05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

97. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónason):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að það virðist ekki hægt að ræða nokkurt mál við hv. 6. landsk. þm. (HV), án þess að hann snúi út úr öllu, sem sagt er. Það virðist svo sem honum sé það áskapað að geta ekki skilið rétt þskj. eða að hafa neitt eftir nema rangfæra það. Það stendur í nál. á þskj. 508, að meiri hl. n. líti svo á, að gildandi tollalöggjöf sé undirstaðan undir tolltekjum ríkissjóðs, eins og þær séu áætlaðar á yfirstandandi ári. Það stendur hvergi og hefur aldrei verið talað um það, að undirstöðunni sé svipt undan tollalöggjöfinni, þótt þær vörur yrðu gerðar tollfrjálsar, sem frv. fjallar um. Í nál. meiri hl. segir svo — með leyfi hæstv. forseta: „Ef breyta ætti þeirri löggjöf í einstökum atriðum, án þess að endurskoða löggjöfina í heild og tryggja þá jafnframt ríkissjóði aðra tekjustofna í stað þeirra, sem þannig kynnu að verða felldir niður, yrðu að liggja til þess ríkar ástæður.“ Því verður ekki mótmælt, að tollalöggjöfin óbreytt er undirstaðan undir tolltekjum ríkissjóðs, og við í meiri hl. álítum, að ef á að taka einhver atriði undan, þurfi að liggja til þess ríkar ástæður, og við teljum, að þær séu hér ekki fyrir hendi.

Þegar rætt er um að gefa tollfrjálsan innflutning á þeim hlutum, sem taldir eru upp í 1. gr. frv., er hins vegar ekkert á það minnzt í gr., að það eigi eingöngu að nota þá til kennslu, en ef það er hugsun hv. flm., hefði hann átt að taka það fram. En sá möguleiki er til að fá endurgreiddan toll af kennslutækjum, ef hægt er að sanna, að þau séu nauðsynleg. Þessi leið er til án þess að raska tollalöggjöfinni.

Hv. 6. landsk. þm. benti á, að nú væri búið að ákveða, að þær vörur, sem 1. gr. frv. fjallar um, skuli settar í þann vöruflokk, sem aðeins má flytja inn fyrir útvegsmannagjaldeyri. Ef þetta er rétt, þá er því síður ástæða til þess fyrir n. að leggja til, að frv. verði samþ., því að þá er það sannarlega skoðun hæstv. ríkisstj. og fjmrh., að þessi hljóðfæri séu meðal þeirra vara, sem að skaðlausu er hægt að vera án. Nú lá þetta ekki fyrir hjá n., þegar hún gekk frá málinu, en ef þetta er rétt hjá hv. 6. landsk. þm., þá er þess ríkari ástæða til að afgreiða málið eins og hún gerði.

Sum af þessum hljóðfærum, t. d. flygel og píanó, eru oft keypt af þeim mönnum, sem hafa næga peninga og eru því ekki of góðir til þess að borga. Ef hins vegar skólar, félagasambönd eða kirkjur þyrftu að kaupa hljóðfæri, er hægt að sækja um eftirgjöf á tollum, og þar sem sá möguleiki er fyrir hendi, álítur meiri hl. n. ekki rétt að fella þessar vörutegundir undan tolli.