04.12.1950
Neðri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

28. mál, Stýrimannaskólinn

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. formanni sjútvn., .að við leggjum ekki til, að gerðar verði breytingar á þessu frv. En ég vil láta í ljós þá persónulegu skoðun mína, að það var ástæðulaust af Ed. að fella niður þá gr. frv., sem leyfði, að þýzkukennsla yrði felld niður. Um hitt atriðið, að lögfesta 4 fastakennara við skólann, má segja, að Ed. hafi litið öðrum augum á það atriði en við, því að í rauninni hefur þetta verið framkvæmt á þennan hátt, sem frvgr. segir, og lög í þá átt því ekki annað en staðfesting á framkvæmdinni. En mér finnst, að Ed. hefði þá átt að hafa sama hátt á hinu, að fella niður úr l., að skylt sé að kenna þýzku, því að það er ekki annað en viðurkenning á staðreynd, og þá staðreynd óskar skólastjóri að fá staðfesta. Það þarf ekki kennara til að sjá og skilja það, að í 18 mánaða skóla er ekki hægt að kenna 3 tungumál, svo að gagni megi verða. Nú er það svo í l., að það á að kenna 3 tungumál við skólann, en raunin hefur orðið sú, að þýzka hefur fallið niður, en aðeins kenndar enska og danska. Sá, sem hefur lært nokkuð í málum, veit, að í 18 mánaða skóla, þar sem kenndar eru svo tímafrekar greinar sem siglingafræði, þá er mjög erfitt að bæta þýzkunámi ofan á. Nú er meira en 7 tíma kennsla á hverjum degi, og þar af fara 2 tímar í ensku og dönsku, og má því nærri geta, að erfitt er að bæta þýzkunni við, og hæpið, að enska sé kennd nægilega.

Ég ætlast ekki til, að þessi hv. deild fari að hrekja málið á milli deilda, en ég vildi aðeins vekja athygli á þeirri skoðun minni, að Ed. hafi ekki haft ástæðu til að gera þá breytingu á frv., sem hún gerði.