01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

76. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. miðar að því að gera tilraun til að breyta l. þannig, að hægt sé að uppræta ólöglega sölu áfengis, sem á almannavitorði er, að rekin hefur verið árum saman í leigubifreiðum, ekki aðeins í Rvík, heldur einnig víða um land. Það er viðurkennt af öllum. að tilgangurinn sé lofsverður, og allir eru sammála um, að nauðsyn beri til að uppræta þennan smánarblett, en það hefur hv. 1. þm. Eyf. m.a. nefnt ástand það, sem ríkir hér í þessum efnum. En menn greinir á um, hvaða leiðir sé heppilegast að fara. Ég vil taka undir með hv. 4. landsk. í því, að þó að með þessu móti megi með skynsamlegri framkvæmd laganna koma í veg fyrir ólöglega sölu áfengis í leigubifreiðum, þá nægi þetta ekki til að koma í veg fyrir leynisölu í heimahúsum, því að kunnugt er, að einstakir borgarar selja áfengi með okurverði og nota sér drykkjufýsn manna sem féþúfu eins og bifreiðarstjórarnir. Slíkir menn eru til víða um land, og ég veit enga svívirðilegri atvinnu heldur en þessir menn stunda, og þarf að taka algerlega fyrir slíkt, eins og hugmyndin er að gera hjá bifreiðarstjórunum. Ég vil því, að við 1. gr. komi sú viðbót, að einstakir borgarar geti sætt sömu viðurlögum og þar er gert ráð fyrir, ef á þeim liggur rökstuddur grunur um áfengissölu. Jafnan er vitað um ýmsa menn, sem fyrst og fremst eru leynivínsalar, þó að þeir hafi aðra atvinnu að yfirvarpi.

Hv. 11. landsk. gerði að umtali hér áðan þau ummæli 1. gr.: „enda liggi fyrir rökstuddur grunur um, að áfengið sé ætlað til ólöglegrar sölu“, og beindi þeirri spurningu til frsm. meiri hl. allshn., hvað þyrfti til þess, að talið væri, að fyrir lægi rökstuddur grunur um, að maður seldi áfengi ólöglega. Slíkt er auðvitað álitamál, og mér skildist á hv. 11. landsk., að hann væri óánægður með þetta orðalag og vildi nema þetta atriði úr frv. Ég gæti sætt mig við, að þessar setningar væru numdar á burt og þarna kæmi punktur. Ég gæti sætt mig við að afnema þennan varnagla við skoðunarheimildinni, þó að þetta sé sett til að hindra, að lögreglan sé að skoða í bifreiðar, þó að vitað sé, að þær séu ekkert grunsamlegar og engum mundi detta í hug að stunduðu ólöglega vínsölu, eins og enginn mundi gruna hæstv. forseta um slíkt, þó að vitað sé um skoðun hans í þessum efnum. Ég tel því, að vel megi hafa þetta ákvæði áfram í frv., þó að ég mundi ef til vill fylgja till. frá hv. 11. landsk. um að fella þetta niður, ef hann bæri slíka till. hér fram.

Varðandi það, að sönnunarbyrðin sé lögð á bifreiðarstjóra og ef til vill farþega, þá hefur það atriði verið skýrt með prýðilegum rökum af hæstv. dómsmrh. Það er vitað um ýmsa menn, að þeir stunda ólöglega vínsölu, en til þess að hægt sé að sanna það, þarf tvö vitni, en ef áfengissalarnir eru slóttugir, þá er nær óframkvæmanlegt að koma við slíkri sönnun, þar sem þeir selja ekki vín, ef fleiri en einn eru viðstaddir. Þess vegna vildi ég, að hæstv. forseti vildi fallast á, að eitthvað væri gert til að hægt væri að koma fram sönnunum á hendur þessum mönnum, en nú er skortur á slíku, og hins sama vildi ég fara á leit við jafneinlægan bindindismann og hv. þm. Barð. er, en hann var óánægður með frv. án þess þó að koma með nokkra úrbót aðra, og væri mjög gott, ef bent væri á aðrar leiðir en þá, sem hér er farin, þó að ég komi ekki auga á neina aðra leið. Og ég tel menn ekkert of góða til að sanna sakleysi sitt, ef þeir haga sér þannig, að grunur fellur á þá, og er ég um það atriði algerlega sammála hæstv. dómsmrh.

