26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þá er nú svo komið málum í okkar landi eftir fjögurra ára stjórn þríflokkanna, sem sjálfir hafa gefið sér nafnið lýðræðisflokkar, að framleiðslutækin, sem að eðlilegum hætti ættu að framleiða allt að 2/3 hluta útflutningsframleiðslunnar, liggja vikum saman óhreyfð þrátt fyrir góðar gæftir og gnægð fisks á miðum; þúsundir hraustra manna, sem þrá vinnu og starf, eru neyddir til að ganga aðgerðalausir, meðan heimili þeirra vantar björg í bú. Og hinir vísu landsfeður, sem samkvæmt kenningum vísindanna banna mönnum að hagnýta auðæfi lands síns, taka sér nú enn á ný betlistaf í hönd til að biðja útlendinga um lán fyrir matnum til næsta máls og nauðsynlegustu spjörum til að klæðast, þar sem ölmusugjafirnar hrökkva ekki til, eða þá að sýna miskunn og bæta við ölmusurnar. Við erum sem sagt komin á hreppinn. Við erum komin á fátækraframfæri Bandaríkjanna.

Er nú ekki kominn tími til að staldra við og reyna að gera sér grein fyrir því, hvað þessum ósköpum valdi? Fyrir fjórum árum vorum við efnuð og velmegandi þjóð. Nú erum við orðnir beiningamenn. Hvað hefur gerzt á þessum fjórum árum, eða nánar tiltekið á árunum 1947–1951?

Þegar samstjórn þríflokkanna tók við 1947, höfðu gerzt hin mestu og skjótustu umskipti, sem orðið hafa á atvinnuvegum Íslendinga. Á tveimur árum hafði verið unnið stórvirki, sem einkenndist af stórhug og bjartsýni þjóðar, sem hafði endurheimt sjálfstæði sitt og trúir á framtíðina, þjóðar, sem trúir því, að hún fái að njóta ávaxtanna af starfi sínu. Það var verið að breyta Íslandi úr landi frumstæðra atvinnuhátta í land nýtízku tækni. Fiskiflotinn var endurnýjaður svo rækilega, að nýju bátarnir afla nú meira en helmings fiskaflans og allir þeir togarar, sem nú stunda veiðar á Íslandi, voru keyptir á nýsköpunarárunum. Jafnframt var komið upp verksmiðjum og frystihúsum til að hagnýta aflann og gera úr honum markaðshæfa vöru. Það tókst að afla nýrra markaða, þannig að við gátum selt allar okkar afurðir. Fiskverðið til útvegsmanna og sjómanna hafði stórhækkað. Kjör verkafólks fóru síbatnandi og hver hönd hafði verk að vinna. Þannig var landinu skilað í hendur stjórnar Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl. árið 1947. Og nú urðu enn á ný skjót umskipti. Erlendu stórveldi var afhent íslenzkt land til þess að hafa þar dulbúna herbækistöð. Síðan var snúið sér að atvinnumálunum. Fyrsta verkið var að hækka tolla á neyzluvörum meira en dæmi eru til í sögu Alþingis. Næst var kaupgjaldsvísitalan bundin við 300 stig, á sama tíma og skráð verðlagsvísitala komst upp í 355 stig og raunveruleg vísitala talsvert á fimmta hundrað stig. Allt átti þetta að vera viturlega og vísindalega grundvölluð aðferð til þess að bjarga efnahag þjóðarinnar og skapa velmegun og öryggi. Í stefnuyfirlýsingu stj. var heitið eftirfarandi árangri: góðum og öruggum lífskjörum allra landsmanna og áframhaldandi velmegun; að neytendur skyldu eiga kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á sem hagkvæmastan hátt; að öllum vinnandi mönnum til sjávar og sveita skyldu tryggðar réttlátar tekjur; að nýsköpuninni í atvinnulífinu skyldi haldið áfram; að öll framleiðslutæki yrðu hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg afvinna; að atvinnuvegir landsmanna yrðu reknir á arðbærum grundvelli, svo að þeir stöðvuðust ekki vegna verðbólgu og vaxandi dýrtíðar. Birt var svo kölluð risaáætlun um nýjar atvinnuframkvæmdir.

