12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

11. mál, hvíldartími háseta á togurum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt síðan þetta frv. var afgr. í nefnd, en það hefur tafizt á fundum ýmissa ástæðna vegna. Nefndarálit liggja nú fyrir, bæði frá meiri og minni hluta sjútvn., og einnig hafa þingmenn gert grein fyrir skoðunum sínum á málinu. Ég býst ekki við löngum umr. um þetta mál, og ætla ég ekki að telja afgreiðslu þess.

Það er búið að flytja þetta mál á nokkrum undanförnum þingum, án þess að samkomulag um það hafi náðst. En ef Alþingi hefði borið gæfu til þess að samþ. slíkt frv. sem þetta á síðasta þingi, hefði það að líkindum komið í veg fyrir hina langvarandi stöðvun á togurum á síðastliðnu sumri, því að hásetum hefði þá verið tryggður viðunandi hvíldartími, en það hefði haft í för með sér auðveldari leið að samkomulagi milli útgerðarmanna og sjómanna. En eftir hinar löngu deilur hefur hásetum tekizt að knýja fram nokkrar af þeim umbótum, sem í þessu frv. eru, en ekki allar. Og mér finnst viðeigandi af Alþingi að viðurkenna þann rétt, sem hásetar hafa þegar fengið með baráttu sinni, og tryggja jafnframt hvíldartímann á togurunum, svo að þetta mál stæði að minnsta kosti ekki í veginum fyrir samkomulagi, þegar eitthvað bjátar á. Að lokum vil ég svo mælast til þess við hv. þd., að hún felli hina rökstuddu dagskrá, sem fram hefur komið, og samþ. þetta frv.