01.02.1951
Efri deild: 59. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

76. mál, áfengislög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil taka það strax fram, að það var misskilningur hjá hv. 6. landsk. þm., að ég vildi fella niður það orðalag, ef „rökstuddur grunur“ lægi fyrir. Ég var að spyrja hv. n., ef það kæmi fyrir, að ég ætti að meta það, hvað væri rökstuddur grunur, og hvað n. meinti með því. Hitt er það, að ég álít, að nauðsynlegt sé að hafa þetta orðalag, en að menn megi ekki þjóta í það að vaða inn í bifreiðar, án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um brot. Annars er þetta, sannast að segja, og við erum líklega öll í þessari hv. deild sammála um það, að ástandið, sem hér er talað um, sé hið mesta ófremdarástand, sem verður að ráða bót á. Það er vitað, að einstakir menn gera það sér að atvinnu að selja áfengi fyrir okurverð. Um leið og á að sporna við því, að slíkur óþokkaskapur sé hafður í frammi, þá þarf um leið að hafa hliðsjón af því, að ekki sé gengið á almennt öryggi þegnanna í landinu, saklausra og sanngjarnra borgara, sem ekki vilja vamm sitt vita. Því ég verð að segja, að ég veit ekki, hvernig verður litið á það, — því að ég er nú talinn frekar sopastór, ef í það fer, — ef ég vildi nú fara í langa ferð með kunningjum mínum og við vildum hafa með okkur 5 til 6 flöskur af víni og einhver illgjarn náungi yrði var við það, að við værum þannig á ferð og hann gerði næsta sýslumanni aðvart og svo fyndi sá sýslumaður áfengi hjá okkur; ég býst við, að við slyppum við refsingu fyrir að vera með þessar flöskur, en við gætum orðið fyrir töfum og óþægindum fyrir það, að sýslumaður færi að skoða í bifreiðina hjá okkur. Mundi þessi kærandi fá áminningu, eða verða gerðar athugasemdir við hans athæfi? Þá vil ég enn fremur spyrja hv. n., — hvað vítt á þetta að ganga? T.d., nú er áfengi flutt þannig, að það er í flutningatæki, sem hægt er að tengja við bifreiðina, t.d. jeppakerru. Hvað segir hv. n. um það? Ég veit, að kerran er tengd við bifreiðina, en ef kerran væri losuð við bifreiðina, áður en þessir leitarmenn kæmu og bifreiðinni síðan ekið í burt, gefa þá þjónar réttvísinnar vaðið í kerruna og skoðað í hana? Þetta atriði getur komið til greina, og væri gott að vita, hvernig á að snúa sér í þessum málum.

Nú er farið að ferðast mikið með flugvélum, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að menn geti haft með sér áfengi í þeim ferðalögum. Er nokkuð rétthærra það brennivín, sem flutt er norður í Eyjafjörð eða vestur í Dali í flugvélum, heldur en hitt, sem flutt er í bifreiðum? Ég held, að það ættu að vera lík ákvæði um það brennivín, sem flutt er í flugvélum, og það, sem flutt er í bifreiðum. Svona má lengi telja. En til þess að þessar lagabreyt. nái tilgangi sínum, verður að fara hægt og hóflega í hlutina og sjá svo um, að ákvæðin verði ekki talin fara út fyrir þau takmörk, sem sanngjarnt megi teljast. Sé þess gætt, má með því fá samúð almennings með löggjöfinni. En við vitum, að hversu mikil refsing sem sett verður, ef almenningi finnst ákvæðin vera ranglát, þá er síður von um; að þeim verði fylgt eða þau komi að gagni. Ég held, að það mætti hafa þessi ákvæði nokkurn veginn á þá leið að láta þau ná til þeirra bifreiða, sem eru í nálægð við skemmtistaði eða í kaupstöðum, þar sem veitingastaðir eru, og ef líkur þykja benda til þess, að bifreiðin liggi þar með áfengi, að þá ætti að vera heimilt að ganga að þeim bifreiðum og rannsaka þær. Þess vegna held ég, að ef n. hefur góðan hug á þessu, — og hv. frsm. hefur mér oft reynzt mjög hugkvæmur og stundum sanngjarn, — þá ætti hún að sjá til þess, að þetta mál væri athugað betur og reynt, hvort ekki væri hægt að bræða hér saman brtt., sem mundi ná því aðalmarkmiði, sem ætlazt er til með þessu frv., þannig, að ekki væri gengið allt of mikið á athafnafrelsi einstaklingsins, þannig að hann mætti nokkurn veginn um frjálst höfuð strjúka með sína eina pelaflösku í vasanum. Ég tek mjög undir það, sem hv. þm. Barð. óskaði eftir, að fresta nú þessari umr. og taka þetta mál til athugunar, heldur en að láta skeika að sköpuðu um það, hvort nokkuð verður úr þessu eða ekki. Því við sjáum, að hér þarf að ráða bót á þessu þannig, að að gagni komi.

Það er vitað, að áfengisl. eru yfirleitt viðkvæmt mál, og það væri miklu skemmtilegra, ef þessi hv. d. gæti farið nokkurn veginn einhuga með þessar breyt. á áfengisl. heldur en að afgreiða þær með litlum meiri hl. og í trássi við a.m.k. marga menn.