02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

192. mál, mótvirðissjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkrar upplýsingar, sem mér þætti æskilegt að fá viðvíkjandi því, hvernig þessu er varið, nú við þessa umr., og vil ég beina því til hæstv. fjmrh. — Það er, í fyrsta lagi, hvernig búast má við. að þessar 120 millj. skiptist hvað það snertir, hvað mikið af því fari í vinnuafl og hvað mikið fari í annan kostnað hér innan lands, sé gengið út frá því, að hlutfallið verði jafnt milli þessara fyrirtækja, miðað við stofnkostnað. En ef við ætlum að gera okkur verulega hugmynd um, hvaða áhrif þessar ráðstafanir hafa á fjárhagskerfið frá því síónarmiði, sem hv. 3. landsk. þm. var að ræða um, þá þurfum við í þessu sambandi í fyrsta lagi að athuga, hvað miklar kröfur eru gerðar til vinnuaflsmarkaðarins með þessu. Ég get ekki séð, að í sambandi við aðrar fjárhagsráðstafanir sé nein svokölluð verðbólguhætta á ferðinni. Spurningin um, hvað fjárhagskerfið þoli í þessu sambandi, það er spurningin um það, hvort við gerum meiri kröfur til vinnuafls og framkvæmda á yfirstandandi tímabili en vinnuafl er fyrir hendi. Ef þetta er allt rétt út reiknað hjá okkur og rétt framkvæmt, að það fé, sem við veitum í veltuna í þjóðfélaginu, sé akkúrat miðað við að fullnægja og hagnýta vinnuafl hvers manns, en ekki sé gefið út neitt þar fram yfir af lánum eða framlag veitt, þá er því tvennu náð, a.m.k. í höfuðatriðum, annars vegar því að hagnýta vinnuaflið til fulls og hins vegar því að gefa ekki út ávísanir á meira en fyrir hendi er, og þá er tryggt um leið, að fjárhagskerfið fari ekki úr skorðum. Það, sem við ættum þess vegna að fá upplýsingar um í sambandi við þetta, það eru útreikningar fjárhagsráðs, sem vafalaust er að undirbúa þetta, um kröfur til vinnuaflsins í þessu sambandi. Mér dettur í hug í því sambandi, af því að ég hef minnzt á það áður, að norska viðskmrn. hefur lagt fyrir norska Stórþingið í byrjun þessa árs alveg nákvæma útreikninga frá sínu fjárhagsráði um fyrirhugaða framleiðslu á árinu 1951. Hver einasta atvinnugrein í norska þjóðfélaginu hefur ákveðna fjárfestingu, það er ákveðið, hve mikið fjármagn og hve mikið vinnuafl þurfi til þess að tryggja það, og þetta er lagt fyrir norska þingið strax í byrjun janúar um leið og það hefst. Við fengum nýlega að heyra, að áætlanir fjárhagsráðs um fjárfestinguna séu að koma í fyrstu uppköstunum til ríkisstj., en fjhn. þessarar hv. d. fékk ekki að sjá frumdrög þeirrar áætlunar. Þetta vitum við um í sambandi við annað mál, sem hér var á dagskrá..... Þetta fer alveg eftir því, hvernig þessar 530 millj. greinast, annars vegar í vinnuafl, en hins vegar í efni. Ég vil gjarna athuga þetta, einmitt vegna þess ótta við verðbólgu, er kom fram í ræðu hv. 3. landsk. Það er orðið alveg gerólíkt um kröfur, sem gerðar eru til vinnuafls nú, heldur en fyrir nokkrum árum. Þannig er það t.d. viðvíkjandi Sogsvirkjuninni, að þótt þessi virkjun sé miklu stærri, þá er ekki gengið út frá því, að það þurfi fleiri verkamenn, vegna þess að við erum þannig útbúnir með vélar, að þótt þessi virkjun sé stærri, þá er hægt að vinna miklu stærri verk með hlutfallslega færri mönnum; það fá hlutfallslega færri verkamenn vinnu. Þetta