01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef fram að þessu ekki haft afskipti af þessu máli, en bæði er það, að það heyrir undir mína stjórnardeild, og eins hitt, að óskað hefur verið eftir, að ég léti álit mitt uppi um það, og því tel ég rétt að gera það.

Því hefur verið haldið fram, að hér væri um óvenjuleg ákvæði að ræða, og er það vissulega rétt. Þetta eru óvenjuleg ákvæði, sem að meginefni til má finna margt til foráttu, og væri ekki gott, ef hafa ætti þetta sem almenna fyrirmynd fyrir löggjöfinni, en það er líka á hitt að líta, að óvenjulegt ástand er í þessum málum, þar sem er leynivínsalan í bifreiðunum. Það hefur verið rifjað hér upp, að því sé haldið fram, að mikið sé af bifreiðum fyrir utan skemmtistaði Reykjavíkur og þar sé selt áfengi. Það er vitað, að það er ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur víðs vegar um land, sem slíkt ástand ríkir, svo að það er alveg óþarfi að saka lögregluna í Reykjavík sérstaklega um vanrækslu, heldur löggæzlu landsins í heild fyrir að hafa ekki ráðið bót á þessu. Sannleikurinn er sá, að lögreglan í Reykjavík hefur hvað eftir annað gert tilraun til að koma í veg fyrir þessa ólöglegu áfengissölu, og raunin er sú, að það er hægt að gera það með köflum. Það er hægt að gera það þegar bifreiðarstjórarnir, — leynivínsalarnir — eru sérstaklega óvarir um sig, en það má heita nærrí óframkvæmanlegt, ef þeir eru varir um sig. Ef full sönnun á að vera á leynivínsalann, þá þarf tvö vitni, og sé hann óvar um sig og gruni enga hættu, þá getur hann selt tveim mönnum, og þá er hægt að hafa hendur í hári hans. En um leið og leynivínsalann fer að gruna, að um hann sé setið, og hann er orðinn hvekktur, þá er það hið fyrsta, sem hann gætir, að selja ekki vín nema 1 maður sé viðstaddur, og þar með er fallin niður helzta og öruggasta aðferðin til að hafa hendur í hári hans. Þetta er öllum, sem kunnugir eru löggæzlumálum, fullljóst. Það má hugsa sér fleiri krókaleiðir í þessu efni, t.d. er hægt að merkja peningaseðla og með því e.t.v. hægt að hafa hendur í hári þeirra, en allt slíkt er svo þungt í vöfum, að sem raunveruleg hindrun á leynivínsölu kemur það ekki að fullu gagni. Það er líka á það að líta, að það er mjög takmarkaður hópur manna, sem fæst til að fara til leynivínsala t.d. með merkta peningaseðla og kaupa vín af honum til þess, að maðurinn sé síðan tekinn höndum fyrir það og dæmdur. Það er síður en svo að maður, sem það gerir, sé ámælisverður, en það er samt staðreynd, að það er, eins og ég sagði, mjög takmarkaður hópur manna, sem vill gera það. Og í jafnlitlu þjóðfélagi og okkar eru leynivínsalarnir farnir að vita deili á þeim mönnum sem þessara erinda fara, eftir að þeir hafa starfað að því í nokkur skipti. Það er því gersamlega vonlaust að ætla sér að leika þann leik nema með þeim hætti, að mörg brot séu tekin í einu, t.d. eftir 1–2 mán., væru þau tekin jafnóðum, þá vara leynivínsalarnir sig á manninum, svo að honum er gersamlega þýðingarlaust að leika sama leikinn oftar. Ég veit að menn skilja, að það eru fáir menn, sem vilja gera þetta, það eru ýmis leiðindi því samfara, ámæli frá ýmsum o.fl. Þess vegna er það áreiðanlegt, að löggæzlan er ekki ámælisverð fyrir það ástand, sem í þessum efnum ríkir. Ef einhver er ámælisverður, þá eru það þeir, sem sett hafa lögin og þau ákvæði önnur, sem við erum að reyna að framfylgja, en aðstaðan er svo erfið, að löggæzlan hefur ekki getað gert meira en hún hefur gert. Það hafa einmitt, eftir að ég varð dómsmrh., verið gerðar nokkrar hríðir til að uppræta þessa leynivínsölu, en það hefur strandað á þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan, að ekki hefur verið hægt að gera það oftar en raun ber vitni um. Afleiðingin af þessu er svo sú, að þrátt fyrir þessar tilraunir, þá á leynivínsala sér stað í mjög stórum stíl, bæði hér í bænum og úti um land, og það er ekki ásökun á neina löggæzlumenn, þó að þetta sé sagt, þetta veit alþjóð manna, enda kaupa svo margir vín á þann hátt, að það væri undarlegt, ef það væri ekki á allra vitorði. Það er vegna þessa vandamáls, að þm. hafa fundið ástæðu til að reyna að breyta löggjöfinni, og þess vegna flytja þeir hv. þm. Borgf. og hæstv. menntmrh. frv. sitt í Nd. Eins og það frv. var lagt fram var það nokkuð róttækt, og satt að segja róttækara en góðu hófi gegndi. Þetta frv. var síðan borið undir ýmsa embættismenn hér í Reykjavík, og í samráði við þá hafa sumar þær breyt. verið gerðar, sem komið hafa frv. í núverandi form. Ég veit, að þeir embættismenn, sem þessar till. hafa gert, bera þær ekki fram vegna þess, að þeir sjái ekki mikla annmarka á þeim. Þeir gera sér hins vegar ljóst, að það verður að gera einhverja tilraun til að sporna við því ófremdarástandi, sem nú er, og lina á eða breyta núgildandi ákvæðum.