Sumarið 1949 var svo langt komið að skapa grundvöll þessa atvinnuöryggis og risaáætlunar, að stjórnarflokkarnir kepptust við að lýsa yfir, að nú stæði algert fjárhagshrun fyrir dyrum. Hið vinnandi fólk hafði fórnað miklu á altari hinna háleitu hugsjóna vestræns lýðræðis og efnahagssamvinnu til þess að skapa sér hið þráða öryggi. Kaupmáttur launanna fór sílækkandi fyrir aðgerðir ríkisstj., og dregið var úr verklegum framkvæmdum af einskærri umhyggju fyrir velferð fólksins. En þrátt fyrir allt þetta var svo komið, að grípa þurfti til nýrra stórfelldra bjargráða til að forða því, að hætt yrði með öllu að gera út fiskiskip frá Íslandi. Auðvitað þótti þessum miklu lýðræðisflokkum sjálfsagt að efna til nýrra kosninga. Og það fóru fram kosningar. Ekki þótti það þó í samræmi við hið eina sanna lýðræði að segja fólkinu, hver þessi bjargráð ættu að vera, áður en kosið var. En við sósíalistar sögðum fólkinu nákvæmlega, hvað til stæði. Í útvarpsræðu fyrir kosningarnar sagði ég, að kosningarnar væru í raun og veru þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem eftirfarandi spurningar væru lagðar fyrir þjóðina:

1. Ertu með gengislækkun?

2. Ertu með því, að dregið verði stórlega úr atvinnuframkvæmdum, að byggð verði færri íbúðarhús og færri atvinnutæki, færri skólar og færri sjúkrahús?

3. Ertu með Atlantshafssáttmálanum, framlengingu Keflavikursamningsins og auknum amerískum vígbúnaði á Íslandi?

Ég sagði, að hver sá, er kysi þríflokkana, Sjálfstfl., Alþfl. og Framsókn, svaraði þessum spurningum játandi. Og það fór svo, að mikill meiri hluti kjósenda greiddi þessum flokkum atkvæði. Ekki vegna þess, að þetta fólk væri að gjalda jáyrði við þessum spurningum, heldur þvert á móti. Því var trúað, að við sósíalistar færum með staðlausa stafi. Því var trúað, að flokkar, sem sífellt eru með lýðræði og fórnarlund á vörum og alla hagspeki hinnar voldugu vestrænu vinaþjóðar að bakhjarli, hlytu að finna upp eitthvað klókt til bjargar landi og lýð. Hvernig fór? Getur nú nokkur neitað lengur, að fyrirætlanir stjórnarflokkanna voru nákvæmlega þær, er við sögðum fyrir? Getur nokkur neitað því, að það, sem raunverulega var kosið um, var upp á hár það, sem við sögðum? Gengið var lækkað. Það var dregið stórlega úr öllum atvinnuframkvæmdum, og það er vitað, að unnið er kappsamlega að því að gera Keflavíkurflugvöllinn að opinberri herstöð og nýtt amerískt hernám er í undirbúningi.

