17.11.1950
Efri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

97. mál, tollskrá o.fl.

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál fjallar aðeins um eitt atriði, sem sé að breyta l. um tollskrá á þann veg, að þau hljóðfæri, sem talin eru upp í 1. gr., verði gerð tollfrjáls. Eftir því, sem nú er ákveðið í tollskránni, þá eru hljóðfæri skattlögð bæði með vörumagnstolli og verðtolli. Vörumagnstollurinn er frá 7–120 aurar af kílói og verðtollurinn 30–80%, í flestum tilfellum 50%. Nú vil ég líta svo á, að hljóðfæri séu ekki óskyld fögrum bókmenntum og þess vegna sé eðlilegt, að sams konar reglur séu látnar gilda um hljóðfæri og um erlendar bækur. Erlendar bækur eru skattfrjálsar, og ég vil segja, að þess vegna eigi hliðstæð tæki í þjónustu menningarmála, eins og þessi hljóðfari, að vera skattfrjáls. Ríkið er nú í mjög vaxandi mæli að taka þátt í aukinni tónmennt þjóðarinnar, tónlistarskólar eru styrktir og lyft undir þá starfsemi sem bezt, og er það að verðugu, og finnst mér þá, að það sé raunverulega mótsögn, að ríkisvaldið yrði þá á móti því, að efnaminni einstaklingar geti eignazt nauðsynleg tæki til iðkunar tónlistar með svo háum tollum og sköttum sem hér um ræðir á hljóðfærum. Það er bent á það í grg., að ríkissjóður geti ekki orðið fyrir miklu fjárhagslegu tapi af því að gera hljóðfæri skattfrjáls, því að heildarupphæðin, sem varið er til kaupa á hljóðfærum, er ekki há, en þetta yrði til þess að greiða fyrir því, að efnaminni einstaklingar gætu eins og þeir efnuðu keypt hljóðfæri, ef þeir eru iðkendur hljómlistar. Mér finnst þetta mál svo einfalt, að ég tel, að það þurfi ekki skýringar við. Þetta mál er í eðli sínu menningarmál og ætti þess vegna að fara til menntmn., en líklega er þó rétt, að allar breyt. á tollalögum og skattalögum fari til fjhn., og legg ég því til, að málinu sé að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.