. fyrir tilmæli hæstv. félmrh. Mér hefur nú þótt rétt að flytja 2 þeirra á ný. Önnur þeirra er með lítils háttar orðalagsbreytingum, en brtt. nr. 2 á þskj. 562 lét ég niður falla. Ekki þarf að eyða mörgum orðum um þetta mál. Fyrri till. fjallar um þau ákvæði, sem samþ. voru í lögunum fyrir jólin. Er lagt til, að það ákvæði í lögunum haldist óbreytt. En meiri hl. n. er því fylgjandi að velta þessu yfir á sveitarfélögin. Ég held, að rétt sé, að Tryggingastofnunin haldi ein á þessum málum. En réttur Tryggingastofnunarinnar er tryggður með ákvæðum laganna eins og þau eru nú. — Ég hef áður lýst því, að ég álít þetta frv. tilefnislítið og ónauðsynlegt, en þrátt fyrir það hef ég flutt brtt. við 4. gr. frv., og er það hið lengsta sem ég get gengið á móts við þær kröfur, sem bornar eru fram. Þar sem meiri hl. n. hefur fallizt á 2. brtt. mína, vænti ég, að hún nái samþykki deildarinnar. — Það hefði e.t.v. verið ástæða til að segja nokkur orð um þetta frv. og þau mál, sem snerta það, en ég hef þegar lýst minni skoðun við 2. umr. málsins, og þar sem nú er fáskipað í hv. deild, sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en óska eftir, að atkvgr. verði frestað.