þýðir, að til þess að nota vinnuaflið þarf meiri veltu, því að vinnuaflið, verkamennirnir, notar meira efni en áður. Þetta þýðir, að þjóðfélagið krefst meira fjár á hvern verkamann, sem það hefur í sinni þjónustu. Þetta er hlutur, sem þarf að taka til athugunar, því að ef þessu væri ekki gaumur gefinn, þá gæti af því leitt, að gerð væri sú örlagaríka villa að láta ónýtt, af ótta við verðbólgu, stóran hluta vinnuaflsins. Þess vegna álít ég mjög heppilegt, ef hæstv. fjmrh. gæti upplýst, hvað er gert ráð fyrir, að mikið af þessu fé fari í vinnulaun. Ég hef að vísu ofurlitla hugmynd um, hvernig þessu er varið hvað viðkemur Sogsvirkjuninni, en hvergi nærri nógu skýra. Áætlun hefur vafalaust verið gerð um þetta atriði, og ef ekki er reiknað með meiru en 400–500 mönnum, þá er það ekki meira en það, sem bætist við af vinnuafli á ári samsvarandi mannfjölgun, og þyrfti því ekki að draga úr vinnuafli á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Þegar það er vitað, að blátt áfram atvinnuleysi ríkir á sumum sviðum, þá held ég, að það sé fjarri því. að við séum að þurrka upp vinnuaflið. Ég held því, að það sé fjarstæða, að hæstv. ríkisstj. sé að stofna til nokkurrar hættu á verðbólgu með þessum ráðstöfunum. Þvert á móti fer þetta í tæki til þess að auka framleiðsluna, og ég held því. að þetta sé mjög heilbrigð ráðstöfun.

Hvað snertir niðurgreiðslur ríkisskulda, sem ríkissjóður skuldar Landsbankanum vegna Marshallsstofnunarinnar og bankinn leggur nokkra áherzlu á, að verði greiddar, þá held ég, að Alþingi þurfi að láta hæstv. ríkisstj. vita, að það er ekki ástæða til að ríkið greiði niður þær ríkisskuldir, sem eru innlendar. Það væri ákaflega fjarri lagi, ef hæstv. ríkisstj. tæki eitthvað af því fé, sem þjóðfélagið þarf nauðsynlega í veltuna. Hér er atvinnuleysi og lánsfjársvelta, og það væri ákaflega fjarri lagi, ef ríkið tæki þannig brauðið frá börnunum til þess að greiða sjálfu sér skuldir. því að við megum ekki gleyma því, að Landsbankinn er eign ríkisins og undir ráðstafanir Alþingis gefinn. Það er því fjarstæða, nú á þessum erfiðu tímum, að hugsa til þess að grynna á ríkisskuldum við Landsbankann. Það má geta þess í þessu sambandi, að skuldlaus eign eða sjóðir bankans eru um 130 millj. kr. Þá á ríkissjóður, sem á miklu stærri upphæð í skuldlausri eign, ekki að borga niður ríkisskuldirnar á tímum atvinnuleysis. Það stendur ekki svo illa, að hann eigi að taka nærri sér til þess að greiða niður skuldir. Það mundi engri stjórn detta í hug. Það er vitað, að þetta er eitt af því, sem einkennir socialdemókrata. Einkum reyndi stjórn Svíþjóðar að halda við atvinnulífinu með því að auka ríkisskuldirnar. Þegar svo er ástatt í landinu, að mikið vinnuafl er ónotað, þá er eðlilegt, að ríkisstj. noti vald sitt yfir þjóðbankanum. Hér eru nú allir bankarnir ríkiseign, og þá er eðlilegt, að ríkisstj. noti vald sitt yfir þjóðbönkunum til þess að stofna til ríkisskulda til að halda atvinnuvegunum gangandi. Ég álít þess vegna, þó að ég viti vel, að stjórn bankans leggur áherzlu á að fá greiðslu á skuldunum, að það þurfi að koma þessum skilningi á í þjóðfélaginu, að óhætt sé, að lánveitingar séu meiri og betri. Ég vil m.a. benda á, að seðlaveltan hefur aðeins aukizt um 7%, eða minna en nemur gróða bankanna í ár, á sama tíma og gengislækkun er gerð, gjaldeyririnn hækkar og þess vegna aukin lánsfjárþörf til útgerðar og verzlunar. Þess vegna væri ekki nema eðlilegt, að lánveitingar hefðu verið auknar meir en gert hefur verið. Ég vil því lýsa því yfir, að það hafa ekki enn þá komið fram neinar upplýsingar, sem sýna, að þessi ráðstöfun á fé mótvirðissjóðs hefði verðbólgu í för með sér.