Hv. frsm. minni hl. lagði að því mér fannst aðaláherzluna á það, þó að hann viðurkenndi, að ástandið væri slæmt, að hér væri um að ræða svo mikinn hluta tekna ríkissjóðs, að ekki mætti draga úr áfengissölunni, og að með þessu væri verið að hundelta þá menn, sem gerðust sjálfboðaliðar við að afla ríkissjóði tekna. Það kann að vera, að það sé ranglátt að launa starf þessara manna þannig, en samt sem áður hef ég enga meðaumkun með þeim.

Hv. þm. Barð. vildi að vísu útrýma leynivínsölunni, en gat hvorki fellt sig við frv. né meðferð n. á málinu. Hv. þm. vefengdi þær upplýsingar í grg., sem lýstu ástandinu í þessum málum í dökkum litum. En ég held, að það séu svo merkir menn, sem á bak við þessar upplýsingar í grg. standa, að ekki sé ástæða til að vefengja það, sem þeir segja þar, og ég held, að þeir, sem gengið hafa með opin augun og þar á meðal hv. þm. Barð., gangi þess ekki duldir, hve alvarlegt ástandið er og hefur verið í þessum efnum. Ég þykist því ekki þurfa að þreifa á frumgögnum til að leggja trúnað á það, sem fram er haldið í grg. Ég tel því, að ekki þurfi að véfengja gögn þau, sem frv. fylgja. Þó kann að vera, að ástandið í þessum efnum sé skárra en verið hefur, eins og hv. 4. landsk. vildi halda, og stafar það þá frá samtökum bifreiðarstjóra, og er það mjög lofsvert hjá þeim að láta það varða missi stöðvarréttinda, ef bifreiðarstjóri gerist sekur um að nota starf sitt sem yfirvarp til leynivínsölu. Og slík afstaða hjá þessum félagsskap hjálpar til þess, að sjaldnar þyrfti að koma til aðgerða slíkra l. sem hér er um að ræða, og það væri vel. Ég er líka viss um, að svona ákvæði mundi skerpa ábyrgðartilfinningu bifreiðarstjórastéttarinnar yfirleitt, þannig að þeir höguðu sér ekki eins gáleysislega og ýmsir einstaklingar þeirrar stéttar hafa gert, ef möguleikar væru fyrir hendi á því, að þeim gæti orðið hált á því að hafa um hönd óleyfilega vínsölu í bifreiðum. Ég býst þess vegna við, að þessi lög mundu verða til þess að bæta ástandið stórlega í þessu efni, og það teldi ég gott.

Hv. þm. Barð. vildi augsýnilega áfellast lögregluna fyrir það að hafa látið slíkt ástand skapast, sem nú er í þessum efnum. En ég efast um, að það sé rétt að áfellast lögregluna fyrir það, þó að svona hafi farið, og tek ég undir það með hæstv. dómsmrh., að þeir hafi átt í þessum málum við mjög erfiðar aðstæður að etja um að uppræta leynivínsölu, og munu eiga það að óbreyttri löggjöf.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Ég held, að þeir, sem af einlægni vilja, að komið sé í veg fyrir ólöglega áfengissölu í bifreiðum, hljóti að vilja stuðla að framgangi þessa frv., eða þá, ef þeir eru óánægðir með ákvæði þess að einhverju leyti, að þeir hljóti þá að koma fram með brtt., sem þeir gera sér í hugarlund, að nái sama marki. En ég verð að segja það, að þá menn, sem einungis setja út á orðalag þessa frv. og greiða síðan atkv. á móti því, án þess að gera tilraun til þess að koma fram með breyt. á orðalagi þess, þannig að markmiði frv. sé unnt að ná frá þeirra sjónarmiði, — þá verð ég því miður að væna um það, að þeir séu ekki alveg heilir í fylgi sínu við tilgang frv. þessa, sem þeir þó hafa verið að lýsa hollustu sinni við.