05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, að ég skil frv. þannig, að sérákvæðin um sönnunarbyrðina eigi einnig við, ef vín finnst í bifreið vegna rökstudds gruns um, að óleyfileg vínsala eigi sér stað.

Þegar 2. málsgr. byrjar með „Nú finnst áfengi í bifreið — “, get ég ekki annað séð en það sé áframhald af þeirri fyrri. Er því sönnunarskyldan lögð á sakborning, þvert ofan í íslenzka réttarmeðvitund. Brtt. hv. þm. Barð. og hv. þm. S-Þ. dregur verulega úr þessu, og tel ég hana því til mikilla bóta og mun fylgja frv., ef hún verður samþ. (PZ: En till. hv. 1. þm. Eyf.?) Ég hef ekki athugað till. hv. 1. þm. Eyf. og veit því ekki, hvað í henni felst. Það getur vel verið, að hún sé ágæt líka, en sem sagt, þá hef ég ekki athugað hana.