23.10.1950
Efri deild: 7. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv., sem var að nokkru leyti samhljóða þessu frv., var flutt hér á síðasta þingi, en náði ekki afgreiðslu þar. Ég þarf því ekki mörg orð til að fylgja því úr hlaði, þar sem um gamlan kunningja er að ræða. Í frv. er gert ráð fyrir örlítilli ívilnun fyrir konur, sem vinna utan heimilisins og mundu lenda í hærri skatti, ef talið væri sameiginlega fram fyrir hjónin, heldur en ef þau teldu fram sitt í hvoru lagi. Og er því gert ráð fyrir, að draga megi frá skattskyldum tekjum upphæð, sem nemur þeim kostnaði, sem af því leiðir að hafa ráðskonu á heimilinu, en þó ekki hærri upphæð en tekjur konunnar nema. Þetta verður ekki mikill kostnaður fyrir ríkissjóð, og ég vona, að þetta nái nú fram að ganga á þessu þingi. — Ég vil svo óska, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.