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., á hvern hátt hugsað sé, að samið verði um lán til áburðarverksmiðjunnar. Nú hefur verið horfið að því ráði, að áburðarverksmiðjan verði hlutafélag í stað þess að verða ríkiseign. Þá þarf að ganga frá því, hvernig eignahlutföllin verði. Ég hef getið þess áður, að ég tel eðlilegast, að verksmiðjan verði eign ríkisins áfram, en hlutafélagið verði aðeins rekstrarfyrirkomulag, sem þýddi, að hlutafélagið hefði ekki eignarhald á verksmiðjunni, heldur ríkið. Áætlað er, að verksmiðjan muni kosta 76 millj. kr. Ef nú hlutafélag, sem hefur 10 millj. króna kapítal, ætti eignarréttinn en ríkið útvegaði fé að láni, þá þýddi það að gefa einstökum hluthöfum milljónir króna. Áburðarverksmiðja, sem er 6000 tonn, borgar sig upp á 10–20 árum. Ef hlutafélagið væri skoðað sem eigandi, en ríkið útvegaði lán, kannske vaxtalaust, eða a.m.k. með lágum vöxtum, þá þýddi það beinlínis að gefa hluthöfunum þetta fé. Ekki er ólíklegt, að sá hluti framleiðslunnar, sem seldur yrði úr landi, gæfi 50% arð, þannig að slík verksmiðja yrði, ef allt tækist vel, gróðafyrirtæki. — Ég álít því, að þetta þurfi að athuga vel í byrjun, ekki sízt vegna þess, að ég hef þá trú, að einmitt framleiðsla áburðar eigi eftir að verða stór þáttur í framleiðslu Íslendinga og þetta sé því framtíðarmál. Þess vegna vildi ég, að þetta væri gert sem ljósast, er málið er afgreitt nú.

Það er eitt enn, sem ég vildi að athugað væri. Þetta er í fyrsta skipti, sem veitt er úr mótvirðissjóði, og þá í fyrsta skipti sem slíkt mál er rætt hér á Alþingi, og því er í mörg horn að líta. Ég vildi óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. athugaði vandlega nú strax í byrjun, hver háttur verði hafður á endurgreiðslu þessa fjár. Til þess að nota þetta fé þarf samþykki ECA, og hvað Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni viðkemur, þá er það leyfi fengið. Þetta fé er hrein eign ríkisins. Ég vil ekki, að það fé, sem þannig er til komið, fari í almenna eyðslu ríkissjóðs, heldur vil ég mynda af því sjóð til þess að birgja okkur upp af fjármagni, sem þarf til þeirra stórframkvæmda, sem við kunnum að leggja í. Það er svo, að stórframkvæmdir geta dregizt lengi vegna fjárskorts, en auðveldara að leysa úr smærri vandamálum. — Ég held það væri æskilegt að hugsa til þess, að þessi regla verði á höfð, er reglugerð verður sett um það, hvernig verja eigi því fé, sem inn kemur aftur, að það verði tryggt, að það renni til stórframkvæmda og þá fyrst og fremst til stórvirkjana og það yrði þá grundvöllur undir því að auka landbúnað, iðnað og alls konar stóriðju. Það er áreiðanlega rétt að íhuga þetta í tíma. Mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um fjárfestinguna og hve mikið vinnuafl er gert ráð fyrir að nota og annað, er snertir þessi mál.