Að kosningum loknum var birt mikil álitsgerð eftír bandarískan hagfræðing af íslenzku bergi brotinn. Aðalinntak hennar var þetta: Allt, sem gert hefur verið hingað til, öll hin dásamlegu bjargráð og „patent“ fyrrv. ríkisstj. eru tóm endileysa, byggð á röngum forsendum og leiða til sívaxandi ófarnaðar. Kaupgetan er of mikil, það eru allt of miklar atvinnuframkvæmdir, gengi krónunnar er allt of hátt. Þess vegna þarf að draga úr kaupgetu almennings, stöðva alla nýja fjárfestingu, þ.e.a.s. nýjar atvinnuframkvæmdir, og stórlækka gengi krónunnar. 43% gengislækkun, sem hækkar innkaupsverð erlendra vara um nálega 75%, mun að vísu valda 11–13% verðhækkun fyrst í stað. En þegar frá líður, mun þetta hafa þau áhrif, að öll útflutningsframleiðsla landsmanna verður fullnýtt vegna nægra markaða og stórhækkandi verðs í íslenzkum krónum; það mun verða gnægð vara í landinu, svo að verðlag stórlækkar. Útkoman verður í stuttu máli: næg atvinna, lækkandi vöruverð, stórbætt lífskjör. Þetta var sem sagt hinn ameríski Kínalífselexír, er lækna skyldi íslenzku þjóðina af öllum meinum. Og nú er reynslan komin. Gamla vísitalan er komin yfir 480 stig, vöruskortur og svartamarkaður meiri en dæmi eru til. Fiskiskipin liggja bundin við landfestar, þótt nógur fiskur sé á miðum, mikill hluti iðnaðarins að stöðvast vegna efnisskorts. Þúsundir manna ganga atvinnulausar víðs vegar um landið. Víða stappar nærri neyðarástandi. Samkvæmt skýrslu verkalýðsfélagsins á Bíldudal er ástandið þar þannig, að í ágúst s.l. komu að meðaltali 159 kr. til framfærslu hvers einstaklings, í sept. 217 kr. og í okt. 183 kr. Og þetta er ekkert einsdæmi, heldur táknrænt fyrir ástandið á fjölmörgum stöðum, eins og skýrslur þær, sem síðan hafa verið teknar við atvinnuleysisskráningu, sanna bezt. Og fyrir áramótin varð Alþ. að horfast í augu við þá staðreynd eftir 9 mánaða reynslu af bjargráðunum, að útflutningsverðmætið hafði lækkað um röskan þriðjung frá 1948 og útflutningur á freðfiski að magni til ekki nema helmingur, en af ísfiski minna en fjórðungur af útflutningi síðastliðins árs. Bátaútgerðarmenn neituðu að gera út báta sína á vetrarvertíð, nema á ný yrðu gerðar gagngerðar ráðstafanir til bjargar.

En ekki dró úr ríkisútgjöldunum þrátt fyrir fyrirheit um mjög bættan hag ríkissjóðs og lækkaða tolla, þegar fiskábyrgðin féll niður. Í stað þess hafa tollar og neyzluskattar tvívegis verið stórhækkaðir. Árið 1946 voru rekstrarútgjöld ríkissjóðs 127 millj. kr. Nú eru þau röskar 260 millj., þ.e.a.s., þau hafa meira en tvöfaldazt á þessum fjórum árum. Áætlaðar dýrtíðargreiðslur hafa lækkað um 40 millj. síðan 1949. Framlög til verklegra framkvæmda hækkuðu ekki að krónutali þrátt fyrir gengislækkunina, þannig að verklegar framkvæmdir ríkisins verða stórum minni. Framlög til verklegra framkvæmda hafa stöðugt verið að minnka hlutfallslega síðan stjórn þríflokkanna tók við 1947. 1946 voru þau 15,3% af rekstrarútgjöldunum. Á fjárl. þessa árs eru þau aðeins 7,5%. Samt sem áður hafa rekstrarútgjöldin enn hækkað frá 1949. Við samanburð á fjárl. 1949 og núgildandi fjárl. kemur í ljós, að frá þeim tíma hefur þenslan í ríkisbákninu numið um 45 millj. kr. Árið 1946 námu tollar og neyzluskattar samtals um 50 millj. kr. Nú eru þeir yfir 170 millj. Hækkunin ein saman er því yfir 120 milli. kr., eða álíka upphæð og öll rekstrarútgjöld fjárl. árið 1946. Þetta er ráðsmennska mannanna, sem aldrei opna sinn munn og aldrei taka sér penna í hönd án þess að fyllast heilagri vandlætingu út af því, að þjóðin lifi um efni fram, og prédika af eldmóði, að nú þurfi að draga saman seglin, stinga við fótum o.s.frv.

