06.02.1951
Neðri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Ottesen:

Þar sem hv. 2. landsk., frsm. minni hl. sjútvn., er ekki viðstaddur, þá vildi ég fyrir okkar hönd segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, þótt raunar sé tilgangslítið að tala hér fyrir auðum stólum, auk þess sem tekið er fram í nál. okkar það, sem við vildum segja um afstöðu okkar til málsins, og eiga hv. þingmenn aðgang að því.

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að sjútvn. barst ósk um það frá stjórn fiskveiðasjóðs, að n. legði fram frv. þess efnis, að lög, sem sett voru 1948 um það, að saltfiskur skyldi undanþeginn útflutningsgjaldi því, sem þá átti að renna í fiskveiðasjóð, yrðu felld úr gildi, þannig að útflutningsgjald af saltfiski hækkaði um 1½%, og skyldi sú hækkun renna eins og áður til fiskveiðasjóðs. Það varð ekki samkomulag um það í nefndinni, hvort verða ætti við þessum tilmælum stjórnar fiskveiðasjóðs, og því varð engin framkvæmd um að bera þetta mál fram, fyrr en meiri hl. nefndarinnar flutti þetta frv. fyrir skömmu, þar sem orðið er við tilmælum stjórnar fiskveiðasjóðs, og ef það nær samþykki, þá verður lagt til viðbótar 1½% útflutningsgjald á saltfiskinn. En ástæðurnar til þess, að minni hl., við hv. 2. landsk., hefur ekki treyst sér til að verða við þessum tilmælum, voru þessar: Eins og kunnugt er, þá féll að mestu niður saltfisksverkun hér á landi á stríðsárunum, og var því fiskurinn fluttur mestmegnis út hraðfrystur eða ísaður. Nú hefur það komið í ljós, er farið var að salta fiskaflann meira en áður, að sá útflutningur hefur átt mjög erfitt uppdráttar. Ég fer ekki að rekja ástæðurnar fyrir því, að tiltölulega lágt verð hefur fengizt fyrir hann, eftir að farið var að flytja hann út, en niðurstöðurnar hafa orðið þær, að allmiklu lægra verð hefur fengizt fyrir saltfiskinn á erlendum markaði en þann fisk, sem fluttur hefur verið út hraðfrystur. Og með tilliti til þessa, hvað erfitt hefur verið með sölu hans, þá treysti minni hl. sér ekki til að bera fram till. um hækkun útflutningsgjalds um 1½% á þessum fiski, eins og í frv. felst. Þetta er því ástæðan fyrir því, að minni hl. hefur ekki treyst sér til að fylgja þessu frv., sem hér um ræðir. Þess skal getið, að við erum þeirrar skoðunar, að kosta beri kapps um að leysa vandkvæði þeirra hraðfrystihúsa, sem hér um ræðir, en við væntum þess, að með þeirri heimild, sem er í 22. gr. fjárlaga þessa árs um ríkisábyrgð fyrir allt að 5 millj. kr. láni í þessu skyni, megi takast að greiða fram úr þessu máli. Og víst er um það, að þegar þessi ábyrgðarheimild var til umræðu við fjárlögin, þá lágu ekki fyrir neinar aðrar till. til úrlausnar á þessum málum, og var því gengið fast eftir því þá, að sú úrlausn fengist, sem felst í þessari heimild fjárlaganna. Og minni hl. væntir þess, að ríkisstj. leiti ráða til þess, að svo megi verða. Það kann að vísu að vera rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að stuðningur samkvæmt þeirri heimild nái skammt til að leysa öll vandkvæði hraðfrystihúsanna hvað þetta snertir; það má vera, að svo sé, en nokkur úrlausn mundi þó felast í því, ef tekst að útvega það lán, sem gert er ráð fyrir í þessari heimild fjárlaganna. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að minni hl. hefur ekki getað mælt með frv. Og þá úrlausn, sem í frv. er lagt til að gerð verði á málum hraðfrystihúsanna og byggist eingöngu á því, að útflutningsgjald verði hækkað á saltfiski um 1½% og helmingi þess tekjuauka, sem renni við það í fiskveiðasjóð, verði varið til hraðfrystihúsanna samkvæmt sérstökum ákvæðum í frv., hefur stjórn fiskveiðasjóðs þó ekki fellt sig við. — Hef ég þá ekki fleira um þetta mál að segja, með því að ég hef nú gert grein fyrir afstöðu minni hl. í þessu máli.