23.02.1951
Efri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

76. mál, áfengislög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, þær eru þegar orðnar alllangar. Ég vil fyrst og fremst mótmæla því, fyrir hönd dómsmrn., að það sé ekki til þess að skapa öryggi á vegum, að það sé athugað, að menn, sem keyra bíla, hafi rétt til þess eða ekki. Því er haldið hér fram í blákaldri alvöru, að það sé gert til að afla ríkissjóði tekna. Það er auðvitað gert til að athuga, að landslögum sé hlýtt og menn keyri ekki bíla nema hafa réttindi til þess. Það eru ekkert annað en getsakir að ætla ríkisstj., að hún sé að gera þetta að gamni sínu til að fá 15 kr., sem ekki er nema brot af því, sem bíllinn kostar, sem þarna er á ferð til að gæta þess, að landslögum sé hlýtt.

Hæstv. dómsmrh. tók það fram, að þessu frv. er ekki ætlað að laga nema einn galla á áfengislögunum, sem sé þann, að draga úr misnotkun áfengis, sem stafar af leynivínsölu úr bifreiðum á skemmtistöðum, bæði hér í bænum og úti á landi. Það er áreiðanlegt, að með þessu frv. er upplagt, ef löggæzlan er í dálitlu lagi, — hún þarf ekki einu sinni að vera í góðu lagi — að taka fyrir, að bílar komi með tugi og hundruð af vínflöskum á skemmtanir úti í sveit og fylli þar allan mannskapinn, — þetta næst með frv.

Ég vil benda þeim mönnum á, sem hugsa líkt og dómsmrh., þ.e.a.s. að það sé nokkuð sama, hver till.samþ., að þeir eiga tvímælalaust að greiða atkvæði á móti till., þeir eiga ekki að greiða henni atkv. og senda með því málið í Sþ. og stofna því þar í hættu, því að þar þarf svo mikinn meiri hluta til að samþ. það, en við hinir, sem teljum það til spillis að samþ. það svona, eigum að vera með till. og eiga það á hættu, hvernig Sþ. fer með það.