Þegar þingi var frestað fyrir jól, 20. öldin var hálf og 9 mánuðir voru liðnir síðan bjargráðin miklu komu til framkvæmda, sem framar öllu áttu að hefja bátaútveginn til vegs og gengis, þá var svo komið, að þessi atvinnuvegur, sem er meginundirstaðan undir öllu hagkerfi Íslands, var að stöðvast. Eina úrræðið, sem stj. kom auga á, var að binda vísitöluna enn á ný, þannig að frá nýári skyldu engar kaupuppbætur greiddar vegna hækkandi verðlags þrátt fyrir fyrirmæli gengislækkunarl., og jafnframt að hækka neyzluskattana um litlar 10 millj. í viðbót. Raunar tókst svo til, að um leið og ákvæði gengisskráningarl. um þetta efni voru felld úr gildi, öðluðust verkalýðsfélögin rétt til að fá greidda fulla uppbót mánaðarlega samkvæmt gildandi verðlagsvísitölu. Varð því að láta Alþ. samþykkja ný lög til þess að svipta verkalýðsfélögin rétti sínum, þar sem það þótti til of mikils ætlazt af dómstólunum að dæma bersýnilega rangan dóm. Afleiðingin af þessari ráðsmennsku ríkisstj. varð sú, að þrjár fyrstu vikur vetrarvertíðarinnar var legið í landi. Ef til vill hefði þetta orðið bezti hluti vertíðarinnar. Tugum milljóna af erlendum gjaldeyri var kastað á glæ. Ef til vill verður þetta skiljanlegra, þegar þess er gætt, að í umræðunum fyrir jólin kom Eysteinn Jónsson ekki auga á aðra skýringu á vandræðum þjóðarinnar en að kaupgetan væri enn of mikil; vandinn, sem þurfti að leysa, var því að draga enn meira úr kaupgetunni. Út frá því sjónarmiði getur maður skilið, að ekki hafi legið á því að koma bátunum á flot og ekki þótt ástæða til að sinna kvörtunum manna, þótt mánaðartekjur þeirra kæmust niður í 160–200 krónur.

Allt eru þetta staðreyndir. Um þær verður ekki deilt. Um hitt eru menn ekki sammála, hvernig á því stendur, að svo er komið. Það er játað af hálfu núverandi stjórnarflokka, að þeirra eigin pólitík og margrómuðu bjargráð á árunum 1947–1949 hafi verið eintóm hringavitleysa. En nú er það orðið staðreynd að enn hrapallegar hefur tekizt til með „patentið“ frá 1950, gengislækkunina. Það er nú varla von til þess, að þeir hafi hug til að játa þann sannleika, að þeir fóru með eintómar blekkingar og staðlausa stafi. Þess vegna eru þeir að bögglast við að finna skýringar. Skýringarnar eru þessar: Við höfum orðið fyrir þrem stórum áföllum. Hið fyrsta er togarastöðvunin, annað síldarleysið og hið þriðja markaðsvandræðin.

Togarastöðvunin var enginn náttúruviðburður, heldur af mannavöldum. Ríkisstj. hefði getað komið í veg fyrir hana með því að lögfesta 12 stunda hvíldartíma og fallast á aðrar sanngirniskröfur sjómanna. En togarastöðvunin var einmitt skipulögð af útgerðarauðvaldinu í náinni samvinnu við ríkisstj. Hún var blátt áfram einn liður í bjargráðum. hennar, en höfuðatriði þeirra var að lækka kaupmátt launanna, minnka kaupgetuna.

Aflaleysið á síldveiðunum í sumar var enginn óvæntur atburður. Það var líka aflaleysi á nýsköpunarárunum. Þetta var sjötta aflaleysissumarið í röð. Það hefði því verið undarlegt, ef bjargráð gengislækkunarinnar hefði beinlínis verið byggt á því, að síldin kæmi. Þó að gengislækkunin ætti að leysa mörg vandamál, heyrði ég þess þó aldrei getið, að hún ætti að koma í veg fyrir aflabrest.

Þá er það þriðja áfallið: markaðsvandræðin. Til gengislækkunarinnar var stofnað einmitt til þess að koma í veg fyrir markaðsvandræði. Það er einmitt þetta, sem hefur brugðizt, af því að allar ályktanir gengislækkunarmanna voru byggðar á röngum forsendum.

Þá er því haldið fram, að verðgildi krónunnar hafi fyrir löngu verið fallið áður en krónan var skráð á hinu nýja gengi, og er þá einkum vísað til nýsköpunartímabilsins sem undirrótar alls ills. Nú skulum við bara athuga, hvað hefði skeð, ef fylgt hefði verið ráðum Framsóknar. Við skulum hugsa okkur, að við ættum enga togara, sem borgaði sig að gera út, enga eða fáa nýja báta og engin fiskiðjuver né nýjar verksmiðjur til að vinna úr aflanum. Hvar værum við þá staddir? Það er auðvelt að reikna út, hve lengi við hefðum verið að éta út innstæðurnar erlendis. Til þess þarf ekki annað en líta á innflutningsskýrslur. Það er jafnaugljóst og 2 og 2 eru 4, að ef ekki væru fyrir tækin, sem keypt voru og komið upp á nýsköpunartímabilinu, þá væri fyrir löngu komið algert neyðarástand í landinu.

