20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

76. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Ég vil þakka mjög eindregið hv. allshn. fyrir þá breyt., sem hún hefur gert á frv. Hún hefur nú breytt því í sama form og það var, þegar það var afgr. til hv. Ed., og þá hafði enginn við það að athuga, ekki heldur hv. þm. V-Húnv., og var málið afgr. þannig til hv. Ed. mótatkvæðalaust, enda kemur það þannig miklu betur heim við allar aðstæður, en eins og frv. er orðað núna er það alveg gagnslaust. Hér er lagt til að fella úrskurð eftir líkum, en það er yfirleitt grundvallarregla að dæma ekki eftir líkum. Þannig var málið afgr. frá þessari hv. deild í fullu samræmi við ríkjandi réttarreglur. Ég vil því mega mælast til, að sú mikla umbót og lagfæring, sem gerð var á áfengislögunum hér í hv. deild, verði látin haldast og að hv. deild standi að því, að frv. verði lögfest þannig. En ef skerst í odda og það sýnir sig, að deildirnar verða ekki sammála, þá hefur hv. Nd. fullt vald á endanlegri afgreiðslu þessa máls með stuðningi þess hluta hv. Ed., sem með því stendur. Ég vil því mega mælast til þess, að till. hv. allshn. verði samþ. hér í hv. deild. Það er algerlega ástæðulaust, sem fram kom í hv. Ed. og hv. þm. V-Húnv. virðist hafa smitazt af, að hér sé verið að stefna í óefni fyrir farþega í bifreiðum, því venjulega er ekki um miklar vegalengdir að ræða, sem menn þurfa að fara áður en þeir geta notið þess víns, sem þeir hafa með sér, og þar að auki er frv. alls ekki beint gegn þeim. Það, sem hér er verið að stuðla að, er að koma í veg fyrir þá ólöglegu vínsölu, sem nú fer fram í bifreiðum, þar sem bílstjórar liggja við þann lóðarhálsinn að safnast saman við skemmtistaði og reka þar þessa þokkalegu iðju sína. Það er nú svo komið hér í nálægum héruðum Reykjavíkur, að ef ekki verður ráðin bót á þessu, þá er hætt við, að leggja verði niður þessar skemmtanir. Það skeður þráfaldlega, að skemmtanir eru gersamlega eyðilagðar fyrir drykkjuskap, vegna þess að bílstjórar safnast saman við skemmtistaðina með þeim afleiðingum, að þeir, sem veikir eru fyrir, kaupa af þeim vín. Ef Alþingi ræður ekki bót á þessu, verður ekki hjá því komizt að fella niður þessar skemmtanir. Þó frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir, þá er engin bót á þessu ráðin og sú afgreiðsla málsins aðeins til að skemmta skrattanum, en hitt er vitað, að bílstjórum stendur stuggur, verulegur stuggur af frv. eins og það var afgr. frá hv. Nd., og sjá sitt óvænna, að þeir geti ekki haldið þessari iðju áfram, ef það verður samþ. þannig. Ég vil því mega mælast til, að hv. deild samþykki brtt. hv. allshn.