14.11.1950
Efri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

60. mál, kaup á ítökum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vera kann, að frv. þetta sé eitthvað betur úr garði gert en í fyrra, en engu að síður virðist mér það þurfi nánari íhugunar við en hv. landbn. hefur veitt því.

Ég vil fyrst vekja athygli á því varðandi 3. og 4. gr., hvort það sé ekki nokkuð hart aðgöngu, að ítak skuli falla niður, ef eigandi þess lýsir því ekki eins og þar greinir, jafnvel þótt vitað sé og hann hafi tryggt með þinglýsingu, að ítakið eigi sér stað og sé fyrir hendi. Í flestum tilfellum hygg ég, að ítaka sé getið í veðmálabókum, og ég verð að segja það, að mér finnst það mjög hart aðgöngu, ef slík óvéfengjanleg sönnun liggur fyrir ítaki, að þá sé engu að síður hægt að fella það niður vegna þess að aðila hefur yfirsézt að taka eftir auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Maður hefur yfirleitt talið rétt sinn svo öruggan, ef þinglýsing hefur átt sér stað, og sá réttur hefur verið óvéfengjanlegur og ef til vill notaður öldum saman, að maður ætti ekki að þurfa að líta í Lögbirtingablaðið til þess að sjá, hvort ætlunin væri nú að fella þennan rétt bótalaust niður. Ég efast um það, hvort þessi ákvæði geti staðizt, að minnsta kosti virðast mér þau allsendis óeðlileg. Mér finnst ekki vera hægt að ganga lengra í þessu en að ítaksþola eða eiganda þeirrar jarðar, sem ítakið á, væri gefinn kostur á innan tiltekins frests að gera tilkali til ítaka sinna. Með því móti virðist mér að réttar þeirra sé nægilega gætt.

Þá sýnist mér einnig óeðlilegt, að það sé héraðsdómari, sem eigi að tilnefna menn í yfirmat, eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér sýnist miklu eðlilegra, að hæstarétti væri falið þetta hlutverk. Það er undirdómur, sem tilnefnir menn í undirmat, en ef menn vilja leggja í kostnað við yfirmat og taka á sig þann kostnað, sem því er samfara, virðist mér meiri trygging í því fyrir alla aðila, að það væri hæstiréttur, sem tilnefndi þá matsmenn. — Á sama hátt virðist mér það óeðlilegt varðandi 6. gr. að láta við það sitja, að aðeins sé um undirmat að ræða, ef mat á sér stað, er ágreiningur er um sölu á ítaki. Það væri sýnu nær, að hægt væri að fella sig við þetta, ef heimilt væri að skjóta þeim ágreiningi, sem þar um ræðir, til yfirmats, og þá væri eðlilegt, að þeir yfirmatsmenn væru tilnefndir af hæstarétti. — Þessu til viðbótar vil ég geta þess, að mér finnst ákaflega óeðlilegt ákvæði í brtt. n. við 5. gr., sem fjallar um, að dómari þess lögsagnarumdæmis, sem eigandi ítaksins er heimilisfastur í, skuli tilnefna þriðja manninn við yfirmatið. Þarna getur verið um fleiri en eitt heimilisfang að ræða, það er heimili jarðarinnar, sem ítakið er í, og svo heimilisfang eiganda jarðarinnar, sem á ítakið, og eftir gr. er það dómari í því heimilisfangi, sem á að tilnefna oddamanninn, en það væri sýnu nær, að dómari í heimilisfangi jarðarinnar, sem ítakið er í, gerði þetta. Við skulum taka sem dæmi, að hér væri um að ræða jörð í Norður-Múlasýslu, en eigandi ítaksins væri í Reykjavík, og þá væri það dómari í Reykjavík, sem ætti að tilnefna oddamanninn. Ef ætlunin er að fylgja þeirri hugmynd, sem sýnist vaka fyrir nefndinni, þá er miklu eðlilegra að láta það vera dómarann heima í héraði jarðarinnar, sem þarna tilnefni oddamann. Það er í samræmi við þá meginreglu, sem frv. fylgir, svo að ég held, að þetta hljóti að vera skyssa. En aðalatriðið er það, að mér finnst eðlilegast, að þegar yfirmat á sér stað, sé það hæstiréttur, sem tilnefni matsmennina, en ekki dómarar heima í héraði.

Ég áskil mér rétt til þess að flytja brtt. við frv. við 3. umr., en mundi þó telja hitt eðlilegra, að n. tæki málið enn til athugunar og athugaði, hvort ekki mætti koma frv. í skaplegra horf en það er í.