01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

156. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þegar frv. í svipaða átt var á ferð fyrir jólin, mætti það svo harðri mótstöðu í þessari hv. deild, að sá ráðh., sem að því stóð, kaus að draga þetta ákvæði til baka. Nú hefur þetta skotið upp höfðinu aftur og var fellt í Ed., en hafði nokkuð verið breytt í það horf, sem nú er samkv. 3. gr. frv., sem nú liggur fyrir, að ef sveitarfélag dregur í meira en eitt ár að greiða sín framlög til Tryggingastofnunarinnar, getur ráðh. ákveðið að leggja hald á fjórðung allra útsvara sveitarfélaga og látið renna beint sem framlag til Tryggingastofnunarinnar. Ég er alveg sammála hv. minni hl. í heilbr.- og félmn. og þeim rökstuðningi, sem er í nál., að það er ekki sanngjarnt og tæplega sæmandi fyrir Alþ. að lögfesta slíkt harðræði sem hér um ræðir. Skal ég benda á nokkur atriði því til stuðnings. Í fyrsta lagi er það ákaflega óeðlilegt, að þó að þessar greiðslur til Tryggingastofnunarinnar séu í sjálfu sér nauðsynlegar og sjálfsagðar, þá sé Alþ. að veita þeim greiðslum alger forréttindi fram yfir allar aðrar greiðslur, sem sveitarfélög þurfa að inna af hendi. Sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu sínar skyldur við Tryggingastofnunina, en ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því, að þessar greiðslur til trygginganna eigi að hafa forgangsrétt fram yfir allar aðrar greiðslur sveitarfélaganna. Í öðru lagi vil ég benda á, að eins og frv. liggur fyrir, er ekkert minnzt á hlutfallið á milli álagðra útsvara viðkomandi sveitarfélaga annars vegar og upphæðar þeirrar, sem hið sama sveitarfélag á að greiða til trygginganna hins vegar. Ég get tekið dæmi t.d. héðan úr Reykjavík, þar sem ég þekki bezt til. Álögð útsvör nema nú 60 millj. króna, og ef frv. yrði að lögum, hefði ráðh. heimild til að leggja hald á 15 millj. króna af þeirri upphæð. Hins vegar nemur sú upphæð, sem bænum ber að borga til trygginganna, ekki nema 6 millj. króna. Það er að segja: þegar dráttur verður á greiðslu á 1/10 af útsvörunum, þá getur ráðh. lagt hald á 1/4 þeirra. Fleira kemur til greina í þessu sambandi, en ég vil sérstaklega geta hér um vanskil ríkissjóðs á skuldum til hinna ýmsu sveitarfélaga, einkum vegna ummæla hv. 1. þm. Rang. Það gæti máske verið réttmætt, að ríkissjóður fengi þetta vald, sem frv. fer fram á, ef skjöldur hans gagnvart sveitarfélögunum væri hreinn. En svo er ekki, því að ríkissjóður stendur nú í skuldum við mörg sveitarfélög á landinu, og hann hefur dregið að greiða lögboðnar greiðslur til þeirra svo nemur hundruðum þúsunda. Og ég tel ekki sæmandi að lögfesta, að á sama tíma og svo er ástatt með skuldaskil ríkissjóðs til sveitarfélaganna fái ráðh. heimild til að hirða 1/4 af útsvörum þeirra. Þetta er nokkuð, sem ég álít, að ekki geti komið til greina. Nú er það svo, að sum sveitarfélögin hafa dregið greiðslu til trygginganna vegna fjárskorts, sem stafar oft af því, að útsvörin hafa brugðizt. En greiðsla hefur líka stundum dregizt af þeim sökum, að viðkomandi bæjarfélög eða sveitarfélög hafa ekki séð annan möguleika til að knýja ríkissjóð til að greiða sínar vangreiddu skuldir til félaganna en að láta þennan drátt á skuldagreiðslu koma á móti. Það er vitanlega hart, að bæjarfélög skuli þurfa að beita slíkum ráðum gagnvart ríkissjóði, en Tryggingastofnunin er raunar ekkert annað en ríkisfyrirtæki, þar sem ríkissjóður er í bakábyrgð fyrir öllum greiðslunum til hennar. Því hefur það komið fyrir, þegar um vanskil ríkissjóðs á skuld til sveitarfélags hefur verið að ræða, að eina leiðin til þess að fá hann til að borga skuldina hefur verið að fresta greiðslum til Tryggingastofnunarinnar. Vitanlega hefur þessi leið ekki verið æskileg, en um annað hefur ekki verið að ræða. Og ég vil biðja hæstv. forsrh., sem mun vera flytjandi þessa frv., að lita með nokkurri sanngirni á þetta mál og gæta þess, að það er tæplega sæmandi að ætlast til þess, að ráðh. fái rétt til að seilast ofan í vasa sveitarfélaga eftir 1/4 af útsvörum þeirra um leið og ríkissjóður stendur í stórum vanskilum á greiðslum til sömu sveitarfélaga. — Ég vildi láta þetta sjónarmið koma fram hér, og ég hefði vænzt þess, að hæstv. forsrh. vildi láta þessa grein falla niður að sinni og sjá, hvort ekki væri unnt að ná samkomulagi um betri skipan þessara mála. En ef hann sæi sér það ekki fært, þá kemur til kasta hv. þm. að fella 3. gr. frv.