Það má segja — og ég játa það —, að í vissum tilfellum mundi sú löggjöf, sem verið er að setja, leiða til ranglætis, ef henni væri fylgt fram af óbilgirni og í heiftarhug, en það verður að gera ráð fyrir því í lengstu lög, að löggæzlumenn og dómstólar séu vitibornar og sanngjarnar „verur“, sem framkvæmi lögin af skilningi og sanngirni.

Ef bílar þyrpast að skemmtistöðum og bílstjórarnir sitja þar tímum saman, og menn koma einn og einn til að tala við þá, og það eru sömu bílarnir, sem þessar setur stunda yfirleitt, innan bæjar og utan, — ef þeir reyndust svo hafa vínbirgðir í fórum sínum, þá mundi ég segja, að það væru svo miklar líkur fyrir því, að þeir væru sekir, að ekki væri óeðlilegt, að þeir væru látnir færa sönnur á, að þeir væru þarna í löglegum erindagerðum, og það eru fyrst og fremst þessi tilfelli, sem lögin gera ráð fyrir. Ég geri hins vegar ráð fyrir því, svo að við notum dæmi hæstv. forseta, að hafi einhver bóndi austan úr Skaftafellssýslu getað sannað, að hann ætli að halda upp á afmælið sítt og hann er á ferð með vín í veizluna og kunningjar hans með honum, og sýnt er, að þeir hafa notið góðs af vökvanum, sem þeir eru með, þá mundi þetta allt vera talin sönnun þess, að þeir væru ekki í ólöglegum erindum með þetta vín.

Ég skal ekki rekja þetta frekar, en meginefni laganna má, sem sagt, mjög gagnrýna. Það er ekki fyrir það að synja, að þessi reglugerð getur komið illa niður, en það verður þá frekar að leiðrétta það eftir á og breyta þá lögunum eftir því, sem nauðsyn sýnir að þörf er, en gera þessa tilraun núna vegna þess, að ófremdarástandið í málinu er svo mikið, að mér finnst nauðsynlegt að gera eitthvað lögreglunni til stuðnings, því að það verða menn að skilja, að hún er ráðalaus með núgildandi löggjöf og verður því að fá frekari vopn í hendur, og þessi löggjöf á einmitt að verða slíkt vopn.

