12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

76. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 11. gr. áfengislaganna segir: „Dómsmálaráðherra hefur heimild til að leyfa einu veitingahúsi í Reykjavík veitingaleyfi á áfengum drykkjum, sem til landsins er heimilt að flytja.“

Af þessu má draga þá ályktun, að til þess sé ætlazt af löggjafanum, að aðeins eitt veitingahús í Reykjavík hafi leyfi til að selja áfengi. Hins vegar hefur þetta orðið þannig undanfarið, að á skemmtisamkomum, sem haldnar hafa verið á hinum ýmsu samkomustöðum og veitingahúsum í borginni, hefur áfengi verið selt, og ég geri ráð fyrir, að skýringuna sé að finna í ákvæði, sem er í 17. gr. áfengisl., og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þá grein, hún hljóðar svo:

„Bannað er að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum eða öðrum stöðum, þar sem veitingar fara fram, sbr. þó 10. og 11. gr.

Ekkert félag manna má hafa um hönd í félagsskap áfengisveitingar né heldur má áfengisnautn fara fram í félagsherbergjum, hvort sem þau eru í húsi félagsins eða annarra, nema leyfi lögreglustjóra komi til.“

Nú mun það vera þannig, að lögreglustjóri hefur veitt hinum ýmsu félögum leyfi til þess að hafa vín um hönd á samkomum, sem talið er að félögin standi fyrir. Þetta hefur orðið þannig í framkvæmdinni, að þegar stofnað hefur verið til samkomuhalds, sem talið er að sé á vegum einhverra slíkra félaga, í samkomu- eða veitingahúsum, þá hefur þar verið sala á áfengi handa hverjum, sem kaupa vildi, sem sótt hefur þessar samkomur, en yfirleitt hafa þessi félög ekki bundið þátttöku við félagsmenn, því það getur hver sem vill keypt sér aðgang að slíkum samkomum. Ég sé ekki betur en að með þessu, eins og þetta er framkvæmt, sé upphafið ákvæðið um það, að ekki megi nema eitt veitingahús hafa áfengissölu, og til þess að fyrirbyggja það, að þannig verði í framtíðinni, þá hef ég borið fram brtt. við 17. gr. á þskj. 477, um það að nema burt orðin „nema leyfi lögreglustjóra . komi til“. Þetta mundi þýða, að vínveitingaleyfi væri bundið við eitt veitingahús í Reykjavík, eins og til var ætlazt af löggjafanum. Það hefur verið rætt um það að undanförnu, hversu óviðeigandi það sé, að æskulýðsfélög og íþróttafélög hafi vínsölu á samkomum sínum, en fyrir slíkt væri tekið, ef brtt. mín væri samþ.