20.02.1951
Neðri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

161. mál, hraðfrystihús og útflutningsgjald af sjávarafurðum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg, að hæstv. sjútvmrh. hafi misskilið mína ræðu, því að það var ekki ætlun mín að kasta hnútum að honum og enn síður finna að því, að hann hafi notið óhóflegrar hvíldar vegna veikinda, því að mér er mjög mikil ánægja í að sjá hann heilan hér á Alþ. Áhugi minn fyrir að ræða við hann um sjávarútveginn er eingöngu sprottinn af áhuga málefnisins vegna, en ekki til að kasta rýrð á hæfileika hæstv. sjútvmrh., sem ég á engan hátt dreg í efa, því að þar sem hann beitir vilja sínum, hefur hann möguleika til að koma meiru fram en margir aðrir. Mér hefur þó fundizt upp á síðkastið, að hann beiti sér ekki eins fyrir þessum málum og ég hafði haldið að hann mundi gera. Þó má vel vera, að ég hafi ekki rétt fyrir mér, en það er þá af því, að ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með störfum hans á sviði sjávarútvegsins. Mér var t. d. ókunnugt um það fyrr en nú, að greiðslur á sjóveðskröfum síldveiðisjómanna frá síðasta sumri hafi dregizt vegna vöntunar á upplýsingum frá sjómönnum. Ég vona því, að Alþýðusamband Íslands og aðrir viðkomandi aðilar sjái um, að þessum kröfum verði framvísað hið allra fyrsta, þar sem hæstv. sjútvmrh. hefur upplýst, að ekki standi á fé til þess að greiða þær, og vonandi dregst þetta mál ekki lengur, sem er orðið öllum til leiðinda, er nálægt því hafa komið.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ráðh. er á sömu skoðun og ég og fleiri, að eins og sakir standa sé ekki rétt að samþ. þetta frv. þrátt fyrir mikla þörf hraðfrystihúsanna, m. a. af þeirri ástæðu, sem ég hef fært hér fram, að saltfisksframleiðslan stendur höllum fæti vegna þess, hve lengi hún hefur legið niðri.

Mér þótti leitt að heyra, að hæstv. sjútvmrh. skyldi ekki geta fallizt á till. tveggja flokksbræðra sinna varðandi tekjuöflun til hlutatryggingasjóðs, og ég viðurkenni yfirsjón mína og annarra að hafa ekki séð sjóðnum fyrir nægilegu fé frá upphafi.