03.11.1950
Efri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

60. mál, kaup á ítökum

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég get verið mjög orðfár um þetta mál. Þetta frv. var hér til umr. í fyrra og fór þá gegnum þessa hv. d., að vísu ofurlítið öðruvísi en það er nú, þannig að hv. þdm. er tilgangur þess mjög vel kunnur. Breyt. á því frá því í fyrra er aðeins á 1. gr. Það var talað um það þá hér m. a. af hæstv. dómsmrh., að það væri ekki vel ljóst eftir 1. gr. og mundi kannske koma til greina vafi í því sambandi, hvað væri ítak og hvað væri ekki ítak. Ítak er réttur manna til afnota af jörðum eða sérstökum landsnytjum, sem aðrir eiga. En í fyrra var það í frv. kallað ítak, ef maður ætti land inni í landi jarðar, sem væri eign annars aðila. — Til þess að fyrirbyggja, að þarna kæmi fram árekstur milli þess, sem lögfræðingar kalla ítak og hins landsins, sem ítakið liggur í eða fyrir, þá er það nú tekið fram í frv., að ítak þýðir ekki landið, heldur réttindi til ákveðinna landsnytja í landi, sem aðrir menn eða aðilar eiga. Ef A á jörð og B á rétt til að heyja þar, þá er það ítak, sem B á í landi jarðar A.

Að öðru leyti en ég hef greint nú, er þetta frv. alveg eins og það frv., sem flutt var um þetta efni á Alþ. í fyrra. Var það þá töluvert rætt, og þarf ég því ekki að hafa lengri framsögu um það. — Ég óska, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.