02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

192. mál, mótvirðissjóður

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins skjóta nokkrum orðum til hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh., sem hér er viðstaddur, í sambandi við það, sem hann talaði hér um áframhaldandi ráðstöfun á mótvirðissjóði. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og rétt að veita ríkisstj. það leyfi, sem hún fer hér fram á í þessu frv., til hagnýtingar á sjóðnum, en það eru fleiri verkefni, sem snerta framtíð og hag þessarar þjóðar, sem verður að taka til athugunar í sambandi við þær ráðstafanir og till., sem ríkisstj. kann að gera í þessu efni, og þær ákvarðanir, sem Alþ. gerir síðar um það. Ég vil aðeins benda á tvennt í því sambandi. Annað er það, að hér hefur verið ákveðið að reisa sementsverksmiðju, sem engum blandast hugur um, að er mjög þýðingarmikið fyrirtæki fyrir hag og afkomu landsmanna, og í öðru lagi, og með tilliti til þess, vil ég vænta þess, að hæstv. ríkisstj. líti á þá þörf bráðra aðgerða í sambandi við þær till., sem hún kann að gera um þetta. Hitt atriðið er svo það höfuðverkefni þessarar þjóðar, að rækta landið og skapa skilyrði fyrir því, að meiri hluti landsmanna geti búið í sveitum landsins og unnið þar að framleiðslustörfum, en skilyrðin til þess eru að frumstofni til fyrir hendi í frjómagni íslenzkrar moldar og hagnýtingu ýmissa náttúrugæða, sem koma til greina í því sambandi. Það, sem hér þarf að gera, það er aukin ræktun og byggingar í sveitum landsins. Þetta er ef til vill eitthvert stærsta og þýðingarmesta verkefni, sem nú blasir við hinni íslenzku þjóð, og þess vegna vil ég brýna það fyrir hæstv. ríkisstj., að hún noti þá aðstöðu, sem mótvirðissjóðurinn skapar okkur, til að búa í haginn fyrir þetta eða geri um það sínar till. að hrinda þessu stærsta máli þjóðarinnar áfram.