06.02.1951
Neðri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 552, en hefur ekki orðið ásátt um afgreiðslu þess. Meiri hl., hv. þm. Snæf., hv. 2. þm. N-M. og ég, leggur til, að frv. verði samþ. með einni breytingu, sem er við 4. gr. og varðar fyrirkomulag á endurgreiðslu lána, sem gert er ráð fyrir að veita úr fiskveiðasjóði samkvæmt þessu frv. Minni hl. hins vegar, þeir hv. 2. landsk. þm. og hv. þm. Borgf., er frv. andvígur.

Það má telja upphaf þessa máls, að á öndverðu þingi ritaði stjórn fiskveiðasjóðs sjútvn. þessarar deildar bréf og fór þess á leit, að hún beitti sér fyrir því, að felld yrðu úr gildi l. nr. 38 1948, þar sem afnumið er það útflutningsgjald af saltfiski, er greitt hafði verið fiskveiðasjóði. Fiskveiðasjóður Íslands fær samkv. l. 1½ af hundraði af verðmæti útfluttra sjávarafurða, og hefur það fyrirkomulag einnig náð til saltfisksins, þar til gjaldið af honum var undanskilið með l. frá 1948. Þá var svo ástatt, að lítið var flutt út af þeirri vörutegund og verðið lágt, og þótti því ekki skipta miklu fyrir sjóðinn, að gjaldið rynni til hans, og hins vegar ekki gustuk að leggja það á þessa framleiðslu. Nú er aftur á móti á það bent, að hér hafi orðið miklar breytingar á, svo að meiri hluti þess fisks, sem er ekki fluttur út í ís, er nú saltaður. Því veldur nú þetta ákvæði mjög tilfinnanlegum tekjumissi fyrir fiskveiðasjóð, svo að ekki verður séð, að hann geti starfað eins og hingað til, ef þessi lagaákvæði eiga að vera áfram í gildi.

Það má nú að vísu segja, að verð á saltfiski sé ekki svo hátt, eins og sakir standa, að ástæða sé til að leggja á hann þess vegna þetta gjald. En ef það telst á annað borð réttmætt að leggja útflutningsgjald á sjávarafurðir, þá er ekki ástæða til að gera á þeim þann mun, sem nú er í lögum, og rétt að leggja á saltfiskinn engu síður en aðrar tegundir framleiðslunnar.

Þegar um það er að ræða, hvort yfirleitt sé rétt að leggja á þetta gjald, þá verður að meta, hvort nauðsyn verði að teljast á starfi þeirrar stofnunar, sem gjaldið á að renna til, þ. e. a. s. fiskveiðasjóðs. Hér á landi er engin stofnun önnur en fiskveiðasjóður, sem veiti sjávarútveginum stofnlán með hagkvæmum kjörum, og ef menn vilja halda í þann möguleika, að útvegurinn eigi kost á slíkum lánum, þá verður að styðja þessa stofnun. Hér er þannig ekki um það að ræða, að þetta gjald, sem á sjávarútveginn er lagt, þjóni öðrum hagsmunum en útvegsins sjálfs.

Í sambandi við fiskveiðasjóð og til skilningsauka á starfsemi hans þykir mér rétt að nefna nokkrar tölur, sem verða mættu til skilningsauka á þýðingu sjóðsins fyrir sjávarútveginn. Ég hef alveg nýlega fengið þessar tölur frá stjórn sjóðsins, og þær gefa nokkurt yfirlit um það hlutverk, er hann hefur rækt fyrr og nú. Ekki liggja fyrir nákvæmar skýrslur lengra aftur en til ársins 1923, en sjóðurinn var stofnaður árið 1905 og lánveitingar litlar í fyrstu. En frá 1923, eða um 27 ára skeið, hefur fiskveiðasjóður veitt samtals 776 lán, að upphæð samtals hér um bil 42 milljónir kr. Þau lán, sem fiskveiðasjóður á útistandandi nú í árslok 1950, nema samtals 24½ millj. kr. Þessi upphæð skiptist þannig í aðalatriðum, að til skipa, sem eru 12 rúmlestir eða minni, hafa verið veittar 150 þús. kr., til 13–30 smálesta skipa 1.8 millj. kr., til 31–75 lesta skipa 11.8 millj. og til skipa yfir 75 lestir á fjórðu millj. kr., — eða til skipa alls um 17 millj. kr. Jafnframt átti svo sjóðurinn útistandandi um síðustu áramót 3.4 millj. kr. til hraðfrystihúsa, 1.4 millj. kr. til fiskþurrkunarhúsa og rúmlega 2.6 millj. til ýmissa annarra fyrirtækja í þágu sjávarútvegsins.

