29.01.1951
Neðri deild: 57. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að bera fram í hv. d. frv. til l. um breyt. á l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, við hv. þm. N-Þ., hv. þm. Snæf. og ég. Með frv. er lagt til, að numin séu úr gildi þau ákvæði l., að saltfiskur sé undanþeginn útflutningsgjaldi eins og verið hefur nú um skeið. Ástæðan til, að saltfiskur er einn sjávarafurða undanþeginn, mun vera sú, að á þeim árum, sem það var gert, var mjög lítill útflutningur saltfisks; hann var svo að segja ekkert verkaður. Jafnframt því var mjög erfitt um sölu á saltfiski, svo að það þótti hlýða að bæta þá aðstöðu með því að láta hann vera undanþeginn útflutningsgjaldi. En eins og hv. þingmenn vita, þá fellur útflutningsgjald af sjávarafurðum til fiskveiðasjóðs, sem notar þessar tekjur til þess að greiða lán til eflingar sjávarútveginum, sérstaklega bátaútveginum, og þeim stofnunum, sem miða að því, að þær vörur, sem hann framleiðir, séu markaðshæfar.

Tekjur fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldi munu hafa verið 4.6 millj. árið 1946, en stjórn fiskveiðasjóðs gerir ráð fyrir, að sams konar tekjur árið 1950 verði 2.5–3 millj., tæplega 3 millj. Hins vegar taldi stjórn fiskveiðasjóðs, að ef í gildi væru sams konar ákvæði um útfluttan saltfisk, þá mundu tekjurnar nema um 5 millj. kr.

Ástæðan fyrir því, hvernig tekjur sjóðsins hafa hrapað niður árið 1950, er sú, að verulegur hluti fisksins er verkaður sem saltfiskur. Á sama tíma og lítur út fyrir, að tekjurnar lækki svo, eru uppi háværar raddir um, að sjóðurinn veiti lán eins og áður til báta- og vélakaupa og fiskiðnaðar, hraðfrystihúsa, fiskimjölsverksmiðja o. fl. Það er því augljóst, að sjóðurinn mun eiga við þrengri kjör að búa í framtíðinni en verið hefur. Sjóðsstjórnin hefur því farið fram á, með tilliti til þessa, að sams konar ákvæði gildi um útfluttan saltfisk og aðrar sjávarafurðir.

Jafnframt þessu er vitað, að ýmis þau hraðfrystihús, sem byggð voru á árunum 1946–49, hafa orðið hart úti í sambandi við lán. Þau munu hafa fengið loforð um lán úr stofnlánadeildinni, en mörg hafa engin lán fengið. Sum hefur verið haldið áfram að byggja og starfrækja á þann hátt að taka bráðabirgðalán til fárra ára með vaxtakjörum, sem þau rísa ekki undir, gegn því að fá svo framlag sitt greitt síðar. Þessi hús verða að borga 6–7% vexti af byggingarlánum og greiða þau á fáum árum eða hafa orðið að taka víxla til 2–3 ára og eru því dæmd úr leik að inna af hendi sitt hlutverk gagnvart útveginum. Það er því öllum ljóst, að á þessu verður að ráða bót, einkum eftir að það er vitað, að stofnlánadeildin getur ekki staðið við loforð sín um lán.

Á síðasta þingi var samþ. að leggja framleiðslugjald á útflutningsverðmæti nýju togaranna, og skyldi það ganga til hraðfrystihúsa, sem byggð voru á árunum 1945–49. Það er augljóst, að ekki er hægt með þessu að veita lán á sama hátt og nýbyggingarráð ákvað á sínum tíma. Nú hefur það skeð síðan, að á þessu þingi var ákveðið í breytingum á lögum um gengisbreytingu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl., að togararnir skyldu vegna hinna nýju kjarasamninga hætta að greiða þetta gjald. Með því er raunverulega kippt til baka þeim möguleika að veita hraðfrystihúsunum nauðsynleg lán.

Við flm. þessa frv. leggjum til, að enn verði gerð tilraun til að hjálpa þessum frystihúsum, þó að í smáum stíl sé. Leggjum við til, að helmingi þeirra tekna, sem fiskveiðasjóður fær, verði næstu 5 ár varið til þess að lána hraðfrystihúsum, sem byggð voru 1946–49.

Það mun varlega áætlað, að samkvæmt þessum nýju ákvæðum muni tekjur sjóðsins aukast um 1 millj. næsta ár. Það þýðir, að fiskveiðasjóður hefur 5 millj. það ár, sem varið skal til styrktar hraðfrystihúsunum. Það er svo aðkallandi að veita úrlausn í þessum efnum, að það er gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóður taki 5 millj. kr. lán, sem ríkissjóður ábyrgist, og verði því varið til lánveitinga og endurgreitt með þeim tekjum, sem ég gat um áðan. Þetta lán er áætlað mun lægra en frá stofnlánadeildinni, en þá var gert ráð fyrir 2/3 stofnkostnaðar, en hér er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður láni 25% stofnkostnaðar, en þó þannig, að áhvílandi skuldir fari ekki 75% fram úr stofnkostnaði. Það má e. t. v. segja, að þetta sé lítil aðstoð, miðað við það, sem reiknað var með í byrjun, en þó vonum við, að hraðfrystihúsin geti bjargazt við þá fjárveitingu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég hef nú drepið á helztu atriði þessa máls í þessari stuttu ræðu. Ég tel ekki nauðsynlegt að ræða þetta frekar, því að málið liggur ljóst fyrir og er þessari hv. deild kunnugt, og læt ég því þetta nægja.

Ég vona, að þessu máli verði svo að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.