20.02.1951
Neðri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég verð að láta undrun mína í ljós út af þeirri meinfýsni og illkvittni, sem ævinlega einkennir ræður hv. þm. Ísaf., því að ég kem ekki svo í d., að hann sæti ekki lagi til að vera með skammir í minn garð. Hv. þm. veit, að ég hef tvisvar legið í lungnabólgu á þessu ári, og mér er óhætt að fullyrða, að ég hef unnið meira fyrir sjávarútveginn með mínum vinnubrögðum en hann, því að minn vinnudagur er oft 10–12 klukkustundir, þótt ég sé ekki hér í d. Hv. þm. má vita það, að ég geri það, sem mér er kleift, fyrir þessi mál, og það mun koma á daginn, að mér verður meira ágengt í þessum málum heldur en honum með nöldri sínu hér í d.

Varðandi fsp. hv. þm. um það, hvað liði greiðslum á sjóveðskröfum sjómanna frá síldarvertíð síðasta sumars, þá hélt ég, að honum hefði verið kunnugt um, að stjórn skuldaskilasjóðs hefði látið í ljós, að þetta mál stæði ekki á sjóðnum, heldur á öflun upplýsinga frá sjómönnum sjálfum. Þetta snertir málið í heild, þótt um undantekningar geti verið að ræða.

Varðandi það atriði, hvort ég væri ánægður með hag hlutatryggingasjóðs annars vegar og fiskveiðasjóðs hins vegar, álít ég, að þeir — og þ. á m. hv. þm. Ísaf. —, sem komu á fót hlutatryggingasjóði, hafi illa séð fyrir tekjuöflun honum til handa. Hv. þm. Borgf. hefur mikið barizt fyrir að bæta úr þessu máli, og hef ég haft ríka tilhneigingu til að snúast á sveif með honum. Ég neyddist samt til að greiða atkv. móti till. hans, af því að ég tel ekki vera hægt að leggja þennan skatt á almenning á þessu ári til þess að efla hlutatryggingasjóð, samtímis því sem óhjákvæmilega þarf að leggja aðrar byrðar á almenning.

Hvað snertir frv. það, sem hér liggur fyrir, er það mín skoðun, að hér sé mikið réttlætismál á döfinni. Eins og hv. þm. er kunnugt, var ætlunin að veita vissa fjárupphæð til þess að bæta úr nauðsyn hraðfrystihúsanna, en vegna breyt. á gengisl. var þessum tekjustofni svipt í burtu. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem stóðu fastast með þessu máli, beri fram slíka till. til þess að bæta úr brýnni nauðsyn.

Ég mun þó ekki treysta mér á þessu stigi til að greiða atkv. með frv., þar sem ég tel ekki fært að bæta þessum bagga á saltfisksframleiðsluna, og get fallizt á ýmislegt, sem hv. þm. Ísaf. sagði um þetta mál. Það er rétt, að verð á saltfiski hefur ekki hækkað, en hefur jafnvel lækkað, og það væri því ekki vanþörf á að verja fé og fyrirhöfn til þess að bæta verkunaraðferðir saltfisksins.

Ég hygg þá, að ég hafi gert hv. þm. Ísaf. betri skil en hann mér í sinni ræðu.