01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

156. mál, almannatryggingar

Pétur Ottesen:

Það má vel vera, að ég hafi gengið nokkuð langt í að viðurkenna lagalegan skilning hv. 7. þm. Reykv.,. þó að ég gerði það ekki afdráttarlaust, því að ég vitnaði til þeirrar málvenju, sem ég er vanur, og samkv. henni get ég ekki túlkað þetta öðruvísi en ég gerði. Frá mínu sjónarmiði er mikill munur á, hvort sagt er: „Nú vanrækir sveitarfélag að greiða“, eða: „Nú fellur niður greiðsla“, eða: „Nú er greiðsla ekki innt af hendi í tæka tíð“. Hefði það orðalag verið, þá væri skýlaust, að túlkun hv. 7. þm. Reykv. væri rétt, en eins og orðalagið er nú, vil ég taka munninn enn fyllri en ég gerði áðan og segja, að það orki a.m.k. mjög tvímælis, að skýring hv. 7. þm. Reykv. samrýmist þessu orðalagi. — Síðan ég talaði hér áðan hef ég borið þetta undir annan lögfræðing hér, og hann telur, að minn skilningur á þessu atriði geti fullkomlega staðizt.