20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta er nokkur breyt. frá því Nd. gekk frá frv. á sínum tíma. Málið var til athugunar á ný í allshn. í morgun, og nm. þeir, sem mættir voru, voru sammála um að leggja til að færa málið aftur í sama horfið og það var, þegar d. gekk frá því. Það er varðandi 2. málsgr. 1. gr. sem nokkur ágreiningur varð um í Ed., en það atriði er nú komið í það horf, eins og segir í 2. málsgr., en hún hljóðar svo: „Nú finnst áfengi í bifreið, þegar svo stendur á sem í næstu málsgr. hér á undan segir, og skal þá refsa eiganda þess, sem hann væri sekur um ólöglega áfengissölu, nema hann færi sterkar líkur fyrir því, að áfengið sé ekki ætlað til sölu.“ Eins og Nd. gekk frá þessu, þá var það að efninu til þannig: nema sannað sé að áfengið sé ekki ætlað til sölu. — Orðalagið er dálitið annað á. þessari málsgr. en það var, og efnisbreyt. er sú, að eins og þetta kemur frá Ed. þá er, undir þessum kringumstæðum, viðkomandi talinn sekur um ólöglega áfengissölu, nema hann færi sterkar líkur fyrir því, að áfengið sé ekki ætlað til sölu. — Við leggjum til, nm. í allshn., að í staðinn fyrir orðin „nema hann færi sterkar líkur fyrir því“ í 2. mgr. 1. gr. frv. komi: nema sannað sé. — Ég vil leyfa mér að leggja þetta fram sem skriflega brtt. frá allshn. Ef þessi brtt. nær fram að ganga, verður niðurstaðan sú, ef leit er gerð í bifreið og þar finnst vín, að þá verður viðkomandi að færa sönnur á, að hann hafi ekki ætlað sér að selja vínið. Hér er að vísu snúið við almennum reglum um sönnunarbyrði sakbornings, en þó finnst fordæmi fyrir þessu sama í lögum um lax- og silungsveiði, þar sem segir svo í 88. gr. 2. mgr.:

„Nú hittist maður með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, og skal þá sekta hann sem hann væri sekur um ólöglega veiði, nema sannað sé, að hann hafi haft þar lögmætt erindi.“

Ég vil með þessum orðum leyfa mér að afhenda forseta þessa skriflegu brtt. frá allshn.