26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

76. mál, áfengislög

Lárus Jóhannesson:

Ég verð að l,ýsa undrun minni yfir því, að hv. Nd. skuli aftur hafa breytt frv. frá því að það var afgr. hér í d., og ég vona það, að Ed. sýni þann manndóm að standa fast við sínar fyrri skoðanir í þessum efnum, vegna þess að það er enginn minnsti vafi á því, að hér hefur hún þann góða málstað, en Nd. þann slæma. Þetta segi ég því frekar nú, að það er nýbúið að samþ. á þessu Alþ. lög, sem ganga miklu lengra en áður gildandi lög í því að tryggja rétt sakbornings gagnvart ákæranda. Ég á hér auðvitað við lög um réttarfar í opinberum málum. Áður var hægt að pína menn, svo að segja, til sagna eftir „inquisitívu“ prinsípi, en nú er það útilokað, og það væri þá að minnsta kosti mjög hart og óviðkunnanlegt í alla staði, að einmitt sama þingið, sem samþykkti þessa stórkostlegu réttarbót, færi að samþykkja nokkrum dögum seinna í mjög ómerkilegum málaflökki lög, sönnunarreglur, sem gengju alveg í gagnstæða átt. — Það hefur verið bent á, að það séu til svona sönnunargögn. Ég þekki aðeins eitt dæmi, og það er 88. gr. l. nr. 112 frá 1941, um lax- og silungsveiði. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hittist maður með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, og skal þá sekta hann sem væri hann sekur um ólöglega veiði, nema sannað sé, að hann hafi þar lögmætt erindi“.

Þetta er eina tilfellið, sem ég þekki, þar sem sönnunarreglunum hefur verið snúið við, því að þau atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) benti á, þau eru allt annars eðlis, því að skipstjórinn ber ábyrgð á tollskránni, þ.e.a.s., hvað er innanborðs af tollvörum, en þetta sannar hins vegar hvorki sekt hans né sakleysi, þar eð þetta er lagaákvæði sérstaks eðlis. — Hitt, sem hann nefndi, um landhelgislögin, er líka annars eðlis, því að ólögleg meðferð veiðarfæra innan landhelgi er gerð að sérstöku lagabroti. Sönnunarreglan er hér höfuðatriði. Og ég vil biðja hv. þm. að gæta þess, að það er ekki sama, hvaða viðurlög eru við brotum. Í laxveiðilögunum, sem ég las úr áðan, er hæsta sekt þannig 1000 kr., og má segja, að þar sé ekki hundrað í hættu. Hér á hins vegar sektin að vera fimm- til tíföld við verðmæti þess, sem um er að ræða, og getur hún þannig skipt mjög háum upphæðum.

Því vil ég benda á annað atriði, sem ekki hefur verið sérstaklega rætt hér í d., a.m.k. ekki þegar ég hef hlustað á umræður, en það er þetta, hvernig á að láta þá menn, sem réttilega eru dæmdir, afplána sekt sína. Við vorum hér fyrir skömmu að samþykkja breyt. á bifreiðalögunum, þar sem dómurum var veitt leyfi til að dæma menn í sektir meira en verið hefur, af því fangelsisrúm skorti til þess að láta menn afplána refsingu. En nú skulum við segja, að bifreiðarstjóri fari máske í annað sinn með einar 100 flöskur til sölu upp í sveit. Hver flaska kostar víst einar 85 kr., svo að verð þeirra verður 8500 kr. Og í þessu tilfelli verður þá sektin allt að 85 þús. kr. Hvað mundi þá hlutaðeigandi sökudólgur þurfa langan tíma til að afplána þá sekt? Líklega eina 850 daga, eða á 3. ár. Það eru féleg lög annað eins og þetta! Maðurinn á að sitja í tugthúsi á þriðja ár fyrir það að gerast sjálfboðaliði ríkisins við dreifingu áfengis fyrir lítinn pening, og ríkið verður svo máske að sjá fyrir fjölskyldu hans á meðan. Þetta sýnir nú, hvílík dæmalaus heimska þessi löggjöf er, enda er það svo, að jafnvel ærlegustu og beztu bindindismenn hafa viðbjóð á þessum aðförum.