03.03.1951
Neðri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

192. mál, mótvirðissjóður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) minntist á það við 1. umr., hvernig ríkisstj. hygðist skipta þessu fé milli þeirra framkvæmda, sem um ræðir í frv. Ég hef látið athuga þetta mál, og munu þær tölur, sem ég hef fengið um þessi atriði, láta nærri sanni, þótt þær séu ekki alveg nákvæmar. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur heildarkostnaður við Sogsvirkjunina numið 66 millj. kr., og þar af hefur innlendur kostnaður verið 45 millj. kr., en erlendur kostnaður 21 millj. kr. Heildarkostnaður við Laxárvirkjunina hefur orðið 28 millj. kr., þar af innlendur kostnaður 14 millj. kr. og erlendur kostnaður 14 millj. kr. Ég hef ekki tölur á takteinum í sambandi við áburðarverksmiðjuna. Þar er um byrjunarframkvæmdir á þessu ári að ræða, er munu því ekki skipta svo miklu máli. — Eins og ég gat um við 1. umr., hefur það verið í athugun að flytja tili. um að fá heimild til handa ríkisstj. um að verja allt að 50 millj. kr. af fé mótvirðissjóðs til greiðslu á skuldum ríkissjóðs við Landsbanka Íslands, og er brtt. á þskj. 783 um þetta efni. — Nema þá þær heimildir, sem ríkisstj. óskar eftir að fá samþykki fyrir til að lána af fé mótvirðissjóðs, samtals 170 millj. kr., sem sé 120 millj. kr. til Sogs- og Laxárvirkjananna og 50 millj. kr. til að greiða skuldir ríkissjóðs við Landsbanka Íslands.