02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

192. mál, mótvirðissjóður

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur milli hæstv. ráðh. og mín um eðli þessa máls. Hins vegar kann að vera nokkur ágreiningur um það, hversu langt megi ganga varðandi ráðstöfun fjárins, án þess að efna til verðbólgu. Í mörgum löndum, þar sem Marshallaðstoðar nýtur, er verðbólga og aðstæður þar víða líkar og hér. Mótvirðissjóðnum var ætlað að hafa þau áhrif að þurrka upp fjárhagskerfið, og þess vegna var mótvirðissjóðurinn bundinn og ætlaður til þess að greiða ríkisskuldir. Um þennan skilning á ástandinu erum við sammála, enda er hann vafalaust réttur. Höfuðvandinn við að lækna verðbólgu er að gera það án þess, að af því leiði atvinnuleysi. Marshallframlagið átti að lækna eða hjálpa til að lækna verðbólguna, án þess að af því leiddi skort og atvinnuleysi. Þetta hefur tekizt að nokkru leyti í ýmsum löndum, sem Marshallaðstoðar hafa notið, svo sem í Noregi, Danmörku og Bretlandi. En þetta hefur ekki tekizt hér, því miður. Það er alvarlegt, að þrátt fyrir Marshallframlagið hefur ekki tekizt að lækna verðbólguna, og þó e.t.v. enn raunalegra, ef það á að kosta varanlegt atvinnuleysi. Hér hefur orðið vart atvinnuleysis undanfarið, og það er mikil uppgjöf hjá hæstv. ríkisstj., ef hún treystir sér ekki til þess að útrýma því nema með nýrri verðbólgu. Það hefur verið tekinn talsverður vindur úr fjárhagskerfinu, og hann er m.a. geymdur í mótvirðissjóðnum. Það, sem hér á nú að gera, er einmitt að pumpa þessum vindi inn í fjárhagskerfið á ný, og það er það, sem ég óttast. Þetta er nýsköpunarstefnan frá 1944–47, svo að það er ekki undarlegt, þó að hv. 2. þm. Reykv. sé hrifinn, en hitt er undarlegra, að hæstv. núv. fjmrh. skuli hafa tekið að verja þessa stefnu. Nú er enginn ágreiningur milli hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., og ætti í því að vera fólgin nokkur aðvörun fyrir hæstv. fjmrh. Það er auðvitað hægt að halda atvinnulífinu gangandi með verðbólgu. En markmið réttrar fjármálastefnu er að koma í veg fyrir verðbólgu, án þess að um kyrrstöðu og atvinnuleysi sé að ræða. Það er ekki rétt fjármálastefna, sem hv. 2. þm. Reykv. boðar, að það sé einfalt að leysa vandamál atvinnulífsins með auknum útlánum. Það er ekki heldur rétt fjármálastefna, að kaupa svo dýru verði að komast hjá verðbólgu, að af því leiði atvinnuleysi. Hin rétta fjármálastefna er þar mitt á milli, að halda blómlegu atvinnulífi án verðbólgu. — Hvað viðkemur sjónarmiði hv. 2. þm. Reykv. gagnvart ríkisskuldunum, þá er það sama fjármálastefnan og Svíþjóð fylgdi á kreppuárunum. Á slíkum tímum getur sú fjármálastefna verið réttmæt. Ég víl ekki þurfa að óttast, að það ástand skapist, að slík stefna sé rétt. Ég vil ekki, og það er kjarni málsins, þurfa að óttast, að stefna núv. hæstv. fjmrh. hafi þær afleiðingar, að nauðsyn verði á slíkri verðbólgustefnu. Ég tók ekki eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að hann viki að því, hvort þessar ráðstafanir væru í samræmi við vilja Landsbankans, og ekki gat hann heldur um, hvort sérfræðingar stj. væru þeim fylgjandi. Ég ítreka því, að mjög æskilegt væri að fá þetta upplýst. Ég endurtek og, að æskilegt væri að fá frekari upplýsingar um þetta mál, því að af framkomnum upplýsingum er mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hvort af þessum ráðstöfunum muni leiða verðbólgu eða ekki.