Ef hv. þm. léki hugur á að vita, hvernig árlegri lánastarfsemi sjóðsins er hagað, þá voru t. d. veitt úr sjóðnum á árinu 1950 samtals 54 lán, að heildarupphæð 4½ millj. kr. Þar af eru 32 lán til skipa, samtals 2 millj. kr.; til hraðfrystihúsa 600 þús. kr.; lán til fiskþurrkunarhúsa 1.3 millj.; til fiskimjölsverksmiðja, lifrarbræðslustöðva og olíustöðva 513 þús. og um 100 þús. kr. til ýmissa annarra fyrirtækja, — eða í allt 4½ millj. kr. — Af þessari mynd liggur nokkuð ljóst fyrir, að sjóðurinn hefur með höndum allumfangsmikla lánastarfsemi í þágu sjávarútvegsins. Eins og nú er komið, ef tekjur sjóðsins halda áfram að rýrna mjög, eins og gert er ráð fyrir að verði, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, þá má búast við, að starfsemi hans dragist mjög saman á næstunni.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að nokkrum hluta þess tekjuauka, sem fiskveiðasjóður fengi, ef frv. næði fram að ganga, yrði varið til þess að veita lán með tilteknum kjörum til hraðfrystihúsa, sem ætlazt var til, að fengju lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, en hafa ekki fengið þau. Það var ætlunin á síðasta þingi að bæta úr þörf þessara húsa með því að veita þeim lán af framleiðslugjaldi, sem var með lögum um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl. lagt á aflaverðmæti nýju togaranna. Gert var ráð fyrir í þeim lögum, að þar fengist allmikið fé, og skyldi því varið til að veita hraðfrystihúsunum lán. Nú er það svo, að á þessu þingi hafa ákvæði laganna um álagningu þessa framleiðslugjalds verið felld niður, svo að þar mun ekki vera um að ræða neitt fé, sem hægt væri að lána hraðfrystihúsunum, og því er ætlunin með þessu frv. að bæta nokkuð úr því tjóni, sem þau hafa orðið fyrir af þessum sökum, þar sem eigendur þeirra hafa gert sér vonir um lán samkvæmt gengisbreytingarlögunum, en þær vonir hafa nú að engu orðið. Nú sé ég í áliti hv. minni hl. sjútvn., að hann væntir þess, að úr þörfum þessara hraðfrystihúsa muni verða bætt með heimild þeirri, sem er í 22. gr. núgildandi fjárlaga, um ríkisábyrgð á lánum í þessu skyni, og nemur allt að 5 millj. kr. En þar er aðeins um að ræða heimild til ríkisábyrgðar á lánum, en engin trygging fyrir því, að þau muni fást, og þótt svo væri, þá veit ég, samkvæmt upplýsingum, sem ég hef aflað mér um þetta efni, að það mundi sízt veita af að nota þau lán til að bæta úr fyrir frystihúsunum til viðbótar þeim lánum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að þau geti fengið.

Þess skal getið, eins og raunar stendur á þskj. 615, að sjútvn. hefur leitað álits stjórnar fiskveiðasjóðs um frv., og hefur stjórnin mælt með því, en gert jafnframt till. til breytinga, sem meiri hl. n. telur sig geta tekið upp í frv. að nokkru leyti.