01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

156. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. og hv. þm. Borgf. hafa hvorugur dregið í efa, að það sé réttur skilningur hjá mér á upphafi 3. gr., að þessu ákvæði megi beita, af hvaða ástæðu sem vanskilin eru. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að hann mundi ekki nota þessa heimild, nema hægt sé að saka sveitarfélögin um vanskil, og í trausti þess virðist hv. þm. Borgf. ætla að greiða atkv. með þessari grein. Ég vil taka fram, að slík yfirlýsing bindur auðvitað eingöngu núv. forsrh., en ekki eftirkomendur hans í starfinu, þar sem viðurkenndur er lagaskilningur á upphafi greinarinnar.

Setjum nú svo, að hæstv. forsrh. vildi túlka þetta á þann hátt, sem hann sagði, er hann falaði um, hvernig hann mundi framkvæma þetta. Hann sagði, að ef sveifarfélag legði ekki á útsvar fyrir tryggingagjöldunum, teldi hann, að um vanrækslu væri að ræða, og þá mætti beita þessari heimild. Hvernig fer, ef útsvörin eru lögð á fyrir þessum gjöldum, en innheimtan gengur svo treglega vegna illrar afkomu, að ekki innheimtist nema 1/3 eða 1/2 útsvara? Hvernig yrði litið á það? Skv. túlkun hv. þm. Borgf. og hæstv. forsrh. yrði heimildin ekki notuð þá. En ef við setjum dæmið þannig upp, að úfsvörin séu lögð á og innheimtist vel, en peningarnir síðan notaðir til annars, t.d. til fátækraframfæris, vegna þess að það hefur orðið meira en áætlað var. Er þá um saknæma vanrækslu af sveitarfélaginu að ræða, að það hefur látið fátæklingana ganga fyrir til að bjarga þeim? Tökum eitt dæmi enn. Setjum svo, að sveitarfélagið segi, að það eigi að vísu að borga þessa upphæð, en ríkissjóður skuldi því nákvæmlega sömu upphæð, og það greiði þetta ekki fyrr en ríkissjóður hafi greitt sitt. Er þá um saknæma vanrækslu að ræða? Nei. Þó að þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. liggi fyrir, erum við engu nær um þann greinarmun, hvenær má saka sveitarfélag og hvenær ekki, ef það er ekki gert alltaf, þegar um vanskil er að ræða. Það er ótvírætt, að lagaskilningurinn er sá, að þessari heimild má beita, hver sem orsök vanskilanna er, og er ómögulegt að greina þar á milli.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að þó ríkið skuldi þessum sveitarfélögum, þá komi það málinu ekki við, þ.e.a.s. að Tryggingastofnun ríkisins sé ríkinu óviðkomandi. Ég lít svo á, að Tryggingastofnunin sé ríkisstofnun, undir yfirstjórn þess, og er m.a. allt tryggingaráð kosið af Alþingi. Þess vegna er ekki hægt með sanni að segja, að það sé málinu óviðkomandi, hvort sveitarfélag, sem á að beita þessum aðgerðum, á jafnstóra eða stærri upphæð hjá ríkinu en það skuldar Tryggingastofnuninni.

Hv. þm. minntist á skólabyggingar og sagði, að þar ætti ekki að veita meira fé en heimilað er í fjárlögum. Í lögum stendur, að ríkissjóður eigi að greiða 1/2 eða 3/4 af byggingarverði skólanna, sú lagaskylda fellur á ríkissjóð, hvort sem fé er veitt til þess á fjárlögum eða ekki. Þetta er því misskilningur hjá hv. þm.