Hverjar eru þá hinar raunverulegu orsakir þess, að svona er komið? Við sósíalistar höfum margsinnis rakið þessar orsakir. Við sýndum fram á, til hvers pólitík fyrstu stjórnar Alþfl. og Bjarna Benediktssonar mundi leiða. Og það kom allt fram. Við sýndum fram á blekkingarnar í málflutningi gengislækkunarmanna, færðum rök fyrir því, að gengislækkunin leysti ekkert vandamál, og sögðum fyrir um, til hvers hún mundi leiða. Það er nú allt komið fram áður en árið er liðið.

Það er alveg rétt, að krónan var þegar fallin í verði löngu áður en gengi hennar var breytt. Það var unnið markvisst að verðfellingu krónunnar allar götur frá 1947. Orsakirnar fyrir þeirri þróun voru þessar:

Öll utanríkisviðskipti okkar, bæði innflutningur og útflutningur, voru einokuð í höndum fámennrar auðklíku, sem hafði ríkisstjórnina og ríkisvaldið að skálkaskjóli. Viðskiptin voru rígbundin við lönd, þar sem markaðarnir fyrir útflutningsvörur okkar voru að hrynja niður. Einokunarklíkan lá eins og mara á framleiðslu þjóðarinnar og saug úr henni blóð og merg. — Ýmsir hafa átt erfitt með að frúa því, að menn, sem trúað hefur verið fyrir því að gæta hagsmuna þjóðarinnar, stefni vitandi vits að því að eyðileggja beztu markaði hennar. En nú er fyrir hendi slíkur fjöldi óyggjandi staðreynda, að enginn, sem gerir sér far um að kynna sér málavöxtu, getur efazt lengur. Það hefur verið sannað, að mjög hagstæð viðskipti við Pólland, sem gátu numið milljónum króna, voru eyðilögð. Það hefur verið sannað, að komið hefur verið í veg fyrir, að við gætum selt fisk til Ítalíu fyrir hærra verð en umboðsmenn Kveldúlfs suður þar skammta okkur. Það hefur verið sannað, að tékkneskar vörur hafa verið fluttar inn frá Englandi fyrir 25% hærra verð en hægt er að fá þær fyrir beint frá Tékkóslóvakíu. Það hefur líka verið sannað, að Austur-Þýzkaland vill gera við okkur stórviðskipti, en í höndum ríkisstj. hefur ekkert orðið úr þeim. Þetta eru aðeins minni háttar dæmi.

Ástæðan fyrir þessari pólitík eru sérhagsmunir þeirrar stéttar, sem kostar útgáfu Morgunblaðsins og með fjármagni sínu hefur lyft Sjálfstfl. til valda í íslenzkum stjórnmálum. Forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, sem ræður mestu um pólitík Framsóknar er í nánu bandalagi við þessa stétt. Önnur ástæðan er valdboð Bandaríkjanna, sem íslenzku lepparnir telja sér skylt að hlýða, samkv. skýlausum ákvæðum Marshallsamningsins. Þetta eru orsakirnar fyrir þeirri óheillaþróun, sem átt hefur sér stað síðan 1947. Engin af „bjargráðum“ þeirra ríkisstj., sem farið hafa með völd á þessu tímabili, hafa hróflað við þessum orsökum. Þess vegna gátu þau engu bjargað, heldur aðeins leitt yfir okkur meiri ógæfu. Þess vegna leysti gengislækkunin ekkert vandamál, heldur togaði okkur æ dýpra niður í fenið. Eftir gengislækkunina læsti einokunin klóm sínum enn fastar í þjóðina.

