13.02.1951
Efri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

76. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég bar hér fram brtt. við 2. umr. um það, að löggæzlumenn þyrftu a.m.k. að færa sterkar líkur fyrir því, að áfengi, sem fyndist í bifreið, væri ætlað til ólöglegrar sölu, áður en kveðinn væri upp refsidómur yfir eigandanum, en samtímis báru tveir hv. þm. fram till. um að fella niður það ákvæði í frv., að hlutaðeigandi þyrfti að sanna sakleysi sitt, og þegar sú till. var komin fram, þá fannst mér óþarfi að halda till. minni til streitu, því að það er auðvitað oft hægt að færa sterkar líkur fyrir því, að maður hafi ekki í hyggju að fremja lögbrot, þó ómögulegt sé að sanna slíkt, og því tók ég till. mína aftur. En nú er hér komin fram brtt. frá hæstv. dómsmrh., sem tekur upp efni minnar till., og þó að ég hafi tekið mína till. aftur, þá er góð vísa aldrei of oft kveðin, ef gr. verður samþ. með þessari breytingu, þá verður ákæruvaldið fyrst að leggja fram rök fyrir því, að áfengið muni eiga að selja ólöglega, og auk þess nægir samkv. gr., að eigandinn færi sterkar líkur fyrir því, að svo sé ekki. Og þó að erfitt sé að krefjast sönnunar um sekt hvað þá sýknu, þá ætti þetta þó að fyrirbyggja, að saklausum manni verði varpað í steininn, þó að flaska finnist í bíl hjá honum. En nú vill hv. 1. þm. N–M. breyta þessu aftur, þannig að í stað „sterkar líkur“ komi: sönnur. — M.ö.o. vill hann láta það ákvæði haldast, að maðurinn sé sekur, nema hann geti sannað, að hann hafi ekki ætlað að nota áfengi til ólöglegrar sölu. Með þessu móti er hver maður, sem hefur meðferðis áfengi í bifreið, sekur við lögin, því að það er ekki hægt að sanna, að maður ætli ekki að drýgja afbrot í framtíðinni. Eða hvernig getur hv. 1. þm. N–M. sannað, að hann ætli ekki að stela í framtíðinni? Jú, hann getur bent á, að hann hafi verið heiðarlegur maður, sem aldrei hafi stolið neinu. En er slíkt nokkur sönnun? Það er því hugsanaleg fjarstæða að ætla að krefjast fyrir fram sannana fyrir því, að hann ætli ekki að drýgja glæp. Það má ef til vill krefjast þess, að maður sanni, að hann hafi ekki drýgt glæp, og það er gert undir vissum kringumstæðum, en hitt, að sanna, að maðurinn hafi ekki ætlað að drýgja glæp eða nota vöru til lögbrota, slíkt getur enginn maður. Þess vegna álít ég, að frv., eins og það var samþ. í Nd., sé hreint hneyksli vegna 2. málsgr. 1. gr., og sama er að segja, ef till. hv. 1. þm. N-M. verður samþ., og álít ég, að það yrði Alþingi hreint og beint til vansæmdar. Þá væri nær að taka aftur upp aðflutningsbann í landinu, heldur en að hafa áfengisverzlanir opnar og ginna menn til þess að kaupa vínið og gera þá um leið lögbrjóta, því að ég hygg, að menn fari yfirleitt með áfengið heim til sín í bílum. Slík lög hygg ég, að geti ekki gert neinum góðum málstað gagn, og ég vil láta í ljós undrun mína yfir því, að heil þingdeild skuli hafa samþ. frv. með málsgr. eins og 2. málsgr. 1. gr. er, eins og Nd. hefur gert, og meiri hl. þessarar hv. deildar skuli geta fallizt á slík ákvæði.