12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

11. mál, hvíldartími háseta á togurum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég á frv. á þingskjali 12, sem er svipaðs efnis og þetta frv., en það er þó frábrugðið þessu frv. að því leytinu, að í því kveður svo á, að jafnan skuli skipta sólarhringnum í fjórar sex stunda vökur. Þetta er sú aðferðin, sem reynzt hefur heppilegust í framkvæmd í sambandi við hvíldartímann. En þótt þarna sé mismunur á, mun ég ekki bera fram brtt. við þetta frv., heldur fylgja því eins og það er.

Ég þykist sjá, að örlög þessa frv. séu ráðin, þar sem stjórnarflokkarnir hafa lagzt gegn því í nefnd, og er sýnilegt af þessu máli, að togaraverkfallið hefur ekkert kennt þeim. Ég tel, að togaraverkfallið, sem hér var í sumar, hefði ekki orðið svona langt, ef till. minni hl. sjútvn. hefðu verið samþ. á síðasta þingi.

Togarasjómenn hafa þá sérstöðu, að þeir hafa lengri vinnutíma en allir aðrir og jafnframt því erfiðari vinnu en aðrir. Vinna þeirra er og þess eðlis, að þeir verða sakir skorts á líkamshreysti að hætta við hana löngu áður en þeir, sem aðra vinnu stunda í landi. Þrátt fyrir þetta hefur meiri hluti Alþingis ekki talið rétt að stytta vinnutíma þeirra.

Það má að vísu segja, að búið sé að semja um þessi mál og því ekki vænlegt að fara að breyta því nú. En vel má vera, að upp komi ágreiningur um þau atriði, sem þeir samningar ná ekki til, og þá hefði meiri hluti Alþingis betur eitthvað lært af togaraverkfallinu í sumar. En því mun nú ekki vera að heilsa, og því munu þeir, sem greiða atkv. gegn frv., bera ábyrgð á þeirri deilu, á sama hátt og þeir báru ábyrgð á togaraverkfallinu í sumar.