Enn á ný kemur ríkisstj. með „bjargráð“. Nú eru þau í því fólgin, að útgerðarmenn eiga að fá helminginn af þeim gjaldeyri, sem þeir afla, að undanskildu andvirði þorskalýsis og síldarafurða. Fyrir þennan gjaldeyri mega þeir aðeins kaupa ákveðnar vörutegundir. sem þeir fá einkarétt á að selja við því verði, sem þeim sýnist. Útgerðarmenn telja. að álagning þeirra þurfi að verða 50–60%. Nú liggur í hlutarins eðli, að með þennan gjaldeyri verður verzlað á svörtum markaði, svo að þar við bætist álagning þeirra, er kaupa hann. Til þess að heildsalarnir missi ekki spón úr aski sínum, var fyrirhugað að taka eyðslulán handa þeim til að kaupa fyrir almennar neyzluvörur, og var nefnd upphæðin 12 millj. dollara, eða 200 millj. króna, og fríðindin til útgerðarmanna voru bundin því skilyrði, að það tækist að leysa þessa hlið málsins. Þegar til kom, mun hafa orðið fyrirstaða hjá húsbændunum í Washington að leyfa slíkar lántökur, fram yfir þá skuldasöfnun hjá greiðslubandalagi Marshalllandanna, sem Íslandi er heimiluð. Hins vegar hefur stjórnin skýrt svo frá, að hún hafi fengið vilyrði fyrir auknum ölmusugjöfum. Þessu verða gerð nánari skil hér á eftir, og mun ég því ekki fara frekar út í það. Það nægir að segja, að þessi leið bjargar ekki bátaútveginum. Einokunin á innflutningnum og útflutningnum heldur áfram þrátt fyrir öll fyrirheit um „frílista“, þannig að allar þær orsakir, sem eiga sök á ófarnaði undangenginna ára, halda áfram að vera að verki. En hér er um að ræða nýja og stórfellda gengislækkun, eins konar tvöfalt gengi eða lögverndaðan svartamarkað, ef menn vilja nefna það svo. Þetta er nýr milljóna baggi á þjóðinni og mun hafa í för með sér nýja verðhækkun. Þegar ölmusugjafirnar þrýtur og væntanleg eyðslulán uppétin, þá stöndum við beinlínis á barmi gjaldþrotsins. Þá munu spár Eysteins Jónssonar bókstaflega rætast fyrir tilstilli hans og félaga hans: við verðum á gljúfurbarminum. Og ofan í gljúfrið föllum við, ef þjóðin tekur ekki í taumana nógu röggsamlega og nógu snemma.

Þetta er í þriðja skiptið á fjórum árum, sem við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að framleiðslan er að stöðvast, sjálf slagæð atvinnulífsins hættir að slá. Og þetta er í þriðja skiptið, sem ríkisstj. auðvaldsflokkanna kemur með „bjargráð“ sín, sem í hvert skipti eiga að vera allsherjarlyf við öllum meinum þjóðfélagsins. Í hvert skipti höfum við sósíalistar tætt sundur blekkingarnar og í hvert skipti hefur reynslan sannað okkar mál. Í hvert skipti hefur verið stefnt í enn meira óefni. Og enn á ný dirfast þessir gjaldþrota loddarar að koma fram fyrir þjóðina með hinn beiska kaleik skottulæknisins. Í þetta skiptið kinokuðu þeir sér samt við að leggja málið fyrir Alþingi. Þetta er hið margrómaða lýðræði þeirra í framkvæmd. Alþingi fær ekki að fjalla um stærsta málið, sem afgreitt er meðan það situr á rökstólum.

Öll þau vandkvæði, sem að þjóðinni hafa steðjað á undanförnum fjórum árum og hér hafa verið rakin, eru sjálfskaparvíti, og það hefði verið hægt að komast hjá þeim öllum, eins og við sósíalistar höfum margsinnis sýnt fram á. Eftir fjögurra ára óstjórn er vitaskuld miklu erfiðara um vik. Enn er samt tími til að snúa við. Með því að skipta algerlega um stefnu er hægt að fullnýta atvinnutæki þjóðarinnar, koma upp nýjum atvinnutækjum til að skapa meira öryggi í atvinnulífinu og viðskiptum okkar við aðrar þjóðir og sækja fram til nýrrar velmegunar. Þessi gagngerða stefnubreyting er í höfuðatriðum fólgin í eftirfarandi:

