13.02.1951
Efri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi segja það, þótt ég sé meginstefnu frv. samþykkur og telji ekki sömu hættu fólgna í þessu ákvæði og hv. 1. þm. Eyf., þá get ég ekki fallizt á að samþykkt brtt. við síðustu umr. spilli frv., heldur þvert á móti. — En út af því dæmi, sem hv. 1. þm. N-M. tók hér áðan, ef hann færi með nokkrar flöskur af víni út á land fyrir hv. 1. þm. Eyf., þá er málið ekki eins auðvelt og hann vill vera láta, ef það orðalag er á, sem hann vill hafa, og þá gæti svo borið við, að hann gæti ómögulega sannað það, sem hann þyrfti að sanna. Segjum nú svo, að hv. 1. þm. Eyf. skrifaði þessum hv. þm. bréf og bæði hann um að færa sér 5 flöskur af brennivíni út á land, — segjum svo einnig, að á leiðinni stoppaði þingmaðurinn á t.d. fimm stöðum, þar sem drykkjusamkomur og óregla hefði átt sér stað, og enn fremur að gerð væri gangskör að því að leita í bílnum, sem hann væri í, og þá fyndust þessar 5 flöskur. Þá mundu auðvitað allir reka augun fyrst í það, að þessi hv. þm., sem ekki bragðaði vín, væri með þessar flöskur, og mundi þá falla sterkur grunur á hann. Nú ætlar hann að sanna sakleysi sitt með því að sýna bréfið frá þm. Eyf., en svo óheppilega vildi til, að hann fyndi það hvergi. Þá ætlaði hann að hringja til þingmannsins, en segjum svo, að hann hafi dáið í millitíðinni, sem vel getur hafa komið fyrir. Þá væri óhjákvæmilegt að hann yrði dæmdur sekur, ef það orðalag er á frv., sem hann vill hafa, og einmitt það, að hann bragðaði ekki vín sjálfur, yrði honum að fótakefli.

Það er nauðsynlegt að setja reglur, til þess að hafa hendur í hári þeirra, sem sekir eru, en þær mega ekki vera þannig úr garði gerðar, að hugsanlegt sé, að þeir, sem saklausir eru, verði fyrir barðinu á þeim. Eftir því orðalagi, sem nú er á greininni og eftir að mín till. yrði samþ., þá er fullkomlega komið í veg fyrir hvort tveggja það, sem koma á í veg fyrir með þessu frv., það, að hjálpa til að taka fyrir óleyfilega sölu áfengis og hafa hendur í hári þeirra, sem sekir eru, og koma í veg fyrir, að saklausir séu dæmdir.