06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég var fyrsti flm.brtt., sem samþ. var í hv. Ed. við þetta frv. — Það eru kannske sumir þeirrar skoðunar, að hér sé smámál á ferðinni. En sannleikurinn er sá, að hér er ekki um neitt smámál að ræða, er fjallar um það, hvort ákæranda á að verða gert að skyldu að sanna sakleysi sitt eða ekki, og það kemur ekki málinu við, hvort heldur það er í sambandi við vínsölu, þjófnað eða morð. Hér er sönnunarskyldan lögð á sakborninginn, sem er einsdæmi í löggjöfinni. Eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) tók fram, er skip aldrei dæmt fyrir landhelgisbrot nema það sé tekið að veiðum eða sé með ólöglega útbúin veiðarfæri, þótt það sé ekki að veiðum, innan landhelgi. Þá vil ég benda á, að meðal annarra menningarþjóða er það ekki látið nægja, að menn játi á sig lögbrot eða glæp, vegna þess að það getur komið fyrir, að menn játi á sig sök fyrir aðra og vilji taka hana á sig, t.d. fyrir náin skyldmenni. Hér er hins vegar farið inn á þá braut að leggja sönnunarskyldu á menn, þótt þeir hafi ekki brotið lög, og slíkt réttarfar vil ég ekki viðurkenna í okkar ágæta landi — og ekki einu sinni, þótt um vínsölu eða grun á henni sé að ræða. Þótt ég viðurkenni löngun hæstv. dómsmrh. til þess að sætta þetta deilumál, þá fæ ég ekki skilið, að með samþykkt till. hans sé sönnunarskyldan færð af sakborningnum, og get því ekki fylgt henni. Ég mun því neyðast til, ef brtt. hans verður samþ., að greiða atkv. móti frv. í heild á eftir, því að mér er það mikið áhugamál, að sönnunarskyldan sé ekki færð yfir á sakborninginn í neinu tilfelli í íslenzkum lögum.

Ég vil einnig benda á það, að það eru engin smávegis viðurlög, sem lögð eru við því að brjóta þessi l., því að þeir, sem tekst ekki að sanna sakleysi sitt í þessum efnum, þurfa hvorki meira né minna en að greiða í sektir, er nema í fyrsta sinn fimmföldu og í annað sinn tíföldu söluverði þess áfengis, sem úrskurðað er að þeir ætli til ólöglegrar sölu. Þetta gæti numið svo hárri upphæð, að viðkomandi aðili hefði ekki vilja eða getu til þess að greiða hana og ríkið þyrfti að taka að sér að láta hann afplána sektina, og þannig gæti farið, að ríkið yrði að verja allmikilli fjárupphæð til þess að byggja yfir þá menn, sem ekki tekst að sanna, að þeir hafi ekki gerzt brotlegir við áfengislöggjöfina. Það gæti líka komið fyrir um sakborninga, sem kannske eru alveg saklausir en geta ekki sannað sakleysi sitt, að þeir missi atvinnuréttindi til að stýra bifreið, ef til vill alla ævi, sem auðvitað er miklu þyngri dómur fyrir lögbrot, sem aldrei hefur verið framið, en ég áðan nefndi. — Það er því sýnilegt, að það þurfa að vera sannanleg rök fyrir því, ef hægt er að dæma menn til þess að þola slík viðurlög eins og hér eru sett. Annars virðist það vera ný og vaxandi stefna í íslenzkri löggjöf, að því vitlausari lög sem eru samþ., þeim mun þyngri viðurlög eru sett gegn brotum á þeim. — Ég mun því greiða atkv. á móti till. hæstv. dómsmrh. og síðan á móti frv. í heild, ef hún verður samþ.