17.11.1950
Efri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

60. mál, kaup á ítökum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við síðustu umr. hér í d. hreyfði hæstv. dómsmrh. nokkrum aths. viðvíkjandi frv. og eins viðvíkjandi brtt. 145. Síðan hefur n. tekið málið fyrir á ný, og hæstv. dómsmrh. mætti á fundi n. og samkomulag varð um það milli n. og hans að taka aftur brtt. 145, en koma með í staðinn brtt. 178, sem við allir, nm. og dómsmrh., erum sammála um. Það var gert ráð fyrir því í frv. og hinni till., að niður félli réttur manna til kaupa á ítökum af sjálfu sér, ef þeir hefðu ekki gert tilkall til þeirra innan þriggja ára frá síðustu birtingu í Lögbirtingablaðinu. Þetta þótti hæstv. ráðh. ganga nokkuð langt, og þó það sé samhljóða ákvæði, sem áður var samþ. um skógarítök og þá var engum mótmælum hreyft gegn, þá varð samkomulag um það milli n. og ráðh., að aftan í væri hnýtt: „nema ítaki sé lýst í þinglesnu landamerkjabréfi þeirrar jarðar, sem ítakið liggur í eða fyrir.“ Þetta er 1. brtt. við 4. gr. — Svo þótti fara betur á því að gr., sem áður var 6. gr., yrði 5. gr., hún er að mestu leyti eins, og er engin efnisbreyt. á henni.

Svo benti hæstv. ráðh. á það undir umr., að hann teldi, þegar þessi ítök væru metin, að það væri eðlilegra að láta gilda um þau sömu reglur og land, sem tekið er eignarnámi. N. tekur því aftur till. á þskj. 145 og setur í staðinn þessi ákvæði, sem nú eru aftan við 6. gr., að ef ekki næst samkomulag um kaupverðið, þá skuli ítakið metið á sama hátt og land, sem tekið er eignarnámi samkv. l. um eignarnám. Með þessu móti hafa aths. hæstv. ráðh. verið teknar til greina, og er fullt samkomulag um það milli hans og n. að leggja til, að frv. verði samþ. með þessum brtt.