Hv. þm. Barð. gat um það áðan, að það væri farið að stöðva menn á vegum úti til að athuga, hvort þeir hafi ökuskírteinið með sér. Þetta er alveg rétt, þetta er gert, en það má ekki ásaka löggæzluna fyrir það, landslögin segja, að þeir eigi að hafa skírteinin og gæzlumennirnir eiga að framfylgja því. Það eru löggjafarnir og þeir, sem reglugerðir setja samkv. lögunum, sem þarna eru þeir „seku“, en ekki lögreglan. Ég er út af fyrir sig ekki að mæla því bót, að þetta ákvæði sé í lögunum. en það er það eins og sakir standa, og hingað til hefur enginn hreyft því á Alþ., að það væri óþarft.

Það hefur einnig komið fram hjá hv. þm. Seyðf., að það sé erfitt að tala um áfengismál vegna þess, að menn vilji ógjarnan ræða þau af fullum rökum, og þau verða oft tilefni til persónulegrar áreitni, er menn halda fram skoðunum, sem öðrum fellur illa í geð, sbr. varfærni hæstv. forseta um málið.

Ég vil einnig taka það fram í sambandi við þær ásakanir, sem bornar hafa verið á lögreglustjórann í Reykjavík út af veitingu áfengisleyfa, að þær eru með öllu ástæðulausar. Menn getur greint á um, hvort þessar leyfisveitingar eru heppilegar eða ekki, en það þýðir ekki að ráðast á einn embættismann og ásaka hann um ástand, sem alþjóð hefur vitað árum saman, að var fyrir hendi. Það vita allir, hvernig þessi leyfismál hafa verið framkvæmd. þessir dansleikir eru daglega auglýstir, og menn vita, að þar hefur vín verið selt. Menn sjá líka, hve erfitt er að greina þarna á milli staða, að banna sumum vínveitingar, en leyfa öðrum. Í sumar voru bannaðar vínveitingar á tilteknum stað, þar sem segja má, að hafi verið einna hæpnast eftir reglugerð að veita vínveitingaleyfi. Ástæðan var sú, að þarna hafði komið upp grunur um alveg sérstaklega ólöglegt athæfi forstöðumanna og starfsmanna, — ég segi grunur, því að ekki er búið að dæma í málinu —, en mér er ekki kunnugt um, að sams konar athæfi hafi átt sér stað í öðrum sams konar veitingahúsum. Afleiðingin af þessu var. að hvað eftir annað var í einu virðulegu blaði hér í bænum, blaði Framsfl., gerð árás á lögreglustjórann og mig fyrir að vera svo hlutdrægur að meina þessum stað að hafa vínveitingar. Þá voru vínveitingar taldar sjálfsagðar, hvernig sem á stæði, jafnt þó að forstöðumenn væru undir sök. Það ósamræmi, sem er í þessum ásökunum annars vegar og hinum, að leyfisveitingar hafi verið of rúmar hins vegar, sýnir, að erfitt er fyrir almenning að gera sér hlutlausa grein fyrir þessum málum. Það hefur sýnt sig, að það er ómögulegt í jafnstórum bæ og Reykjavík að ætla sér að hafa einn stað, sem hefur einkaleyfi til vínveitinga, en það fyrirkomulag, sem nú er, verður að breytast. Til þess, að ekki væri hægt að ásaka neinn um hlutdrægni í leyfisveitingum, þá hefur verið látið jafnt yfir alla ganga og leyfin veitt með þeim hætti, sem almenningi er kunnugt, og það er ekki einasta kunnugt almenningi, heldur hafa dómsmála- og fjármálaráðuneytin fylgzt með, hvernig þau hafa verið framkvæmd. Það er algerlega ástæðulaust að taka það upp sem ásökunarmál á hendur lögreglustjóranum, hvernig þessum leyfum er háttað. Hitt er alveg rétt, eins og kemur fram í nál. í Sþ., að allt þetta vínveitingaleyfafargan og umræður um þessi mál sýna, að núgildandi áfengislöggjöf fær ekki staðizt. Hana verður að endurskoða, svo að skynsamleg og hófleg notkun áfengis geti átt sér stað. — Ég tel, að þetta frv. stefni í rétta átt, og mundi greiða því atkv. mitt.