26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

76. mál, áfengislög

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Í lok fundar á föstudag var því beint til allshn., hvort hægt væri að fá umsögn lögreglustjóra og sakadómara um það, sem dómsmrh. sagði, að sama væri, hvort orðalagið væri haft, það sem nú stendur, eða það, sem ætlazt er til með brtt. Í lok fundarins lét ég skilja á mér, að hægt væri að fá umsögn þessara manna. Ég hafði tal af þessum embættismönnum, en þeir óskuðu eftir bréfi. Á laugardaginn var ekki hægt að afgreiða bréfið, og þar sem líða tekur að þinglausnum, taldi ég málinu stefnt í óvissu með að bíða eftir svari. Ég sendi því ekki bréfið, af því að mér virtist ekki vera hægt að fá svar nógu fljótt. Ég legg til, að d. taki orð hæstv. dómsmrh. trúanleg, að það mundi gilda sama, hvort orðalagið yrði látið gilda. Málinu er stefnt í voða með því að gera á því breyt. á þessu stigi málsins. Og nú er orðið svo áliðið þings, að enginn, sem ekki vill í raun og veru stemma stigu fyrir framgangi málsins, getur samþ. þá brtt., sem fyrir liggur.