1. Það þarf að létta einokuninni af þjóðinni, bæði í útflutnings- og innflutningsverzluninni, leysa þjóðina úr viðjum innlendra og erlendra einokunarhringa, sem einskorða viðskipti okkar við lönd. sem hvorki vilja né geta keypt afurðir okkar, nema síminnkandi magn fyrir sílækkandi verð. Það er alveg víst. að dugandi stjórn. sem er annað og meira en pólitísk framkvæmdastjórn einokunarhringanna, stjórn, sem hefur hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, getur fundið markaði fyrir allar okkar útflutningsafurðir, þannig að öll framleiðslutæki þjóðarinnar geti unnið með fullum afköstum. T.d. hafa Norðmenn getað selt allar fiskafurðir sínar þannig, að þeir hafa getað greitt fiskimönnum sínum kr. 1.07 fyrir kg af nýjum fiski, meðan við borgum 75 aura; og þeir telja sig geta selt meira.

Jafnvel þótt ekki væri gert annað en losa um höftin, svo að framleiðendum væri frjálst að selja vörur sínar þar, sem hagkvæmast er, og flytja inn nauðsynjavörur fyrir andvirðið, mundi það duga til að tryggja útgerð fiskiflotans. Þess vegna bar Sósfl. fram frv. í desembermánuði á þá leið, að þar til aðrar og fullnægjandi ráðstafanir væru gerðar til að tryggja rekstur bátaflotans, skyldi útgerðarmönnum frjálst að selja afurðir sínar hvert er þeir vildu og kaupa inn þær vörur í staðinn, er leyfður væri innflutningur á. Skyldi setja lágmarksverð á útfluttar fiskafurðir og strangt verðlagseftirlit, er tryggði það, að verðlagið yrði ekki hærra en á vörum þeim, sem nú eru keyptar fyrir svokallaðan „frjálsan“ gjaldeyri, að svo miklu leyti sem við eigum völ á honum, eða samkvæmt viðskiptasamningum. Ef þetta frv. hefði verið samþ., hefði vertíðin hafizt strax í janúarbyrjun. En það fékkst ekki einu sinni rætt.

2. Það þarf að losa þjóðina og framleiðslu hennar við þann blóðskatt, sem rennur til þeirra, sem einoka utanríkisverzlunina, og skipuleggja hana með þjóðarhagsmuni fyrir augum. Þrátt fyrir alla óstjórn undangenginna ára munu þjóðartekjurnar enn vera 40–50 þús. kr. á hvert 5 manna heimili. Ef tekjunum væri réttlátlega skipt, gæti hvert heimili haft 30–40 þús. í árstekjur til persónulegra þarfa, og samt væru eftir ríflegir fjármunir til fjárfestingar.

3. Það þarf að létta af útgerðinni byrðum okurvaxta og óhagstæðra lánskjara, allt of hárra vátryggingargjalda, hátolla o.s.frv., auk allra þeirra skatta á framleiðslunni, sem nú renna til milliliða.

4. Það þarf að vinna markvisst að því að auka tæknina, koma rekstrinum í heilbrigðara horf og taka upp hagkvæmari vinnubrögð, jafnframt því sem allt kapp er lagt á að framleiða markaðshæfari vörur með aukinni fjölbreytni og vöruvöndun.

5. Við þurfum að stefna að því að losa okkur undan öryggisleysi hinnar einhæfu framleiðslu með því að koma okkur upp nýjum framleiðslugreinum til útflutnings. Sem dæmi má nefna, að ef við í stað þess að taka eyðslulán notuðum lánsfjármöguleika okkar til þess að koma upp stórri áburðarverksmiðju með 30 þúsund tonna afköstum, eins og sósialistar hafa lagt til, þá gætum við bætt yfir 100 millj. kr. á ári við gjaldeyristekjur okkar, jafnframt því sem verðið á áburði til íslenzkra bænda yrði stórum lægra.

Þetta eru höfuðatriðin í stefnu Sósfl. í dagskrármálum þjóðarinnar í atvinnulegum efnum, sögð í fáum dráttum. Ef íslenzka þjóðin vill halda efnahagslegu sjálfstæði sínu, verður hún að fylkja sér um þá stefnu. Að öðrum kosti er stefnt í bráðan voða.