20.02.1951
Neðri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. sjútvmrh. er hér viðstaddur þessa umr., og þar sem þetta snertir útveginn mikið, væri æskilegt að fá hjá honum nokkrar upplýsingar, áður en málið er afgreitt út úr deildinni. Ég vil því óska þess, að hæstv. forseti hefði áhrif á ráðh., svo að hann verði viðstaddur þessa umr., þar sem hann hefur ekki áður látið sjá sig við þessar umr. (Atvmrh.: Hvað?) Ég var að lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. ráðh. væri hér viðstaddur þessa umr., þar sem málið snertir sjávarútveginn, og segði álit sitt á því, hvort hann vildi, að málið næði fram að ganga. (Atvmrh.: Ég sýni það væntanlega með atkv. mínu.)

Það er alkunna, að fjármál útvegsins eru ekki í góðu lagi, og Alþingi skildi þannig við málið, að er fjárlög voru afgr., var ekki gengið frá, hvernig inna ætti af hendi auknar greiðslur í hlutatryggingasjóð, og ekki er heldur vitað, hvernig ríkisstj. ætlar að sjá skuldaskilasjóði fyrir fjármagni. En verst af því öllu eru hinar ógreiddu sjóveðskröfur skipverja frá síðustu síldarvertíð. Það má segja, að þessi fjármál sjávarútvegsins séu öll nokkuð skyld hvert öðru og m. a. það, sem hér er á dagskrá. Það væri því ekki óviðeigandi, að hæstv. sjútvmrh. gæfi upplýsingar um þessi mál, m. a. hvernig hann hugsar sér að afla hlutatryggingasjóði tekna eða hvort hann álíti, að sjóðurinn komist af með þær tekjur, sem hann hefur nú; enn fremur um það, hvaða ráðstafanir eigi að gera til að greiða sjóveðskröfur síldveiðisjómanna frá síðustu síldarvertíð. Þá væri og æskilegt að fá upplýsingar hjá hæstv. sjútvmrh. um það, hvort hann teldi, að saltfiskssala og saltfisksverkun sé fær um að inna af hendi það gjald, sem lagt er til, að verði sett á saltfisksframleiðsluna til þess að afla lánsfjár handa hraðfrystihúsunum. Ég skil fyllilega þá nauðsyn að afla hraðfrystihúsunum lánsfjár, en hitt verður líka að líta á, að saltfisksframleiðsla okkar er í mikilli niðurlægingu eins og sakir standa. Því fer fjarri, að ég sé að kasta steini að nokkrum manni, þótt ég segi þetta, en það er öllum vitanlegt, að saltfisksframleiðsla okkar lá niðri flest stríðsárin og nú fyrst á tveim síðustu árum hefur hún verið tekin upp aftur, svo að teljandi sé, og á því tímabili, sem saltfisksverkun hefur legið niðri, hafa menn vanizt af henni og kunna ekki eins til þessara verka og áður, enda varð árangurinn sá á s. l. ári, að talið er, að til muni vera talsvert magn af saltfiski í landinu, sem er óseljanlegt eða því sem næst.

Saltfisksframleiðsla okkar stendur því á miklu lægra stigi en fyrir ófriðinn, og er álitið, að það þurfi sterkt átak til þess að afla okkar saltfiski sama álits á erlendum markaði og hann naut fyrir stríð. Nú miðar þetta frv. að því að efla hraðfrysta fiskinn á kostnað saltfisksins, en einmitt á sama tíma og saltfiskurinn hefur litið verið framleiddur, hefur hraðfrystur fiskur verið mikið framleiddur víðs vegar um land. Ég veit ekki, hvort þessi atriði hafa komið hér fram við umr. áðan, en ég gat því miður ekki verið viðstaddur síðustu klukkustund. Mér fannst þó rétt að benda á þetta, þar sem hér er verið að leggja til við Alþ., að sérstakar kvaðir eigi að leggja á saltfisksframleiðsluna, og ég hygg, að ég ýki ekki, þegar ég segi, að hún standi mjög höllum fæti samanborið við framleiðslu á hraðfrystum fiski, bæði af því, að gömul viðskiptasambönd varðandi saltfiskinn hafa rofnað síðan fyrir stríð, og eins vegna hins, að verkunarháttum hefur farið aftur, og veitti því ekki af að sýna saltfisksframleiðslunni sérstakan stuðning til þess að auka gæði þeirrar vöru, svo að hún verði hæfari til útflutnings, og væri þetta miklu eðlilegra en að leggja nýjar kvaðir á saltfisksframleiðsluna til þess að styðja aðra framleiðslu, sem stendur ágætlega í samanburði við saltfisksframleiðsluna. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvmrh., hvort hann vilji ráðleggja þm.samþ. þetta frv. og hvort hann telji þessar mótbárur gegn frv. á rökum reistar, því að ef á að leggja 3 millj. kr. gjald á þessa atvinnugrein, sem að vísu er ekki mjög há upphæð á okkar mælikvarða nú, þá er hún þó meiri en svo, að saltfisksframleiðslan geti borið hana, og er ekki sanngjarnt, þar sem hún stendur eins höllum fæti og raun ber vitni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar, en þætti mikilsvert, ef hæstv. sjútvmrh. vildi sjá aumur á okkur og upplýsa okkur um þessi mál, því að sjálfsagt mun hann taka hér til máls.