01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

156. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í langar umr. um þetta mál nú, því að hér er um að ræða sama efnislega atriðið og var til meðferðar hér í deildinni fyrir jólin. Þó vil ég drepa á örfá atriði úr ræðu hv. 2. landsk. Því miður gat ég ekki verið við, þegar 7. þm. Reykv. flutti sína ræðu, því að ég var þá í umr. í Ed., en af ræðu hv. 2. landsk. skildist mér, að þeir mundu vera samherjar í þessu máli, því að hann vitnaði í ræðu þess hv. þm. um það, hvílík hætta sveitarfélögunum mundi stafa af 3. gr., ef hún næði samþykki. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. 2. landsk., og það var ekki laust við hann færi nokkra hringi í kringum sjálfan sig í henni. Hann var öðrum þræði að tala um, að ríkisvaldið væri nú að seilast til umráða yfir málefnum sveitarfélaganna, og það mundi sennilega ganga svo langt í því að hrifsa öll málefni þeirra undir sig. Hins vegar var hann öðrum þræði að mana ríkisvaldið til að setja þessi sveitarfélög undir opinbert eftirlit, ef þau stæðu ekki í skilum á skuldum sínum. En hvernig er hægt að taka sjálfsforræði betur af sveitarfélögunum en setja þau undir opinbert eftirlit, eins og hv. þm. taldi sjálfsagt að gera? Ég get ekki séð, hvernig hægt væri að ganga öllu lengra í þessu efni. Þetta ákvæði 3. gr. á einmitt að setja til þess, að ekki þurfi að ganga nema sem skemmst í að skerða sjálfstæði sveitarfélaga. Þetta er gert til þess, að ekki þurfi að stíga hið stóra skref að setja sveitarfélögin undir opinbert eftirlit. Hv. þm. sagði á þá leið, að ríkisvaldið gæti tekið sjálfsforræði sveitarfélaganna stig af stigi. Hvað væri eðlilegra, er ríkisvaldið væri á annað borð farið að beita þessari aðferð, en það tæki þá svo og svo mikinn hluta af útsvörum sveitarfélaganna sem tryggingu fyrir þeirri lánsábyrgð, sem það tekur á sínar hendur vegna ýmissa framkvæmda sveitarfélaganna, svo sem hafnarmannvirkja, rafvirkjana, o.fl.? Það gegnir allt öðru um þetta atriði. Sveitarfélögin vita það fyrir fram, hvað þau þurfa að leggja mikil útsvör á vegna trygginganna, og útsvörin eru hækkuð um vissa upphæð vegna þeirra, og ég lít svo á, að rétt sé að setja einhver ákvæði, sem tryggja innheimtu þessara gjalda og koma í veg fyrir, að þau séu notuð til annarra hluta, sem oft hefur orðið raunin á; að tryggja það, að útsvör, sem eru lögð á vegna trygginganna, verði ekki notuð t.d. til áhættusams atvinnurekstrar. Það er af þeirri ástæðu, að þarna er um ákveðna upphæð að ræða, sem ég tel fært að fara þessa leið. Og þegar innheimta útsvara gengur vel, þá er engin afsökun til fyrir því, að því fé, sem var lagt á vegna trygginganna, skuli ekki vera skilað til þeirra. Hitt er svo allt annað mál, þegar sveitarfélag kemst í þrot vegna framkvæmda eða áhættusams atvinnurekstrar. Það kemur oft fyrir, að sveitarfélag ræðst í framkvæmdir í trausti þess, að áætlanir standist nokkurn veginn, en svo verða þessar framkvæmdir 2–4 sinnum dýrari, og þá verður sveitarfélaginu ofraun að standa undir kostnaðinum. Þá er það, sem við höfum treyst því, að ríkisstj. og Alþ. taki tillit til óska sveitarfélaganna um það, að ríkið taki á sig ábyrgð vegna slíkra framkvæmda, þar sem Alþ. ber líka að nokkru leyti ábyrgð á þeim áætlunum. Það er vegna þess, að ég tel ekki hægt að segja, að í þessu efni sé um hliðstæðu við greiðslu til trygginganna að ræða, eins og hv. 2. landsk. vildi halda fram. Hann sagði einnig, að það gerði ekki svo mikið til, þótt sveitarfélögin borguðu ekki þessi gjöld, þar sem hér væri um góða baktryggingu að ræða, þar sem væri ríkissjóður. Ef þetta sjónarmið fær að koma fram, þá get ég ekki séð betur en endirinn verði sá, að öll þessi gjöld, sem sveitarfélögin eiga að greiða til trygginganna, lendi á ríkissjóði, en þá væri líka komið í algerar ógöngur og því ekki um annað að ræða en taka tryggingarmálin í heild til athugunar. Það er einmitt vegna þess, að ríkið ber ábyrgðina á þessum greiðslum, sem ég álít, að þetta mál verði að takast til alvarlegrar athugunar. En ég skal verða síðastur manna til að lasta þá, sem vilja standa á verði fyrir sín sveitarfélög, en menn verða að athuga það, að þeir, sem fara með málefni ríkisins, verða einnig að gæta skyldu sinnar gagnvart því og standa vel á verði einmitt gagnvart hugsunarhætti eins og þeim, sem kom fram hjá hv. 2. landsk. Það kann vel að fara svo, að þetta ákvæði frv. nái ekki fram að ganga, en ég tek það fram, að hafi ég nokkuð með þetta mál að gera á næsta þingi, verður það áreiðanlega tekið upp aftur þá, þótt það verði máske í öðru formi. Því að það er hægt að hugsa sér fleiri leiðir til þess að bæta úr þessu máli en þá, sem hér er lagt til að farin verði, en ég mun þó ekki ræða þær hér. Hitt er ábyggilegt, að málið er svo alvarlegt, að það verður að finna einhver úrræði, fyrr eða síðar, til að koma því á öruggan grundvöll. Ég held, að ekki sé ástæða til að halda um þetta langar ræður, málið var rætt í vetur. En það er ekki hægt að ætla sér að afgreiða þetta mál með þeim rökum, sem hv. 2. landsk. þm. færði fram í ræðu sinni.