01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

156. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. N. hefur rætt frv. á allmörgum fundum, en gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Hv. 9. og 10. landsk. vilja ekki samþ. það eins og það liggur fyrir. En við, sem myndum meiri hl., leggjum til, að það verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed.

Þetta frv. er stjfrv. og borið fram í Ed. Voru þar gerðar á því þó nokkrar breyt., sem ég fyrir mitt leyti tel ekki til bóta. En það var orðið svo áliðið þings, þegar frv. kom til okkar frá Ed., að við sáum okkur ekki fært að breyta því.

Um frv. sjálft er það að segja að eins og menn muna, var í vetur tekin aftur till., sem allmiklum deilum olli og var um innheimtu tryggingargjalds hjá bæjarfélögum. Þá gaf félmrh. þá yfirlýsingu, að hann flytti málið í nýju formi eftir nýár, eins og gert hefur verið. Um 1. gr. er það að segja, að það er grunnupphæð. Til að taka af allan vafa er sagt, að borga eigi vísitölu á iðgjaldið. Sama er að segja um 2. gr. Þar er smávægileg breyt., sem litlu máli skiptir, enda enginn ágreiningur um það. Þá er 3. gr., um það, að heimilt sé að taka eftir eitt ár, ef bæjarfélag lendir í vanskilum, 25% af útsvörum bæjarfélagsins, sem þarf að greiða innheimtumanni ríkisins. Þannig gengur það þangað til skuldin er að fullu greidd. Þetta ákvæði er orðið mjög veikt; vitanlega er þetta dálítil hjálp, en ekki nóg að mínu áliti. — Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta, en vona, að Alþ. geti afgr. þetta mál á þennan hátt. Þetta ákvæði var miklu harðara fyrir bæjarfélögin. Eins og ég benti á í vetur rækilega, hafa ýmis bæjarfélög á undanförnum árum lent í vanskilum við Tryggingastofnunina. Og þrátt fyrir það, þó að þau innheimti þau gjöld, sem eiga að fara til trygginganna, hafa gjöldin verið notuð til annarra hluta. Allir sjá, að slíkt getur ekki gengið til lengdar. Og þó að þessi bæjarfélög séu enn ekki mörg, má alltaf búast við, að þeim fjölgi, bæði þegar önnur bæjarfélög og sveitarfélög frétta, að hægt er að komast upp með það að innheimta að vísu gjöldin, en láta þau renna í annað en það, sem þeim er ætlað að ganga til, því að vitanlega hafa öll bæjarfélög þörf fyrir fé til framkvæmda. Þessi aðferð mun breiða sig út og verða stór hætta að. Þessi gr. frv. á að fyrirbyggja þá hættu, þó að ég telji gr. of veika.

Nú kemur hv. fjmrh. inn, og vildi ég þá segja að lokum, að ég þykist þess fullviss, að ríkisstj. taki ekki ábyrgð á greiðslum, ef hún sér, að bæjarfélög ætla að nota sér þetta í blóra. Það hlýtur að auka okkar vanskil frá því, sem er.