20.02.1951
Neðri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram hjá flm. þessa frv., að sú athugasemd, sem ég kom hér fram með og einnig kom fram í bréfi S. Í. F., að rangt væri farið með það í grg. fyrir frv., að ekkert útflutningsgjald væri greitt af saltfiski, hefði við rök að styðjast. En hv. flm. vilja draga úr þessari rangfærslu sinni með því, að það, sem sagt er í grg., megi skoðast og eigi að skoðast þannig, að saltfisksframleiðslan sé aðeins undanþegin gjaldi því, sem rennur til fiskveiðasjóðs. En það er alls ekki undanþegið í grg. eins og hún er prentuð á þskj. 552, en þar segir í upphafi grg.: „Samkvæmt ákvæðum gildandi laga (nr. 38 1948) er saltfiskur undanþeginn útflutningsgjaldi.“ Og þar með er setningin búin. En eins og ég benti á áðan og fram kom í bréfi stjórnar S. Í. F., þá er þetta gjald 1.35% af bátafiski og 0.85% af togarafiski. Hitt er rétt, að af saltfiski er ekki greitt fiskveiðasjóðsgjald, sem nemur 1½% hjá öðrum framleiðendum.

Í sambandi við þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram hjá hv. flm., þá er það ekki margt, sem þeir færa fram til rökstuðnings fyrir frv., nema það, að sanngjarnt sé, að jafnhátt útflutningsgjald sé greitt af saltfiski og öðrum útfluttum sjávarafurðum. En það er mín skoðun, að sé of hátt gjald greitt af frosnum fiski, þá sé það lítil röksemd, að sama gjald skuli einnig lagt á saltfisksframleiðsluna, sem býr þegar við of þröngan kost. Það er staðreynd, að hraðfrystihúsin standa nú tæpast undir því 75 aura gjaldi, sem þau greiða fyrir fiskinn, en hversu erfitt sem húsin eiga með að standa undir að greiða þetta verð, þá eiga saltfisksframleiðendur sýnu verr með það og standa nú mun hallari fæti en hraðfrystihúsin. Ef lög þau, sem giltu í upphafi síðastliðins árs, hefðu gilt áfram, þá hefði verð á saltfiski numið um kr. 2.70 á kg, en nú getur S. Í. F. ekki gert upp með hærra verði en kr. 2.40 á kg, og hefur verðið því beinlínis lækkað á þessari vöru. Þetta stafar m. a. af því, að stór hluti af framleiðslunni, sem fór til Ítalíu, eða um 10–11 þús. tonn, hefur ekki fengið að njóta gengisbreytingarinnar nema að litlu leyti, og hækkaði verð á honum ekki nema að litlu leyti af þeim ástæðum, á meðan frysti fiskurinn naut þó gengisbreytingarinnar. Ég held því, að ef hv. þm. athuga, hve hlutur saltfisksframleiðslunnar er lítill, þá muni þeir ekki sjá ástæðu til að hækka svo verulega gjöld á henni, að nema muni um 2¼ millj. kr., ef miðað er við framleiðsluna 1950, til þess að veita lán til hraðfrystihúsa. Ég vil því láta haga þessum málum á gagnstæðan hátt við það, sem hv. þm. N-Þ. sagði, að ekki væri hægt, en það er að láta stofnlánadeildina halda sinu fé og að það fé, sem væri greitt þangað inn, héldist þar áfram, eins og til var ætlazt í fyrstu, en væri ekki endurgreitt jafnóðum og það innheimtist til Landsbankans. Hv. þm. N-Þ. taldi þessa leið ekki færa, en hann rökstuddi það álit sitt ekki neitt. Stofnlánadeildin var upphaflega stofnuð með 100 millj. kr., en nú eru ekki eftir nema 76 millj. kr., hinar 24 millj. hafa verið endurgreiddar til Landsbankans jafnóðum og þær hafa verið greiddar inn í stofnlánadeildina. Ef þessar 24 millj. kr. væru nú til staðar, þá hefðu þær getað staðið undir stofnlánum þeim til hraðfrystihúsanna, sem hér er verið að reyna að afla, og þá hefði ekki þurft að leggja þetta gjald á saltfisksframleiðsluna, sem þegar á í vök að verjast. En af hverju segir hv. þm. N-Þ., að þessi leið sé ekki fær? Hvers vegna þarf að grípa til þess óyndisúrræðis að leggja þessa skatta á saltfisksframleiðsluna?

Hv. þm. Snæf. sagði, að vegna þess, að fiskveiðasjóður hefði lánað til fiskþurrkunarhúsbygginga, væri réttmætt að leggja þennan skatt, sem rynni til fiskveiðasjóðs, á saltfisksframleiðsluna. En þess verður að gæta, að saltfisksframleiðslan hefur goldið drjúgar upphæðir í fiskveiðasjóð undanfarin ár, þótt hún hafi verið undanþegin þessum gjöldum upp á síðkastið. Frystihúsareksturinn hefur fengið fyllilega eins mikið lán og saltfisksframleiðslan hefur fengið, miðað við það framlag, sem þær hafa lagt í sjóðinn. Ég hygg, að þetta séu ekki gild rök fyrir því að bæta þessu gjaldi ofan á saltfisksframleiðsluna til þess að standa undir þessum sjóði. Ég gæti vel fallizt á að létta af nokkru af útflutningsgjöldum af framleiðslu hraðfrystihúsanna, því að þau eru líka orðin of há. En vandamálin á að leysa á annan hátt en þann, að skattleggja framleiðsluna, sem stendur svo illa að vígi.

Ég vil vænta þess, að hv. þm. gæti vel að, hvernig þessum málum er varið, áður en þeir hækka skattana á saltfisksframleiðsluna, eins og lagt er til í þessu frv.