23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

76. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé um misskilning að ræða í þessu máli. Ég get ekki séð, að í raun og veru sé það nokkur eðlis- eða efnismunur á, hvernig með þessi mál verði farið, hvor till. sem verður ofan á. Mér skilst, að það sé ómögulegt að sanna, að áfengið verði ekki síðar selt ólöglega. Alltaf getur farið þannig, að áfengið verði ólöglega selt. Það mundi enginn dómari krefjast sterkari sannana en sterkra líkna. Þess vegna get ég óhræddur greitt atkv. með frv. óbreyttu frá Nd., því að eðlinu samkv. mun dómari fara eins að, hvort orðalagið sem verður. Úr því að brtt. er komin fram, tel ég eðlilegt að samþ. það orðalag, sem allir dómarar munu fara eftir. — Í þessu tilfelli er ekki hægt að fara eftir öðru en sterkum líkum. Hér er um óorðinn atburð að ræða, og er ekki hægt að færa sönnur. En ef sagt er, að hér sé um ætlun mannsins að ræða, þá geti fengizt eigin játning mannsins. Ef hann játar á sig sökina, er fengin bein sönnun. En hér er ætlunin, að hann þræti og segi, að hann ætli ekki að selja ólöglega áfengi. Þá er ekki hægt að dæma eftir sönnunum, heldur verður að fara eftir sterkum líkum.

Ég held, að þessi þræta stafi af algerum misskilningi, upprunalega um hvaða sönnunarregla komi til greina. Gefur þetta ekki tilefni til að segja, að frv. nái ekki tilgangi sínum, ef ekki verður komið á sönnunarskyldu. Ég fullyrði, að það verður enginn munur á framkvæmd laganna, hvort orðalagið sem verður, en ég mun greiða atkv. með því frv., sem allir dómarar munu fara eftir í þessum efnum.